19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég get fullkomlega tekið undir það, sem hér hefir fram komið, að hv. þdm. hafa átt mjög erfitt aðstöðu til að athuga þetta mál, af því að það kom svo seint hingað frá hv. Nd. Þetta er náttúrlega alveg rétt, og auðvitað er þá líka þýðingarlítið fyrir fylgismenn málsins að ræða hér einstök atriði þess hvor við annan, þar sem engum breytingum verður framar við komið á þessu þingi. Hitt er svo annað mál, og ekkert við því að segja, þó við 3. umr. málsins rísi hér upp maður og tali á móti málinu, því nú er orðið um það eitt að ræða, hvort menn vilja fylgja þessu máli eða ekki. Þó ég geti gefið þá játningu, að hér hafi verið beitt nokkuð óvanalegri aðferð gagnvart hv. deild og að landbn. hafði lítinn tíma til að athuga frv., þá get ég samt ekki viðurkennt, að landbn. þessarar d. hafi ekki sinnt málinu svo forsvaranlega sem kostur var á. Hvað það snertir, að 2. umr. hafi staðið mjög stutt og litlar skýringar verið getnar á málinu af n. hálfu, eins og hv. 1. þm. Reykv. var að tala um í upphafi ræðu sinnar, — hann helt, að 2. umr. hefði staðið eitthvað um 5 mínútur, en hún stóð nú vitaskuld lengur —, þá er þess að geta, að málið var tekið hér fyrir til 2. umr. kl. 7, þegar venja er að gefa fundarhlé, og var það þá tekið fyrir samkv. ósk dm., sem gjarnan vildu ljúka dagskrá án kvöldfundar. Umr. urðu vitanlega stuttar; ég hygg, að kl. hafi verið hálfátta, þegar umr. var lokið, og umr. hafi þannig staðið yfir í hálfan tíma. Annars benti ég dm. á það við 2. umr., sem ég skal þó játa, að þeir hefðu getað tekið upp hjá sjálfum sér, að kynna sér þá mjög ýtarlegu grg., sem fylgdi frv., er það var fyrst borið hér fram. Enda kom upp úr kafinu í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hann hafði lesið þessa grg., því hann vitnaði í hana annað slagið, t. d. búreikningana, sem þar eru, og annað slíkt, og sýndi með því, að honum er þetta mál ekki eins ókunnugt eins og hann vildi vera láta.

Hv. þm. talaði um, að þetta væri svo sem ekki fyrsta tilraunin, sem gerð væri til þess að reyna að halda fólkinu kyrru í sveitunum. Og það er rétt hjá honum, að það hefir verið mikið unnið á síðari árum af löggjafar- og fjárveitingavaldinu einmitt að því, að sveitir landsins gætu verið byggðar áfram og fólkið gæti lifað sæmilegu lífi. En það klingir nokkuð annað í hv. 1. þm. Reykv., þegar komið er á þingmálafundi úti í sveitum landsins. Þá erum við framsóknarmenn endalaust skammaðir fyrir það, að við viljum ekki styðja að viðhaldi og framförum sveitanna. Meira að segja það, sem gert hefir verið í þessu efni fyrir forgöngu Framsfl., hafa sjálfstæðismenn oft viljað eigna sér eftir á, þó þeir hafi barizt á móti því meðan verið var að koma því fram, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerir nú. (MG: Svo sem eins og hverju?). Eins og t. d. byggingar- og landnámssjóði, sem hér var nefndur. (MG: Ætli það sé þá ekki eina dæmið?).

