19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að ég sakna þess, hvað málið hefir verið lítið rætt hér í hv. d., einkum vegna þess, að ég býst við, að 2. umr. hafi farið fram þann eina dag, sem ég gat ekki sótt fund. Ég tel sjálfsagt, að mönnum gefist kostur á að ræða málið frá báðum hliðum.

Það hagar svo til hér á þingi um stóru málin, að ef maður kynnist þeim ekki í n., þá er ekki auðvelt að kynnast þeim vel, og sérstaklega meðan málin eru í hinni d., þá lætur maður þau liggja á hillunni og hugsar sér að kynnast þeim, þegar þau koma í þá d., þar sem maður á sæti, en ég veit ekki, hvert maður á að sækja sér fræðslu til þess að kynna sér mál, þegar afgreiðsla þeirra er þannig, að þegar þau koma úr n., þá hefir hún ekkert um málin að segja; þetta eru kannske stórir lagabálkar, og maður fær ekki neina skýringu á þeim.

Ég hefi ekki haft sérstaklega mikil skilyrði til þess að kynna mér þetta mál, og þó að ég hafi fyrir löngu síðan lesið yfir ástæðurnar fyrir frv. eins og það kom fram, þá hefði ég mjög óskað eftir, að umr. hefðu farið fram, sem ekki hefðu þurft að vera langar, en að það hefði þó a. m. k. nokkurnveginn verið lýst aðalatriðum málsins, því að það er áreiðanlegt, að ef á annað borð verður nokkuð úr framkvæmdum eftir þessum l., þá er hér um mjög stórt mál að ræða. Það er sjálfsagt alveg rétt, sem hv. þm. S.-Þing. sagði, að sú viðleitni, sem kemur fram í þessu frv., hefir sjálfsagt allra manna samúð. Ég hygg, að öllum komi saman um, hvort sem þeir eru í sveitum eða kaupstöðum, og hvort sem þeir hafa sérstaklega hug á málefnum sveita eða kaupstaða, að straumur fólksins úr sveitunum til kaupstaðanna veldur miklum vandræðum og örðugleikum, og ef um verulegar umbætur í því efni væri að ræða, þá mundu þær sjálfsagt fá samúð, ekki einu sinni flestra, heldur allra manna, sem á annað borð vilja starfa að því, sem til gagns má horfa. Þess vegna hefði mér þótt vænt um, ef ég hefði fengið skýringar, sem hefðu gefið mér þá trú, að þetta þjóðarmein mundi læknast, þegar þetta mál kemur til framkvæmda, en ég hefi hana mjög litla, og ég byggi það ekki á þessu frv. út af fyrir sig. Ef þetta væri fyrsta tilraunin, sem gerð væri í þessa átt, þá hefði ég kannske haft þá barnalegu trú, að það mundi hafa stórkostleg áhrif. En þegar maður er búinn að sjá, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er ekkert nema einn liður í þessu þrjátíu ára stríði, sem háð hefir verið hér á landi á þessu sviði, og þegar maður sér, að árangurinn er enginn annar en sá, að fólksstraumurinn hefir alltaf orðið örari og örari úr sveitunum, þá hefir maður ekki mikla trú á því, þegar verið er að setja l., sem lítur ekki út fyrir, að neinn þjóðaráhugi sé fyrir, að það séu nokkrar líkur til, að það verði að gagni.

Þann tíma, sem ég hefi verið hér á þingi, hefir það alltaf verið eitt af aðalmálum þingsins, hvernig hægt væri að halda fólkinu í sveitunum. En það var dálítið villandi, sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um, að nú um allangt skeið hefði verið við völd sá flokkur, sem hefði sérstaklega gert þetta að sínu stefnumáli, að halda fólkinu í sveitunum og bæta hag þess. Ég veit ekki betur en allir flokkar eigi óskilið mál í þessu efni, a. m. k. eins og þeirra starf hefir komið fram á þingi. Á þeim árum, sem aðalandstöðuflokkur hæstv. núv. stj. var við völd, 1924 —1927, veit ég ekki betur en að alltaf hafi verið gerðar ráðstafanir í þá átt, og þá voru gerðar þær ráðstafanir, sem reynzt hafa einna drýgstar. Það var einmitt á þessum tíma, þegar Framsfl. var í stjórnarandstöðu, að jarðræktarl. voru sett í framkvæmd. Þau voru sett áður en Framsfl. var nokkurs megnugur. Hann var að verða til rétt um það bil, sem sendimaðurinn úr herbúðum sósíalista kom í Framsfl. Ég man, að frsm. frv. var Þórarinn á Hjaltabakka, og ég man ekki betur en að allt þingið hjálpaðist að að setja þessi l.. En þar var sá galli á, eins og nú er, að þótt góð l. séu sett, þá er ekki hægt að framkvæma þau. L. stóðu eins og dauður bókstafur, þangað til íhaldsfl. hafði komið fjárhag ríkisins í það lag, að hann gat látið framkvæma þau ágætu ákvæði, sem voru í þessum l. Það má því hiklaust segja, að þessi flokkur, sem hefir svona mikinn áhuga fyrir að halda fólkinu í sveitunum, hafi ekki komið í framkvæmd þessum megintilraunum, sem gerðar hafa verið, og þeim einu tilraunum, sem hafa borið talsverðan árangur, því að það hefir hingað til reynzt svo, að það eina, sem getur stuðlað virkilega að því, að hagur manna í sveitum batni, er það, að þeim sé veittur styrkur til þess að koma jörðunum í lag.

