13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Bjarni Bjarnason:

Ég sé, að allmikil hreyfing hefir komizt á suma hv. þdm. út af brtt. okkar þm. Árn. Að okkar áliti er það alveg á misskilningi byggt, að ekki sé sama tilefni til þess, að styrkir og lán úr byggingar- og landnámssjóði til endurbygginga fari eftir tillögum nýbýlanefndar og nýbýlastjóra eins og styrkir til nýbygginga. Við teljum sjálfsagt, að hið sama gangi yfir báðar deildir. En máske hefði þó verið réttara að fella ekki orðin „í samráði“ niður, en ef nýbýlanefnd og nýbýlastjóri eru aðili annarsvegar og landbrh. hinsvegar, verður auðvitað að gera ráð fyrir samvinnu. — Ég get fallizt á, að „Á sama hátt“ í upphafi brtt. sé óheppilegt orðalag, og mun koma með skrifl. brtt. um að orðið „ennfremur“ komi í staðinn. Ég mun líka geta fallizt á og flutt brtt. um, að orðin „í samráði“ verði sett inn aftur.

Ég hefi orðið þess var, að sumir þm. ætla, að við viljum með þessum brtt. gera málið pólitískt. En fyrir okkur vakir það eitt, að samræma þessar deildir, sem annars eru klofnar í tvennt á óeðlilegan hátt, þótt sumum hér virðist kappsmál að halda þeirri skiptingu.