13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér er sagt, að meðan ég var fjarverandi hafi hæstv. forseti sagt eitthvað viðvíkjandi brtt. sinni og hv 2. þm. Árn., og honum hafi fundizt ég taka of djúpt í árinni, þar sem ég sagði, að þessi brtt. væri óframbærileg bæði að formi og efni. Hvað formið snertir hefi ég fengið viðurkenningu á orðum mínum frá hv. flm. frv., en brtt. hans nær ekki nema örskammt til leiðréttingar á formshlið till. Hv. 2. þm. N.-M. hefir ekki lagað hana til fulls hvað formið snertir. En það er aukaatriði.

En frá efnisins sjónarmiði er hún ekki frambærileg. Till. felur í sér að taka af stjórn Búnaðarbankans yfirráð með fullnaðarúrskurði um lánveitingar úr byggingar- og landnámssjóði og fela þau landbrh. Ég álít ófært að bera fram svo stórstíga breyt., sem hér er um að ræða, á síðasta stigi máls, eins og hér er gert, auk þess sem það nær vitanlega ekki nokkurri átt að láta ráðh. úrskurða um lánveitingar úr lánsstofnun í landinu. Lánsstofnanirnar eiga hvað þetta snertir að vera óháðar hinu pólitíska valdi, en nú er það vitað, að ráðh., hver sem hann er, er í orðsins fyllstu merkingu fulltrúi hins pólitíska valds í landinu, það er að segja hins ráðandi meiri hl. á hverjum tíma, svo það er ekki hægt að gera hinu pólitíska valdi hærra undir höfði í þessu efni heldur en með því að ætla að láta velta á úrskurði ráðh. um það, hvernig lánveitingum er hagað. Frá þessu sjónarmiði álít ég till. alls ekki frambærilega, auk þess hvað óviðeigandi er að láta slíka brtt. koma fram á síðasta stigi málsins. Ég tek því ekkert aftur af því, sem ég hefi sagt um þetta efni, og ætla, að það sé fullkomlega rökstutt.