Ég veit ekki betur en að það hafi líka verið á þessum sömu árum, sem ræktunarsjóðurinn nýi var stofnaður, önnur aðalsúlan undir þessum framkvæmdum, sem hafa farið fram í sveitum. Svo hefir verið haldið áfram í þessu langa stríði; svo kemur byggingar- og landnámssjóður, sem hv. þm. S.-Þ. átti mikinn þátt í að koma áfram. Hann samdi það frv. upphaflega þannig, að enginn annar en hann einn gat verið með því, en eftir að mínir flokksmenn voru búnir að lagfæra frv. og breyta því svo, að það stóð ekki nema ein gr. óbreytt af því, sem frv. var upphaflega, var það samþ. Það hefir verið afnumið útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, skattalöggjöfinni hefir verið breytt, að sem minnst af sköttunum lenti á sveitamönnum, en sem mest á þeim óguðlegu kaupstaðarmönnum. Það hefir verið reynt að hækka verð á landbúnaðarafurðum, þó að það hafi gengið misjafnlega í framkvæmdinni. Yfirleitt á öllum þeim þingum, sem ég hefi setið á, hafa verið gerðar endalausar ráðstafanir til þess að hefta þennan straum. Það hafa verið settir upp skólar úti um allt land með ærnum kostnaði. Þeir hafa líka átt að kyrrsetja fólkið í sveitunum, en um það er ég í efa, að þeir hafi þar borið tilætlaðan árangur. Ég held, að sumir þessir alþýðuskólar hafi verkað eins og dælur á fólkið, þeir hreint og beint dæla fólkinu úr sveitunum í kaupstaðina, þar sem hvorki eru rafmagnsljós eða miðstöðvar né önnur þægindi, sem fólkið býst við, í sveitunum. Svo kemur fólkið í skólana og nýtur þar þessara þæginda, sem það heldur, að sé sérkenni kaupstaðanna, og þá heldur það ekki ánægðara heim í sveitina aftur, þar sem þess bíður fámenni og skortur á þægindum. Ég held því, að skólarnir beinlínis kenni mönnum að vilja ekki sveitina aftur. Þeir blátt áfram hafa ekki getað haldið fólkinu í sveitinni, nema það sé kallað að halda því í sveitunum, að það sé þar á meðan það er í þessum skólum. það má segja í þessu sambandi, að það sé ekki betra, að fólkið fari í kaupstaðina og gangi í skóla þar, en það er vitanlegt, að skólarnir lokka fólkið, sem í kringum þá er. Margt af því færi annars ekki í skóla, en leitaði sér menntunar á þann hátt, sem Íslendingar urðu að gera áður, með bóklestri á sínum heimilum, og þá var miklu meiri menning í landinu en nú.

Hvernig stendur á því, að svona hefir gengið, þegar alltaf er verið að gera ráðstafanir til þess að halda fólkinu í sveitunum? Hvernig stendur á því, að Molbúarnir gátu aldrei látið birta í kofum sínum, þá að þeir reyndu að bera ljósið inn í fötum? Þeir stóðu jafnundrandi yfir því eins og menn standa nú yfir því, að ekki skuli lukkast að halda fólkinu í sveitunum, hvernig sem þeir reyna, eins og hv. þm. S.-Þ. orðaði það svo fagurlega, að kaupa það til þess að vera kyrrt í sveitinni. Hvernig stendur á þessu? Það er auðséð, að hér er verið að berjast við eitthvað með aðferðum, sem ekki duga. Það er sýnt þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir, að fólkið vill vera í bæjunum. Það flytur þangað, sem það vill vera, hvaða ráðstafanir sem menn reyna að gera til þess að hefta það. Það fer með fólkið eins og með tvö stöðuvötn, sem standa misjafnlega hátt, og svo er mjó rás á milli. Það heldur áfram að renna eftir rásinni, þangað til jafnt er orðið í báðum vötnunum. Eins er það með fólkið það leitar jafnvægis. Straumurinn heldur áfram, þangað til jafnvægið er fengið, og kemur þá stundum straumur til baka, því að oft vill heldur fara yfir markið, þegar allt er látið eiga sig.

