19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hélt, að hv. þm. S.-Þ. hefði kvatt sér hljóðs, og var því var búinn til þess að kveðja mér hljóðs. — Ég þakka hv. 1. þm. Eyf. fyrir að hafa sýnt þessu máli svo mikinn sóma að vilja ræða það. En mér sýnist samt hafa komið fram töluvert áhugaleysi um þetta mál. Sá ráðh., sem þetta á að heyra undir í framkvæmdinni, hefir t. d. ekki komið inn í d., þó að hann hljóti að hafa orðið þess var, að umr. hafa orðið um málið. En það er um þetta mál eins og svo mörg önnur, að það er svo mikið undir framkvæmdinni komið, hvaða gagn verður að löggjöfinni, en það er á valdi stj. að annast hana, og hefði því verið gott að fá upplýsingar um það, hvernig hæstv. ráðh. hugsaði sér að haga framkvæmd þessa máls. En hann hefir sennilega látið ljós sitt skína svo í hv. Nd., að það er eins og öll olía sé búin af lampanum, þegar málið er komið í þessa hv. d., og engin týra til hjá hæstv. ráðh. til að fylgja því úr hlaði í þessari hv. d.

Það er ekki nema mannlegt, að mér þótti vænt um, að ég sá það af ræðu hv. 1. þm. Eyf., að ég hafði ekki misskilið málið, eins og ég var hálfhræddur um, þar sem ég hafði haft svo lítinn tíma til þess að kynna mér það. Ég varð ekki var við, að hann hrekti neitt af því, sem ég sagði, þó að hann væri um sum atriði á öðru máli. Það var misskilningur hjá honum að byrja ræðu sína með því að segja, að það hefði ekki verið vonum fyrr, þó talað hefði verið á móti málinu við þessa umr. En ég talaði alls ekki á móti málinu. Ég hreyfði aðeins efasemdum um það, að þetta frv. yrði þess megnugt að stöðva fólksstrauminn úr sveitum landsins, þar sem allar aðrar ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið, hefðu ekki stöðvað hann, svo sem jarðræktarlögin, ræktunarsjóður, lögin um byggingar- og landnámssjóð og síðast kreppulánalöggjöfin. Ég er hræddur um, að úr því að allar þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið undanfarið, hafa ekki orðið þess megnugar að stöðva fólksstrauminn úr sveitunum, þá geti aðgerðir þessa frv. ekki stöðvað hann. Það er auðvitað ekki óeðlilegt, að það geti komið fram, sem hv. þm. sagði, að einstaka ungt fólk, sem vill stofna bú, en getur ekki fengið jarðnæði, festi byggð í sveit fyrir aðgerðir þessara laga. Ein af ástæðunum fyrir því, að fólk flyzt úr sveitunum til kaupstaðanna er sú, að fólk reisir þar bú í von um að fá eitthvað að gera þar. En það hefir enga von um að geta reist bú í sveit, ef það fær ekki jarðnæði þar. Það er ekki sá siður lengur, að fólk gifti sig og stofni heimili í vist hjá öðrum. Enda er það núna lítt mögulegt, þó að menn geti unað við það að öðru leyti, því að þrátt fyrir vantandi vinnukraft í sveitum er sagt, að menn geti ekki fengið þar þá vinnu, sem nægi til að fullnægja kröfum þeim, sem menn gera til lífsins. Þó að það væri ekki annað en þetta atriði, að þetta frv. skapar nokkrum mönnum möguleika til þess að reisa bú í sveit, þá gerir þetta atriði það að verkum, að ég get á engan hátt litið þetta frv. illu auga. Ég held, að það sé vel ómaksins vert að reyna að stöðva einhverja í sveitunum með því að veita þeim styrk til þess að stofna nýbýli. Það er vitanlega engum meinað að stofna nýbýli, eins og sagt er að hæstv. forsrh., sem ekki lofar okkur núna að sjá sína fögru ásjónu, hafi ætlað að gera í einni mýri hér skammt frá, þó að sagt sé, að lítið sé farið að gera þar enn. Það væri mjög ánægjulegt, ef menn gætu stofnað nýbýli, enda hefir engum mér vitanlega verið bannað það hingað til. En með því frv., sem hér liggur fyrir, er því fyrirkomulagi komið á, að menn fá nokkurn styrk til þess að gera þetta.

