13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jón Pálmason:

Ég vil undirstrika það frekar, að ég óska þess eindregið, að þær brtt., sem hér liggja fyrir við frv., verði allar felldar. Það er fyrst og fremst að því er snertir brtt. frá hv. þm. Árn., að aðalefni þeirra er, eins og þegar hefir verið drepið á, að draga þessa deild Búnaðarbankans undir nýbýlastjóra, sem kemur þessu máli ekkert við. Það virðist fullkomlega nægilegt, að nýbýlanefndin og nýbýlastjórinn hafi tillögurétt um lánveitingar þeirrar deildar Búnaðarbankans, sem veitir lán til nýbýla, þó að það sé ekki sett undir þá n. að gera till. um, hvernig lánunum skuli hagað úr byggingar- og landnámssjóði. Þessi skrifl. brtt., sem leitað var afbrigða fyrir, breytir þess vegna engu. Hún lagar lítilsháttar formið, sem í sjálfu sér er aukaatriði, en hitt er aðalatriðið, að hér á að færa til yfirstjórnina yfir þessari stofnun, sem er óviðkomandi því frv., sem hér liggur fyrir.

Að því er snertir brtt. hv. þm. V.-Húnv., sem felur það í sér að hækka lán til einstakra nýbýla, þá skal ég taka það fram, að ég er þeim einnig mótfallinn, af því að hér verður að haga svo háttum í þeirri starfsemi, sem hér er ætlað að setja á stofn, að veita styrk og lán til sem flestra aðila, sem um það sækja. N. hefir bundið sig ákveðið við það hámark, sem í frv. stendur, og ég verð að segja, að þó að það kunni ekki að þykja nógu aðgengilegt, þá verða það samt þannig kjör, að engin slík hafa áður verið á boðstólum, og ekki eru líkur til annars en það ætti að vera fullnægjandi fyrir þá menn, sem á annað borð hafa vilja og getu til þess að stofna til þeirra nýbýla, sem um er að ræða. Ef farið er hærra, er enn meiri hætta á því en ella, að þetta verkaði á þann hátt, að menn mundu heldur kjósa að komast inn undir ákvæði þessara laga heldur en að búa áfram á þeim jörðum, sem nú eru í byggð. En það er kunnugt mál, að heildarverð ýmissa þeirra jarða er miklum mun lægra heldur en ætlazt er til, að verði stofnverð þeirra býla, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. Ég vildi því eindregið mælast til þess við hv. þm., að þeir felldu allar þær brtt. sem hér liggja fyrir. Þó að svo sé, að ég er ekki ánægður með stjórn þessara mála, eins og ég tók greinilega fram við 2. umr. þessa máls — og mínar brtt. voru þá felldar —, þá vil ég ekki gera svo mikið númer úr þeim ágreiningi, að ég af þeim sökum snúist gegn þessu máli. Þó að það færi að mínu áliti betur á annan veg, þá er engan veginn loku fyrir það skotið, að því megi breyta síðar til betri vegar.