Nú gætu menn sagt að þetta væri predikun um, að ekkert ætti að gera. En það er alls ekki. Ég held, að það sé rétt af þjóðfélaginu að reyna að sjá rætur meinanna og reyna að bæta úr þeim, en þar eigum við allmikið eftir og miklu minna hægt að gera en menn halda. En það, sem menn verða framar öllu að varast, ef eitthvað er gert, það er að gera ráðstafanir, sem stangast hver á móti annari. En það er einmitt það, sem gerzt hefir hér. Um leið og gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að halda fólkinu í sveitunum, hefir það beinlínis verið lokkað til þess að flytja í kaupstaðina. Það er gert m. a. með því að skapa því öryggi á mölinni, sem það hafði ekki áður en þær ráðstafanir voru gerðar. Þær hafa orðið til þess, að menn hafa yfirgefið grasnytina og þá möguleika, sem alltaf eru fyrir hendi til að draga fram lífið í sveitinni, þó að það sé kannske ekki eins skemmtilegt líf eins og menn halda, að sé í kaupstöðunum. Og ef menn kynnu að óttast, að atvinnan bregðist í kaupstöðunum, þá eru samtímis gerðar ráðstafanir til þess að geta sagt við fólkið: „Nei, góði minn, ef atvinnan bregzt, þá er ekkert annað en að láta ríkið kosta atvinnu handa kaupstöðunum, og ef þú færð ekki vinnu hjá þeim fyrirtækjum, sem þar eru, þá getur þú fengið atvinnubótavinnu. Þú getur líka treyst þinni atvinnuleysistryggingu, og ef þú getur ekki greitt iðgjaldið, þá verðurðu að sjá svo um, að l. verði endurbætt þannig, að ríkissjóður greiði iðgjaldið. Þú skalt því flytja í kaupstaðinn. Að vísu færðu þar hundalíf, en það er gaman að vera þar“.

Þannig er í raun og veru predikað fyrir mönnum, og þótt undarlegt sé, þá gera það þeir sömu menn, sem mest fárast yfir því, að fólkið flykkist úr sveitunum. Og svo bera þeir fram þing eftir þing frv. eftir frv. um að stöðva þennan straum og styrkja landbúnaðinn, því að engir hafi það eins bölvað eins og bændurnir. Það er „agitationin“ til þess að halda fólkinu í sveitunum, að þótt verkamennirnir hafi lítið, þá hafi bændurnir það þó verst af öllum. (BSt: Þetta segir Mogginn líka). Mogginn hefir aldrei verið að greina fólkið þannig í sundur eins og þeir flokkar, sem lifa ekki á öðru en því að vilja halda fólkinu í sveitunum og halda svo um leið þessar líka mjög svo fögru ræður um, hve indælt sé að vera þar og lokka fólkið til þess að vera þar kyrrt. Nei, það merkilega við þetta er það, að hér er verið að gera ráðstafanir alveg jöfnum höndum í báðar áttir. Um leið og verið er að kosta fé og heilabrotum til þess að halda fólkinu í sveitunum, þá er kostað um leið fé og heilabrotum til að gera sem álitlegast að flytja í kaupstaðina og útmála, hvað vont sé að vera í sveitunum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, á að gera mikinn mun á þessu, svo mikinn, að fólkið ekki aðeins hætti að flytja úr sveitunum, heldur einnig að fólkið flytji úr kaupstöðunum og stofni nýbýli. Ég hefi verið að líta yfir ástæðurnar, sem færðar eru fram í grg. frv. Þar eru birtir búreikningar, og af öllum þeim búreikningum, sem ég hefi séð, eru það þeir einu búreikningar, sem hafa gefið afgang. Ég gæti hugsað, að þeir litu eins út, þegar þeir yrðu birtir, eins og þeir verða í reyndinni. Annars er ómögulegt að sjá á þessari grg., hvaða gæði nýbýlanna það eru, sem eiga að gera mönnum kleift að búa þar, fyrst það gengur svo ákaflega illa að fleyta lífinu fram á þeim jörðum, sem fyrir eru. Ég vil taka aðeins eitt dæmi, og það er kostnaðurinn við að húsa bæ í sveit. Hv. þm. S.-Þ. gat um það, að ekki væru mörg ný hús í sveitum, sem væru ekki byggð fyrir styrk úr byggingar- og landnámssjóði. Ég þekki persónulega mörg dæmi þess sem mætti sjálfsagt margfalda með 10 eða 100 til þess að fá út það, sem er, að maður hefir byggt hús á jörð með láni úr byggingar- og landnámssjóði og hefir með því eyðilagt sinn efnahag, svo að þótt hann hafi verið sæmilega stæður áður, þá hefir hann með byggingunni steypt sér í óbotnandi skuldir og hefir jafnvel hrökklazt frá jörð sinni. Mér er óskiljanlegt, hvernig sá bóndi, sem ekki stenzt að byggja hús á jörð, sem hann á fyrir, og hefir sæmilegar ástæður, á að geta staðizt að koma upp húsum, býli og búi og geta svo búið farsælum búskap. Mér er það óskiljanlegt, og ég skil það þú, því að ég veit, að þetta getur ekki átt sér stað. Það verður að stofna nýjan kreppulánasjóð eftir nokkur ár til þess að hjálpa þessum mönnum, sem hafa látið glæpast af búreikningum grg., rétt eins og þegar menn eru að ferðast á pólinn, og svo verður að senda á hælana á þeim hjálparleiðangur.