Þá var hv. þm. að tala um, að það mundu ekki vera neinar líkur til, þó þessi l. yrðu sett, að þau mundu verða neitt teljandi notuð, og þess vegna taldi hann í öðru veifinu, að þetta mundi verða gagnslaust til þess að ná þeim tilgangi, sem ætlunin er að ná. Já, það er nú náttúrlega svo á þessum breytingatímum, sem nú ganga yfir þjóðlífið, að það kemur fram að ýmsu leyti mjög einkennilegt ástand, ekki sízt í sveitunum. T. d. getur það átt sér stað, að í sama héraði fari það tvennt saman, að jarðir fari þar í eyði og að þó sé þar jarðnæðisleysi. Jarðir í dalbotnum og annarsstaðar þar, sem samgöngur eru slæmar, fara gjarnan í eyði, jafnvel þó þær hafi verið áður fyrr, á meðan atvinnuhættir voru allt aðrir, allgóðar bújarðir. Og ýmsar þessara jarða byggjast alls ekki aftur, hvernig sem að er farið, fyrr en þá einhverntíma í framtíðinni, þegar góðir vegir eru komnir þangað, sem verður vafalaust langt eftir að bíða, að góðir vegir komi fram í hvern afdalabotn. Svo geta aftur verið niðri í byggðinni ungir menn, sem gjarnan vildu byrja búskap, en geta beinlínis ekki fengið jarðnæði, sem er við þeirra hæfi. Sumir geta e. t. v. fengið jarðir, sem búið er að byggja upp og gera ýmislegt á, en þá eru þær venjulega orðnar svo dýrar og er haldið í svo háu verði, að með núv. verðlagi afurðanna sjá þessir ungu menn enga leið til að láta búskapinn bera sig á þeim, hvorki með því að kaupa þær eða leigja þær gegn því eftirgjaldi, sem krafizt er. Og þó á hinn bóginn séu á boðstólum niðurníddar jarðir, sem fyrirsjáanlega þarf strax að byggja upp, kemur svipað út; menn treysta sér ekki til að taka þær til þess að byrja á því að leggja í byggingarkostnað. Sú löggjöf, sem áður hefir verið sett fyrir Forgöngu Framsfl., í svipuðu augnamiði og þetta frv. er fram borið, hefir á undanförnum árum gert geysimikið gagn, og án hennar hefðu án efa fjölda margar jarðir lagzt í eyði, sem enn eru í byggð. Maður veit, að byggingar- og landnámssjóður hefir hjálpað mörgum manninum að koma upp forsvaranlegum húsum á jörð sinni. Byggingarnar hafa bara reynzt mönnum of dýrar, þrátt fyrir hjálp sjóðsins. því hygg ég nauðsynlegt, eins og fram kom í ræðu hv. þm. S.-Þ. áðan, að breytt sé þannig til með byggingar- og landnámssjóð, að hann veiti lán án þess að gerðar séu eins strangar kröfur um dýrleika bygginganna eins og hingað til hafa verið gerðar. Ég sé ekki annað en jarðirnar muni halda áfram að fara í eyði vegna hrörnandi bygginga, ef ekkert er að gert í því efni. Það má náttúrlega líta svo á, að hvað þetta snertir hafi orðið nokkur mistök í byrjun á því að framkvæma tilgang byggingar- og landnámssjóðs, en það skerðir ekki neitt gagnsemi og nauðsyn slíkrar stofnunar fyrir landbúnaðinn.

Þá var hv. þm. að tala um það — ég held að það hafi verið út af ræðu hv. þm. S.-Þ., að framsóknarmenn væru að þakka sér hitt og þetta í löggjöf landbúnaðinum til framdráttar, sem alls ekki væri þeim að þakka. Tók hann til dæmis jarðræktarlögin, að þau hefðu verið sett áður en Framsfl. kom til valda. Það er rétt, að þau voru sett áður en hrein framsóknarstjórn kom til valda árið 1927. En þegar jarðræktarlögin voru sett, árið 1923, þá átti Framsfl. hlutdeild í stj. og það var einmitt framsóknarmaður, sem það mál heyrði undir í stj. Hv. þm. sagði, að jarðræktarlögin hefðu ekki verið framkvæmd mörg ár eftir að þau voru lögtekin. Ég kannast ekki við það; ég man ekki eftir öðru en þau væru framkvæmd strax. Mig minnir einmitt, að ég og aðrir fengju jarðræktarstyrk strax á næsta ári.

