17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég sé ekki annað en annaðhvort verði að fresta fundi eða geyma frekari umr. til 3. umr., og það ætla ég, að sé heppilegra. Út af framkomnum ummælum frá hv. 4. landsk. vil ég leyfa mér að taka fram, að landbn. leggur ekki höfuðáherzluna á samvinnubyggðir, og ég get heldur ekki séð, að frv. sjálft geri þeim neitt hærra undir höfði en nýbýlunum. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á 13. gr. frv., þar sem talað er um þrennskonar nýbýli, er hafi rétt til styrks. Í fyrsta lagi nýbýli reist af ábúanda sjálfum. Í öðru lagi nýbýli, sem reist kunna að verða á opinberri eign, þjóðjörðum eða jörðum í eign sveitar- eða bæjarfélaga, og í þriðja lagi samvinnubyggðir. Vitanlega er allt jafnrétthátt samkv. frv.

Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mjög er undir því komið um mál þetta, hvernig framkvæmdin verður. Og við erum sammála um það, að velja beri heppilega staði, með það fyrir augum, að búskapur á býlum þessum verði sem álitlegastur. En það þarf ekki endilega að vera þannig, og á ekki alstaðar bezt við, að mörg býli séu reist saman. Mér fannst nauðsynlegt, að það kæmi þegar fram, að þetta er ekki sá skilningur, sem nefndin í heild eða hv. deild leggur í frv., heldur fari það eftir rannsókn og því, hvað reynslan leiðir í ljós, að heppilegast sé.