Fyrir utan þann kostnað allan, sem af því leiðir að reisa nýbýli frá rótum, skilst mér, að sá, sem býr á nýbýlinu, eigi að greiða fyrningu af húsum sem svarar 1%, svo að hægt sé að byggja allt upp á nýtt eftir 40—50 ár. Þetta á allt að vera svo afskaplega fínt og flott! Ég veit ekki, hversu mikið þetta verður, en ég get vel hugsað mér það, ég skal játa, að ég man ekki. hvað húsnæðið er mikið, en við skulum hugsa okkur, að verði að borga 100—150—200 kr. á ári. Það er svona tvöfalt útsvarið, sem hann verður að borga til þess að gera það kleift að byggja upp aftur eftir 40—50 ár. Það er dálítil viðbót ofan á allt annað. Ég hafði haldið, að þetta gjald innheimtist vel!

Nei, þetta getur ekki blessazt. Gamlir og góðir bændur hafa, þrátt fyrir allt það ljós, sem hefir verið borið í fötum inn í hús þeirra, komist í þau vandræði, sem kreppuráðstafanirnar hafa skýrast leitt í ljós, og þó halda menn, að það sé hægt að komast af með því að stofna dýrari býli, þó að þau séu kannske að sumu leyti hentug. Ég hefi litla trú á því, og skal ég koma að því síðar í sambandi við fleiri atriði í ræðu hv. þm. S.-Þ.

Ég álít þetta ákaflega varhugavert og mikið efamál, hvort það borgar sig, bæði fyrir þjóðfélagið og sveitirnar líka, að taka þannig fé til þessara hluta, vitaskuld aðallega frá sjávarplássunum, til þess að koma þessum býlum upp. Ég efast stórlega um það. Þetta er alveg samskonar og það, ef einhver er of blóðlítill og á að lækna hann með því að dæla í hann blóði úr heilbrigðum líkama. Það væri hæpin ráðstöfun, ef því væri haldið áfram, þangað til heilbrigði maðurinn væri orðinn hálfdauður líka. En það er einmitt það, sem hér á að gera. Það á að taka blóð úr þeim, sem betur kemst af, og dæla inn í hinn og honum lofað að blæða út áfram þangað til báðir liggja dauðir.

Nei, það, sem er langmesta atriðið fyrir afkomu sveitanna, er það, að sæmileg velmegun sé í bæjunum, þar sem er helzti markaðurinn fyrir afurðir bændanna. En það eru helztu ráðstafanirnar, sem gerðar eru fyrir sveitirnar, að leggja sí og æ meiri og meiri gjöld á þá, sem búa í kaupstoðum, og lækka allar tekjur manna þar og ætla sér með því að koma nýju lifi í landbúnaðinn. En það er eitt það, sem gerir, hvað þessar ráðstafanir hafa verkað lítið, að þær hafa samtímis verkað í þá átt að veikja þann almenning, sem átti að taka við þeim afurðum, sem landbúnaðurinn hefir haft aflögu.

Ég vil þá minnast á hitt atriði þessa frv., samvinnubyggðirnar. Annað atriði þessa frv. er að stofna nýbýli, en hitt að þeir flytji saman og komi upp samvinnubúskap. Ég held, að það sé ýmislegt skynsamlegt í þessari hugmynd um samvinnubúskapinn, þrátt fyrir þessa hneigð, sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um, að væri hjá sveitamönnum til að búa í dreifbýli. Það mega vera miklar andstæður í þeim mönnum, sem vilja fyrir hvern mun komast úr sveitinni í fjölmennið í kaupstöðunum, ef þeir vilja helzt búa svo langt frá öðrum í sveitinni, að þeir sjái ekki nokkurn mann. Það kann að vera, að það sé einn og einn maður, sem er þannig skapi farinn, en hitt er efalaust, að yfirleitt vilja menn heldur nábýli og það, sem af því leiðir. Menn vilja auðvitað vera út af fyrir sig og eiga sitt, en þeir vilja gjarnan vera þar, sem er nokkuð mikið af fólki samankomið. Ég get vel trúað, að samvinnubyggðirnar verði nokkurskonar sveitaþorp, sem muni draga sveitafólkið þó nokkuð mikið að sér. Það getur lent þar í dálitlum solli; það er ágætt, það vill fólkið hafa. Þar verður líka svo og svo mikill nágrannakritur, ósamlyndi og ófriður, sem er og hefir verið ein af helztu lífsnauðsynjum Íslendinga frá því fyrsta. Svo að ég get vel trúað því, að samvinnubyggðafélögin með öllum þeim ófriði og solli, er þeim mun fylgja, geti komið til með að draga fólkið til sin. En hvernig er það með þessar samvinnubyggðir? Hefir það fyrirkomulag ekki þekkzt áður? Ég man ekki betur en að í Danmörku væri eitt sinn mikið unnið að því að fá fólkið til þess að flytja út á sín lönd, eins og það var kallað, og búsetja sig þar. Þessum húsmannalóðum var skipt út úr löndum herragarðseigendanna og jarðeignaherrunum í Danmörku þótti þægilegra að ná í þetta fólk til þess að þræla fyrir sig eða til að heimta af því skatta og skyldur. (BSt: Var það ekki svo, að herrarnir ættu löndin, sem býlin voru reist á?). Jú, og þeim þótti hentugt að ná til fólksins á þennan hátt, og þægilegra að þurfa ekki að búa saman við það á óðalssetrinu.