Hv. þm. var að tala um, að sumar þessar ráðstafanir, sem við framsóknarmenn hefðum verið að gera til þess að halda fólkinu í sveitunum, hefðu mistekizt og straumurinn í kaupstaðina heldi alltaf áfram. Það eru nú náttúrlega ekki annað en ágizkanir, hvernig farið hefði, ef ekkert hefði verið að gert. Eins og hv. þm. minntist á, byrjaði þessi straumur fyrir löngu síðan, og ég held fyrr en hann taldi. Fyrst beindist fólksstraumurinn til Ameríku. Síðan tóku kaupstaðirnir við fólkinu, meðan útgerðin var í stöðugum vexti. En hvernig er þetta orðið nú? Nú er svo komið, að fólkið gengur atvinnulaust hópum saman í kaupstöðum og sjávarþorpum. Er þá álitlegt að bæta stórum hópum af fólki úr sveitunum við þessa hópa atvinnuleysingja í bæjunum? mér finnst það ekki vera. Hvað það snertir, að það sé einhverri óstjórn Framsfl. að kenna, að fólkið er atvinnulaust og ekki koma upp nægilega mörg ný atvinnufyrirtæki til þess að veita því atvinnu, þá er þetta það, sem maður heyrir stundum, en allir vita, að er ekkert annað en vitleysa. Það vita allir, af hverju atvinnuleysið stafar mest, að það stafar af sölutregðu íslenzkra afurða erlendis, sem vitanlega enginn flokkur hér á landi ræður nokkurn skapaðan hlut við. Ég efa það ekki, að það væri gott að fá nýja togara, því betra er að veiða fisk á togara heldur en gera ekki neitt. En viðhorfið sýnist nú þannig, að í sjálfu sér veiða íslenzku togararnir eins mikinn fisk eins og mögulegt er að selja. Þjóðhagslega séð er því auðvitað miklu skynsamlegra, að þetta fólk hætti að leita til kaupstaðanna til þess að vera þar atvinnuleysingjar, heldur reyni að framleiða í sveitunum þann hluta lífsþarfa sinna, sem það getur framleitt og hagnýtt heima fyrir, hvað sem öllum sölumöguleikum líður.

Að alþýðuskólarnir hafi orðið til þess að koma fólkinu burtu úr sveitunum, eins og hv. þm. var að gefa í skyn, um það verður hver að trúa því, sem honum sýnist. Ég er á gagnstæðri skoðun við hv. 1. þm. Reykv. um það efni. Ég álít, að alþýðuskólarnir hafi heldur dregið úr fólksstraumnum í kaupstaðina. Það er áreiðanlegt, að þó ekki hefðu verið byggðir alþýðuskólar né aðrir skólar í sveitum landsins, þá hefði unga fólkið heimtað að fara eitthvað til þess að mennta sig, sem það kallar, og framkvæmt það. Skólarnir í kaupstöðunum hefðu að vísu ekki getað tekið á móti öllu því fólki, en það hefði nú farið til kaupstaðanna samt, til þess að stunda eitthvað, sem það kallar menntun, og ég er sannfærður um, að af því hefði leitt meiri straum til kaupstaðanna heldur en verið hefir.

