13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Um þetta ákvæði um úrskurðarvald ráðh. er það að segja, að í frv. er stjórnarfyrirkomulagi þessara mála yfirleitt komið þannig fyrir, að landbrh. hefir æðsta valdið. Undir hann er sett nýbýlanefnd og nýbýlastjóri, og ef þar kemur upp ágreiningur, verður eitthvert vald að vera til að skera úr. Fannst okkur eðlilegast, að það væri landbrh., þar sem hér er að ræða um eina aðalgrein þeirra mála, sem undir hann heyra. Það hefði vitanlega mátt byggja frv. þannig upp, að nýbýlastjóri hefði æðsta valdið, en okkur þótti eðlilegra, að einhver væri yfir hann settur, því það mun vera sjaldgæft, að ráðamenn ríkisins á hinum ýmsu sviðum verði ekki að lúta einhverju æðra valdi. Þegar svo ákveðið er í frv., að æðsti maður á þessu sviði skuli vera landbrh., þá er ekki nema eðlilegt, að hann sé einnig látinn hafa úrslitavaldið um það, hvernig ráðstafað er styrknum til nýbýla, ef ekki næst um það samkomulag. En einmitt eðlileg afleiðing af því, að ráðh. ræður yfir styrkveitingunum, er hitt, að hann ræður einnig um lánveitingarnar, því undir flestum kringumstæðum hlýtur það að fara saman, að sömu mennirnir fái styrk til nýbýla og nýbýlalán. Það þýðir ekki að veita styrk í eina áttina og lán í aðra, svo það vald, sem ákveður skiptingu styrksins, hlýtur um leið að hafa áhrif á ráðstöfun þeirra lána, sem við styrkinn eru bundin.