Það getur vel verið, að þessar samvinnubyggðir þrífist, ef tala býlanna nær einungis að vissu hámarki. Ef fólkinu líkar þar vel, þá sækir það vitanlega þangað í sollinn og ófriðinn, og spyr ekki löggjafarvaldið um leyfi til þess. — Og þá kemur annað vandamálið, á hvern hátt verði hægt að hefta strauminn til samvinnubyggðanna, eins og nú til kauptúnanna. Og svo verður byrjað á einhverjum ráðstöfunum í þá átt.

Svo er náttúrlega ekki um annað að tala en að þessu frv., eins og flestum öðrum, fylgi stofnun margra nýrra embætta. Fyrst og fremst er það nýbýlastjóri með ákveðnum launum, sem, eins og alltaf viðgengst nú á tímum, eru ákveðin af ráðherra. Og svo verður ekki langt þangað til þessi nýbýlastjóri þarf að fá nokkra menn í skrifstofu til þess að gegna hinum yfirgripsmiklu störfum! Þá er það nýbýlanefnd, þar sem hverjum nm. eru ætlaðar 10 kr. fyrir hvern fund, og svo stendur hér: „en þó ekki yfir 300 kr. á ári“. Form. n. kynni þá máske að halda fleiri fundi, ef til vill allt að 365 fundum á ári, til þess að auka tekjur nefndarmanna. Þá er ekki annar vandi fyrir höndum en að láta fjhn. flytja nýjar till. um aukna skatta og álögur, einkum á þá, er við sjóinn búa, — það er nú orðinn svo fastur siður.

Svo vil ég snúa mér með örfáum orðum að hv. þm. S.-Þ., ef hann annars er nokkursstaðar nálægur. Hann virðist ekki vera hér í þd., nema hann feli sig einhversstaðar á bakvið, eins og fyrri daginn. Hv. þm. var eitthvað að tala um, að Framsfl. hefði jafnan viljað halda fólkinu í sveitunum. Ég hefi áður bent á, að það er eitt af þeim málum, sem ég held, að allir flokkar hafi verið sammála um, að hefta fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna. Hv. um. var einnig að útmála það, hvernig útlitið hefði verið nú í landinu, ef ekkert hefði verið gert til þess af Framsóknarfl. að halda fólkinu í sveitunum, og taldi, að þá mundi það hafa verið eins og í Mið- og Norður-Englandi, þar sem fólkið hefir þyrpzt í borgirnar í iðnaðar- og námuhéruðunum. En aðstaðan hér á landi er náttúrlega á engan hátt sambærileg við það, sem er í Englandi. Stóriðnaðurinn í Englandi styðst við námurekstur og nálega dagleg verzlunarsambönd við önnur lönd og fjarlægar heimsálfur. En ef menn hinsvegar halda því fram, að það stafi eitthvert böl af því, að landbúnaðarþjóð verði skyndilega að meira eða minna leyti iðnaðarþjóð, þá er það ekkert annað en vitleysa, og einungis borið fram í þeim tilgangi að smjaðra fyrir landbúnaðinum. Þegar fólkinu fjölgaði sem örast í Þýzkalandi, þannig að það gat ekki lifað á landbúnaðinum, þá var stofnað til stóriðnaðar í borgunum, sem leiddi til þess, að margfalt fleiri gátu lifað í landinu og markaður aukizt fyrir landbúnaðarafurðir innanlands. — Það, sem gerzt hefir hér á landi, stefnir að miklu leyti í sömu átt. Eftir að kaupstaðirnir risu á legg, sem að langmestu leyti styðjast við sjávarútveg og iðnrekstur, þá hafa þeir tekið á móti því fólki, sem ekki gat haldið áfram að lifa á landbúnaði, svo að það hefir ekki þurft að flýja til Ameríku. Fólkið hefir því getað haldið áfram að lifa í landinu, enda hefir fólksfjölgunin aukizt mjög síðustu áratugina, eins og kunnugt er, og er mikill munur á því og þeirri blóðtöku, sem stafaði af fólksflutningunum til Ameríku á síðasta fjórðungi 19. aldarinnar. En vitaskuld er ekki hægt að líkja þeim breyt., sem hér hafa orðið á atvinnuháttum þjóðarinnar, við stóriðnaðarþjóðirnar.