Það, sem mér fannst veigamest í ræðu hv. þm., var það, að nýbýlingarnir kynnu að einhverju leyti að verða keppinautar bændanna, sem fyrir eru. Ég játa, að þarna er atriði, sem þarf að gefa mikinn gaum. Ég skal ekki fara langt út í þetta nú, en skírskota til þess, sem ég sagði hér í d. fyrir nokkru síðan, þegar rætt var frv. frá hv. 10. landsk. um breyt. á jarðræktarlögunum. Það er einmitt það, sem verður að gefa gaum í þessu máli, að það er ekki nóg að reisa nýbýli og láta svo reka á reiðanum um búreksturinn og algert skipulagsleysi ríkja í því efni. Með því móti getur t. d. komið allt of mikil mjólk á markaðinn o. s. frv. Það þarf einmitt að haga því þannig, eins og reyndar hér hefir komið fram, að fyrst sé fullnægt þeim innlendu þörfum fyrir nýjar landbúnaðarafurðir, sem virkilega eru til. Með því er ég ekki að segja, að það eigi að skylda nýbýlingana til að rækta t. d. kartöflur og ekkert annað. En það má áreiðanlega haga þessu þannig, að sá aukni búskapur og sú aukna framleiðsla heilt yfir, sem þessar ráðstafanir eiga að koma af stað, beinist núna fyrst og fremst að þeim tegundum landbúnaðarafurða, sem vantar ennþá í landinu og er þar af leiðandi nógur markaður fyrir. Því þó nóg sé framleitt af kjöti og mjólk, þá er hægt með landbúnaði að framleiða margt fleira. Ég veit, að í þessu atriði þarf að gæta hinnar mestu varkárni, einmitt í öllum undirbúningi nýbýla og samvinnubyggða; hafa beinlínis áhrif á það, hvernig búskapur þar er rekinn, og það getur vitanlega einnig haft áhrif til bóta á búskapinn á þeim jörðum, sem fyrir eru í landinu.

Mér skildist á hv. 1. þm. Reykv., að eitt einfalt ráð hefði mátt finna til þess að halda fólkinu í sveitunum. Og ráðið var þetta: Að sjá um, að fólkinu í kaupstöðunum liði nógu illa. Því hann var að tala um, að allt leitaði jafnvægis o. s. frv. Og svo þegar komið væri að því, að sveitafólkið teldi sig ekki nein bætt lífskjör hafa að sækja í kaupstaðina, þá hætti það að fara þangað. Þetta er náttúrlega í sumum tilfellum rétt, sumum ekki. Og ég held, að það séu margir í kaupstöðum og sjávarþorpum þannig settir eins og nú er ástatt, að þrátt fyrir það, ró líf margra bænda sé ekki glæsilegt, þá séu þeir þó skár settir og hafi meiri möguleika og öryggi. Hv. þm. var að tala um, að öllum, sem flyttu á mölina væri skapað öryggi, og því væri eðlilegt, að fólkið úr sveitunum færi þangað til að njóta þess öryggis um sína afkomu, sem þar væri að fá. Já, það er nú svo með þetta öryggi, að mér virðist það nú því miður vera dálítið vafasamt, jafnvel þó frv. um alþýðutryggingar, sem hér liggur fyrir, verði samþ. mér sýnist, að þrátt fyrir það muni nú ekki verða nein himnaríkissæla að vera atvinnuleysingi í kaupstað. Eitthvað þarf maður að hafa til þess yfirleitt að geta keypt sér tryggingu gegn atvinnuleysi. Og þær fréttir heyrir maður úr sjávarþorpunum, að lífið þar sé ekki svo glæsilegt, að fólk þurfi beinlínis að sækjast eftir að fara þangað, þó ekki sé gott í sveitunum. En það er einmitt þetta, að það er eins og margir verði að fara úr sveitunum, þegar þeir vilja stofna sjálfstæð heimili, af því þeir geta enga staðfestu fengið þar. Þeir geta ekki komið sér upp heimilum í sveitinni eins og er, og þess vegna fara þeir þaðan. Og úr þessu er maður einmitt að vonast eftir, að þetta frv. bæti að einhverju leyti.

