13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég gat þess áðan, að ég hefði fengið viðurkenningu frá flm. þessarar brtt. fyrir því, að hún væri óframbærileg að formi til. Nú hefi ég fengið viðurkenningu á því frá hæstv. forseta, að hún sé einnig óframbærileg hvað efnishliðina snertir, því hann kvaðst vera hálfhræddur við að leggja styrkveitingarnar til nýbýla undir úrskurð hins pólitíska valds ráðh. En þessi hræðsla kemur svo fram í því, að hann vill líka leggja lánveitingar úr byggingar og landnámssjóði undir þetta sama vald. Ef þetta er ekki að stangast við sjálfan sig, þá veit ég ekki, hvað það er. Ég þarf þannig ekki frekari viðurkenningu á því frv. hv. flm. þessarar till., að það sé rétt hjá mér, sem þeir kalla stóryrði, að hún sé ekki frambærileg, hvernig sem á hana er litið. Er nú aðeins eftir að láta hv. d. reka smiðshöggið á og staðfesta það, hvort ég hefi ekki rétt fyrir mér. Það kemur væntanlega fram við atkvgr.

Hæstv. forseti henti að mér harðyrðum út af því, að ég léki ekki mjög á riðli með skoðanir mínar hér í d., og er það meira heldur en hægt er að segja um suma aðra, jafnvel hæstv. forseta sjálfan. Það er rétt, að ég reyni að halda fast við skoðanir mínar, þó hitt sé vitanlega ofmælt, að ef það kemur fyrir, að mér skjátlist, þá fáist ég aldrei til að viðurkenna það. Ég stend fast við mínar skoðanir, þegar ég hefi rétt fyrir mér, og ég byggi skoðanir mínar æfinlega á því, að ég hafi rétt fyrir mér. Og hvað sem annars má um mína þingsögu segja, þá hygg ég, að ekki verði sagt, að ég hafi látið annarlegar ástæður eða góð boð frá valdhöfunum hlekkja mig til þess að hvika frá skoðunum mínum, — og taki þeir sneið, sem eiga.