Með því, sem ég nú hefi sagt, er ég ekkert að lýsa því, hvernig hefði verið umhorfs hér á landi, ef ekkert hefði verið gert fyrir landbúnaðinn af því opinbera. mér er ómögulegt að hugsa mér að það hefði getað komið fyrir, og veit ekki, hvernig það hefði mátt ske. Það hefir alltaf verið varið fé úr ríkissjóði til ýmiskonar framkvæmda í landinn, vega, brúa, síma, vita og allskonar umbóta fyrir sveitirnar. Það kann að vera, að í kaupstöðunum hefði nú verið nokkru fleira fólk, ef Framsfl. hefði aldrei náð völdum í landinu, — ég skal ekkert um það fullyrða. En ég er viss um, að atvinnuvegirnir hefðu nú staðið í mjög miklum blóma og haft góða afkomu, ef Framsfl. hefði aldrei fengið aðstöðu til að sliga þá, með þeirri skattapíningu, sem hann hefir beitt í sinni stjórnartíð. Það mætti því með miklu meiri rétti snúa við ummælum hv. þm. S.-Þ. og segja, að ef sneitt hefði verið hjá þeim fjármálaafglöpum, sem Framsfl. hefir framið síðastl. 7—8 ár, þá hefði nú verið miklu fleira fólk við framleiðslustörf í sveitunum, meiri markaður fyrir landbúnaðarafurðir í kaupstöðunum, og afkoman yfirleitt betri bæði til sjávar og sveita. Skipaflotinn væri nú endurnýjaður og aukið við hann nýjum togurum, ef útgerðarmönnum hefði ekki sífellt verið ógnað með auknum sköttum og álögum, og ef hv. 4. þm. Reykv. og samherjar hans væru ekki sífellt að ógna með krepptum hnefum og hrópyrðum um að eyðileggja atvinnurekendurna í kaupstöðunum og taka af þeim togarana. Það er ekki aðeins hnútasvipa skattaplágunnar, sem útgerðarmenn og einstakir atvinnurekendur verða undir að búa, heldur mannskemmdasvívirðingar í blöðum og á opinberum fundum, og jafnvel hér á sjálfu Alþingi. Mér finnst það, satt að segja, næstum óskiljanlegt, að útgerðarmenn skuli geta fengið sig til þess að halda atvinnurekstrinum áfram undir þeim skilyrðum, sem þeir eiga nú við að búa, þar sem stefnt er að því, vitandi vits, af hálfu löggjafarvaldsins (stjórnarflokkanna) og leiðtoga verkalýðsfél. að lama vilja og getu einstaklinganna til sjálfstæðs atvinnurekstrar, til þess að flýta sem mest fyrir því, að ríkið og bæjarfélögin taki við útgerðinni. Þessi stefna hefir ráðið lögum og lofum hér á landi síðastl. 8 ár.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort bezta ráðið til þess að halda fólkinu í sveitunum er fólgið í því, að lama atvinnurekendurna í kaupstöðunum. En ég tel meiri líkur fyrir því, að þegar markaður fyrir afurðir bænda er eyðilagður í kaupstöðunum, þá verði ekki léttara fyrir fólkið að lifa í sveitunum. Og ég geri ráð fyrir, að þessi óhæfilega aðbúð, sem stjórnarflokkarnir veita atvinnurekendum á öllum sviðum, leiði til þess, að landbúnaðurinn verði lagður í rústir. — Þess vegna væri miklu réttara að rífa gat á þakið á kofanum og lofa sólinni að skína þar inn, heldur en að ætla sér að bera sólskinið inn til bændanna í fötum.

Hv. þm. S.-Þ. gat þess, að í einu héraði hefði talsvert verið unnið í þá átt að fjölga býlum á einstökum jörðum, án nokkurs stuðnings frá því opinbera. Ég geri ráð fyrir, að þetta hafi verið í hans kjördæmi. Það hlýtur að vera eitthvað leyndardómsfullt við þétta, frá sjónarmiði þeirra manna, sem halda, að engar umbætur geti átt sér stað nema með framlögum frá ríkinu og vilja láta það eiga atvinnutækin og reka þau. — Hvernig stendur á því, að íbúar þessa héraðs hafa beitt sér fyrir félagslegum umbótum og framkvæmdum á því sviði upp á sitt eindæmi? Það hlýtur að vera þessum hv. þm. ráðgáta, þar sem hann hefir enga trú á einstaklingsframtakinu og vill koma öllum einkarekstri fyrir kattarnef. Hvernig stendur á því, að þeir hafa safnazt í kaupfélög og ráðizt í önnur fyrirtæki, stofnað til margbýlis á einstökum jörðum o. s. frv., alveg án opinberra ráðstafana eða aðgerða? Það er af því, að héraðsbúar hafa borið í brjósti svo þróttmikla ættjarðarást og brennandi áhuga, að þeir réðust til umbóta á kjörum sínum án þess að krefjast styrks eða borgunar fyrir það af opinberu fé. Sem sagt, það hefir verið þar gat á kofanum, sem hefir borið héraðsbúum betri birtu heldur en ef sólskinið hefði verið flutt inn til þeirra í fötum !

