17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég ætla engan veginn að bæta við framsögu hv. form. n. En ég vil ekki skiljast svo við þessa umr., að ég láti ekki fylgja örfá orð frá mínu sjónarmiði. Við teljum þetta allir eitt af mestu nauðsynjamálum vorum, sem kemur hér fram nú vonum seinna. Með þessu er reynt að beina fólksstraumnum frá sveitunum til bæjanna í gagnstæða átt. Mér hefir alltaf skilizt, að þetta væri eina leiðin, að ríkissjóður legði fram fé í býli og ræktun.

Í framkvæmd málsins teldi ég mestu varða, hvar nýbýlunum verður valinn staður. Þau eiga náttúrlega að vera þar, sem skilyrði til ræktunar eru bezt og nærtækur og góður markaður við hendina fyrir afurðir búanna.

Ef marka á stefnubreyt. um að beina fólksstraumnum í sveitina, þá tel ég hyggilegast, að sem flest býli standi saman, samvinnubyggðir á sameiginlegu ræktunarlandi. Þar tel ég mestar líkur til, að fólkið tylldi betur, því það er sjálfsagt dálítið vegna fámennis og einangrunar, að fólkið hefir farið úr sveitinni. Það var svo áður hér á landi, að í kringum stórbýlin voru smábýli nokkuð mörg; þar var fólk, sem lifði í þurrabúð og sótti til sjávarfanga og lifði ódýru lífi, og það er svo enn, að ódýrara er að lifa í sveit en í kaupstöðum, og er óþarfi að rekja það her. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég hefi dálítið ýtt á eftir þessu máli. m. a. með flutningi frv., þó ekki væri eins vel undirbúið og þetta frv. — það skal játað — þá var það byggt á sömu hugsun, að ríkið ætti að styrkja nýbýli og nýbýlahverfi í því skyni að halda fólkinu í sveitinni.