13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. frsm. tók að mestu af mér það ómak að andmæla fyrri brtt., sem þm. Árn. hafa borið hér fram og gengur í þá átt, að leggja byggingar- og landnámssjóð undir landbrh. Fyrr má nú breyta lögum um bankastarfsemi á svo stórfelldan hátt en ætla að gera það á þennan hátt, með einfaldri brtt. Í síðari lið till. stendur: „Tillögur nýbýlanefndar um styrki og lán úr deildum sjóðsins skulu jafnan lagðar fyrir nýbýlastjóra, en hann leggur tillögurnar fyrir landbrh., sem tekur um þær fullnaðarákvarðanir.“ Hér er í frv. eingöngu átt við þá deild sjóðsins, sem annast lánveitingar til nýbýla. En með brtt. eru allir styrkir og lán úr sjóðnum, jafnt til eldri og yngri býla lagðir undir landbrh. Í þessu felst ekkert annað en að flytja byggingar- og landnámssjóð í stjórnarráðið, eða a. m. k. yfirstjórn hans. Í frv. er ákveðið, að nýbýlastjóri taki fullnaðarákvarðanir í samráði við landbrh., en í brtt. er þetta fellt niður. Lánveitingar til nýbýla eru því hér með alveg lagðar á vald ráðh., og valdsvið hans fært út, svo að það nær til annara lána og styrkja líka. Vitanlega kemur ekki til mála, að slík bylting sé gerð með brtt. Auk þess rekst hér allt hvað á annað hvað orðalag snertir. Með orðunum „Á sama hátt“ í frv. og „á sama hátt“ í brtt. er átt við allt annað. Ég held því, að brtt. þessi sé svo að efni og formi úr garði gerð, að ekki nái nokkurri átt að samþ. hana, eins og hv. frsm. hefir þegar bent á.