Ég er að vísu ekki eins kunnugur í Þingeyjarsýslu og hv. þm., en ég hygg, að einkaframtakið hafi vísað héraðsbúum á bjargráðin. Og mér finnst það mjög gleðilegt, að þeir skuli enn hafa búið að þeirri birtu, sem barst þeim í gegnum kofaþakið og örvaði þá svo mjög til framkvæmda í félagslegum efnum. — En ég er hræddur um, að þeir séu nú orðið ekki eins skarpskygnir í stjórnmálunum og þeir hafa ef til vill verið áður, og dreg ég þá ályktun af því, hvernig fulltrúa þeir völdu sér við síðustu alþingiskosningar. — Það er að vissu leyti gleðilegt að geta sem lengst varðveitt barnið í sál sinni, eins og hv. þm. S.-Þ. virðist hafa tekizt að nokkru leyti, svo sem ályktanir hans bera of greinilegan vott um. En þó er það óneitanlega dálítið broslegt, þegar hann heldur því fram og slær því föstu, að nýbýlamennirnir muni ekki koma til með að skulda fyrir annað en bústofninn. Það má með sanni segja, að hér birtist hin heilaga einfeldni hv. þm. í allri sinni nekt. Ég vil leyfa mér að benda á eitt samanburðardæmi til skýringar á því, hvað þessi ályktun hv. m. er fáránleg. — Það hefir löngum verið vitnað til þess, að þegar kaupfélögin voru stofnuð hér á landi, þá var það þeirra fyrsta og æðsta boðorð, að félagsmennirnir skyldu verzla skuldlaust. Var það ekki m. a. eitt af helztu boðorðum kaupfélags Þingeyinga? Skuldlaus verzlun var eitt af stefnuskráratriðum kaupfélagsskaparins, bæði í Englandi og hér á landi, sem hratt félögunum af stað og gaf þeim byr undir vængi í upphafi. Hvernig hefir því verið fullnægt í framkvæmdinni? Um það þarf ekki að fjölyrða. Kaupfélögin eru og hafa verið langstærstu skuldakóngar yfirleitt, sem þekkst hafa hér á landi. Og þó að miklu hafi verið fórnað til þess að hreinsa til í félögunum og fá skuldir þeirra gerðar upp og byrjað aftur á nýjum grundvelli, þá hefir ekki tekizt að fylgja þeim ásetningi að reka skuldalausa verzlun. Samvinnumennirnir hafa hvað eftir annað stofnað ný verzlunarfyrirtæki undir merki hinna gömlu og góðu vígorða um skuldlausa verzlun, en þeim hefir aldrei lánazt að fullnægja þeirri kröfu. — Nú er hér til meðferðar löggjöf um nýjar framkvæmdir og félagsskap meðal bænda, stofnun nýbýla og samvinnubyggða. Og það er gert ráð fyrir, að nýbýlabændurnir hafi engar skuldir, nema lítilsháttar fyrir hluta af bústofni sínum. Ef aðrar áætlanir, sem þetta frv. byggist á, eru álíka barnalegar og þessi, þá hefi ég ekki mikla trú á því. Ég hefi ekki trú á, að það takist, að koma miklu sólskini inn í þá nýbýlakofa. Hv. þm. var að tala um, að sæmilega efnaðir menn mundu verða fúsir til þess að stofna nýbýli.