Þá var hv. þm. að gera samanburð á búskap bónda á gamalli jörð og svo hinna fyrirhuguðu nýbýlinga. Hann talaði um, að margir bændur hefðu strandað, ef svo má að orði kveða, eftir að hafa byggt upp á jörðum sínum og gert þar aðrar framkvæmdir til umbóta, sem reynzt hefðu þeim of dýrar, svo þeir hefðu ekki getað staðið undir skuldunum. Hvaða líkur væru þá til þess, að menn gætu staðizt þetta á nýbýlunum spurði hann. Ég vek dálítið að þessu áðan að því er byggingarnar snertir, að þær hefðu víða orðið of dýrar og dýrari heldur en þær hefðu þurft að vera, margar hverjar. Og skv. því frv., er hér liggur fyrir, er það miklu lægri fjárhæð, sem ætlazt er til, að mönnum verði veitt að láni til þess að koma upp nýbýlum, heldur en margir hafa tekið að láni til umbóta á jörðum sínum. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að fyrningargjaldið af húsum, sem leggja ætti á nýbýlingana, gæti orðið um 200 kr. á ári. Ef hann vill hafa fyrir því að lesa þá gr. frv., sem um þetta fjallar, þá hlýtur hann að sjá, að þetta nær ekki nokkurri átt. Til þess þyrftu hús nýbýlings að vera metin 20 þús. kr., og það á ekki að koma til þess með neitt nýbýli, að það verði svo dýrt.

Svo er nú þetta, sem ganga má út frá sem vísu, að þegar ráðast á í einhverjar framkvæmdir og einhver þarf að sjá um þær, að þá er hrópað, að þarna sé á ferðinni nýtt embætti; eitthvað muni það kosta o. s. frv. Ég hugsa nú, að þó skipaður yrði nýbýlastjóri með einhverjum launum, þá skipti það í rauninni litlu máli, ef þetta annars fer allt vel úr hendi. Annars vil ég benda á það, að eftir frv. þarf alls ekki að skipa sérstakan mann til að vera nýbýlaforstjóri. Það er heimilt samkv. því að láta þann starfsmann, sem nú er að nokkru leyti starfsmaður Búnaðarfélagsins og að nokkru leyti þess opinbera, nefnilega búnaðarmálastjóra, annast þessi störf. Ég veit ekki fyrir víst, hvað hæstv. landbrh. hugsar sér í því efni, en ég tel a. m. k. ekkert víst, að það kæmi neitt til þess til að byrja með, að skipaður yrði sérstakur starfsmaður, en þó það yrði gert, þá er það vitanlega algert aukaatriði.

Því hefir verið haldið fram í sambandi við umr., og það kom t. d. fram hjá hv. 2. þm. Rang., að ástandið í sveitunum færi stöðugt versnandi, þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið til þess að bæta það. Þetta hefir verið endurtekið af svo mörgum, bæði af mínum flokksmönnum og öðrum, að ég veit, að þetta er sagt af sannfæringu og að það er orðið nokkurskonar trúaratriði hjá þessum mönnum. En ég vil fullyrða, að þetta sé ekki rétt. Ástandið í sveitunum hefir batnað á margan hátt síðan við hv. 2. þm. Rang. vorum unglingar, og erum við þó ekki gamlir menn. Og hvað afkomumöguleikana snertir, þá er ég sannfærður um, að ef kröfurnar til lífsins væru hinar sömu nú og áður, að allt myndi leika í lyndi. En menn blanda þessu svo mikið saman. Það getur verið, að hlutfallið milli krafanna annarsvegar og teknanna og möguleikans til að afla þeirra hinsvegar hafi eitthvað raskazt í óhagstæða átt síðan fyrir nokkrum árum. Ég skal ekki neita því, að þetta getur hafa átt sér stað. En raunverulega ástandið hefir alls ekki versnað. Þetta vildi ég segja, af því að það hefir svo mikið verið sagt um þá eymd, sem á að vera í sveitunum. Fólk finnur núna meira til en áður, þegar skórinn kreppir að, en ástandið er ekki á neinu sviði verra en það var. Hvernig halda menn, að ástandið hefði verið fyrir nokkrum áratugum, ef árferði hefði verið eins og var á Norðurlandi í fyrra, þar sem fyrst voru landskjálftarnir og svo óþurrkasumar, aflaleysi og stórtjón af sjávargangi?

Ég skal svo ekki lengja umr. meira. Ég vildi óska þess, að atkvgr. gæti farið fram áður en fundi er slitið.