Það kann að vera, að einhverjir bændasynir með bústofn í höndum ráðist í það. Og vera má, að þeir geti byrjað nýbýlabúskapinn að miklu leyti skuldlaust. En ef býlafjölgunin á að byggjast á því, að menn flytji þangað af mölinni úr kaupstöðunum, þá verða þeir ekki til þess, sem nokkur efni hafa, að flytja úr kaupstöðunum í sveitirnar, heldur fátæklingarnir, sem ekki draga uppi í kaupstöðunum og fá þar ekki atvinnu. Það þýðir ekki að vitna til þess, þó að sumir sæmilega efnaðir kaupstaðabúar leggi nú fé sitt í að rækta jörðina. Það dugir ekki að draga af því þá ályktun, að þeir muni að sjálfsögðu rjúka til og stofna nýbýli. ýmsir verja efnum sínum til þess að safna bókum og listaverkum, en aðrir leggja peninga sína í jarðrækt, byggingar o. s. frv. Fer þetta eftir eðli og upplagi hvers og eins. Nei, það eru þeir, sem enn dvelja í sveitunum, er stofna vilja nýbýli, og þeir fátæku úr kaupstöðunum, sem ef til vill óska að flytja út á landið. Þess vegna má helzt ekki gera ráð fyrir því, að þeir geti lagt fram fé af sjálfsdáðum. Ef það er gert að skilyrði fyrir því, að þeir fái styrk til nýbýla, þá verða þeir að fá þarf að láni hjá einstökum mönnum; og þá byrja þeir búskapinn með meiri skuldum en því stofnláni, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég er því hræddur um, að sú ósk og fullyrðing hv. þm. S.-Þing. rætist ekki, að nýbýlamennirnir byrji búskapinn skuldlaust. Annars er það höfuðgallinn á þessu frv., og sá, sem ég óttast mest, hinn sami og við hv. þm. S.-Þ. vorum að tala um í gær, í sambandi við frv. um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög til að stofna skóla með skylduvinnu, að það komi alls ekki til framkvæmda, vegna þess, að það verði svo fáir til að gefa sig fram um að reisa nýbýli. Náttúrlega verða einhverjir til þess, og þá sennilega þeir, sem minnstur veigur er í. Annars mun reynslan leiða í ljós hvað framtíðin ber í skauti sínu í því efni. Ég verð að segja það, að ég er dálítið undrandi yfir því, ef svo er, að bændur séu yfirleitt mjög ginkeyptir fyrir þessu máli; ég veit ekki, hvers vegna það ætti svo að vera, og sennilega hefir það alls ekki komið í ljós. Þetta er eitt þeirra mála, sem þingið flýtir sér að afgr. án umr., a. m. k. í þessari hv. d. Enda get ég ekki séð, að þetta frv. geri neitt annað en að þrengja að þeim bændum, sem nú eru fyrir í sveitunum, á allan hátt. Ef þessi lög væru mikið notuð og mörg nýbýli reist, þá fá þau svo og svo mikið af jarðræktarstyrknum, að vísu í öðru formi og undir öðru yfirskyni. En eftir því sem ríkissjóður veitir meira fé til nýbýla og nýræktar í sambandi við þau þá hefir hann minna fé til þess að veita bændum almennt til jarðræktar og annara búnaðarframkvæmda. Það á að draga úr þeim fjárframlögum, sem bændur fá nú, og verja því aftur til nýbýla. Gert er ráð fyrir að starfrækja ræktunarsjóð og byggingar- og landnámssjóð í tvennu lagi hvorn fyrir sig; eða m. ö. o. sagt, við hliðina á Búnaðarbanka Íslands, sem nú hefir það verkefni að styðja bændur til jarðræktar og húsabygginga, á að koma ný lánsstofnun, sem keppir við hann og veitir hagfelldari lán til nýbýla og jarðræktar í sambandi við þau. Og það fé er tekið frá þeim bændum, sem fyrir eru í landinu, bæði beint og óbeint.

Mér er ekki kunnugt um, hvort Búnaðarbankinn hefir haft svo mikið fé til umráða, að bændur hafi fengið þau lán, sem þeir hafa óskað eftir. Einn kunningi minn, sem bað mig að útvega sér lán þar, hefir lengi verið á biðlista hjá ræktunarsjóði; en hann er máske undantekning.

Hvers vegna ætti bændum að vera svo mikill fengur í því að fá nýbýlamenn við hlið sér? Geta þeir veitt bændum bróðurlegan stuðning í lífsbaráttunni? Nei, síður en svo. Þeir verða aðeins keppinautar bænda á hinum þrönga markaði landbúnaðarvaranna. Ætli það fari ekki um þetta svipað og gleiðgosabrag þann, sem var á ýmsum búnaðarleiðtogum fyrir rúmum áratug síðan, út af hinum stórfelldu ræktunarumbótum í nágrenni Reykjavíkur, þegar 100 ha. voru þar gerðir að túni? Skömmu síðar komu svo lagafyrirmæli frá löggjafarfulltrúum bænda, um að drepa hina nýju framleiðendur í nágrenni Reykjavíkur, af því að þeir væru keppinautar annara framleiðenda austan fjalls.

Nú eiga bændur enn að offra hluta af jarðræktarstyrk sínum og því lánsfé, sem þeir annars gætu átt kost á, til þess að fá nýja keppinauta. mér er óskiljanlegt, að þeir sækist nokkuð eftir þessari löggjöf, og veit ekki, hvort hún gerir þeim nokkurt gagn; en hún getur vissulega orðið til þess að þrengja kosti þeirra, sem fyrir eru.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. Ég vildi segja þessi fáu orð, ef það gæti orðið til þess að koma á stað umr., þannig að betur yrði gengið í gegnum frv. og ýms atriði þess betur skýrð bæði fyrir mér og öðrum. Hafi ég misskilið frv. á einhvern hátt, þá vænti ég, að það verði leiðrétt af hv. frsm., þó að þetta sé 3. umr. málsins. Mér þykir leitt, að hv. þm. S.-Þ. skuli ekki hafa þolinmæði til að hlusta á þá, sem eru fáfróðari í þessu merkilega máli, og áhuga fyrir því að veita þeim réttar upplýsingar. En ég verð þá að setja allt mitt traust á hv. frsm.