Hv. þm. var að tala um þá sem alltaf væru hér í Rvík, að því er mér skildist, að reka horn í aðgerðir þær sem framkvæmdar hefðu verið fyrir landbúnaðinn á undanförnum árum, eða síðan Framsfl. tók við landsstj. En svo sagði hann, að þessir sömu menn væri í sveitunum að skamma framsóknarmenn fyrir, að þeir gerðu ekki nóg fyrir landbúnaðinn. En það er fjarri því, að ég hafi verið að reka horn í síðu framsóknarmanna og annara, sem hafa verið sameinaðir um að gera sem mest til þess að reyna að halda fólkinu í sveitunum. Ég var aðeins að telja upp það, sem gert hefði verið, og sýna fram á, að það hefði ekki megnað að stöðva strauminn úr sveitunum. Ég var ekki að segja, að þessar aðgerðir væru rangar, heldur sagði ég, að jafnhliða væri gert annað, sem gerði það að verkum, að tekið væri með annari hendinni það, sem gefið væri með hinni. Ég vil t. d. ekki bera saman jarðræktarlögin og l. um byggingar- og landnámssjóð. Allir sjá, hvaða gagn er að því að stuðla að því með styrkveitingum og hentugum lánum að efla jarðræktina, og styðja þannig efnahagshlið bænda með því að auka arðberandi ræktun á móts við hitt, að miða eingöngu við það, að koma upp húsum, sem kunna að vera hentug og skemmtileg á að líta, en gefa ekki af sér neinn arð. Þetta tvennt er ekki hægt að bera saman. Annars er það rangt, sem hv. þm. sagði að Sjálfstfl. hefði sem heild barizt á móti l. um byggingar- og landnámssjóð. En þau lög eru enganveginn hliðstæð jarðræktarl. Hv. þm. muna víst, hvernig frv. um byggingar- og landnámssjóð var þegar það var fyrst borið fram af núv. hv. þm. S.-Þ. Það var þannig úr garði gert, að það var einungis ein grein í frv., sem hægt var að nota. Frv. átti fyrst aðeins að ná til nýbýla, en þeir, sem baslað höfðu á jörðum sínum, áttu ekki að njóta neins góðs af því. Þetta var mjög ósanngjarnt, auk þess sem lánin voru bundin þeim skilyrðum, að það var í raun og veru hreinn „bolsivismi“, sem kom fram í frv. Ég hefði gaman af því að bera saman frv. eins og það var fyrst borið fram af núv. hv. þm. S.-Þ. og l. eins og þau urðu endanlega. Menn myndu þá sjá, að þar væri ekki eins eitt einasta atriði, sem nokkru máli skiptir. Það voru margir ágætir sjálfstæðismenn, sem hjálpuðu til þess að laga frv., og þar á meðal hv. 1. þm. Rang., sem bar fram till. um það efni. Hann og fleiri sjálfstæðismenn lögðu fram lið sitt til þess að koma l. í það horf, sem þau hafa verið í síðan.

Ég býst við, að hv. þm. vilji halda því fram, að erfiðleikarnir við búskapinn stafi aðallega af því, að hann er stundaður á jörðum þar sem mest er treyst á engjaheyskapinn. Og þó að þessar jarðir hafi verið góðar á sínum tíma, þá séu þær óhentugar núna, vegna þess hve ólíkt hagar til ná og áður, þar sem það borgi sig bezt núna að stunda heyskap á ræktuðu landi. Erfiðleikarnir stafa víst eitthvað af þessu, en það gerir auðvitað ekkert til, þó engjar séu góðar, ef líka er til mikið af ræktuðu landi heima fyrir. Ég veit um eina jörð, sem hefir stór engi, sem eru í dálítilli fjarlægð frá bænum, en þar er ekki slegið eitt högg nema á ræktuðu landi. ég hygg, að margir af þeim, sem búa á jörðum, þar sem heyskapur er aðallega eða eingöngu stundaður á ræktuðu landi, hafi orðið að sækja um lán hjá kreppulánasjóði. Ég hygg, að það hafi ekki verið fáir af þeim, sem búa á jörð, þar sem ræktun er fullkomin og beztur markaður fyrir framleiðslvörurnar, sem hafa orðið að sækja um lán í kreppulánasjóð, og þar á meðal sumir á hinum nýju jörðum í nánd við Rvík. Þetta sýnir, að það er ekki nóg að hafa ræktað land til þess að búskapurinn sé arðvænlegur. Það eru margir vantrúaðir á, að búskapurinn hljóti að bera sig, þó að komið sé upp nýbýlum eins og fyrir er mælt í þessu frv. Ég veit ekki, hvað er satt í því, en ég hefi heyrt, að einhverjir, sem hafa átt ræktað land, hafi ekki haft ráð á því að kaupa áburð, og þannig ekki getað unnið hið ræktaða land. Það mun ekki vera einsdæmi, að ræktað land hafi horfið aftur þangað, sem það var, vegna þess að menn höfðu ekki bolmagn til þess að halda uppi ræktuninni. Það munu vera dæmi til þess, og má búast við, að ekki fari betur, þó að byrjað sé á því, að reist séu nýbýli frá grunni, og svo eigi að setja þar upp bú, jafnvel þó að lánin verði veitt með betri kjörum en áður var hægt að fá. Ég hefi ekki athugað það í frv., hvort sett eru skilyrði um það, hvernig byggingar eigi að vera á þeim nýbýlum, sem reist verða samkv. þessu frv., ef það verður að l. Ég þori ekki að segja neitt um það, hvort fylla eigi þar upp í með reglugerð. En það er margt í þessu frv., sem fylla verður upp í með reglugerðarákvæðum. Ég þori því ekki að tala djarflega um þetta atriði, en það eru líkur til, að gerðar verði svipaðar kröfur og gerðar hafa verið til þeirra, sem byggt hafa hús með aðstoð byggingar- og landnámssjóðs. Og það er þess vegna líklegt, að þar verði hinir sömu örðugleikar og þeir hafa lent í, sem notað hafa sér lán úr byggingar- og landnámssjóði. En það má vel vera, að þessu megi breyta og að l. um byggingar- og landnámssjóð verði breytt þannig, að leyft verði að byggja ódýrari hús, eins og t. d. að það megi byggja torfbæi, þó að þeir eigi ekki við nema í sumum byggðarlögum landsins. En það er mjög mismunandi, hvernig jafnvel byggðir torfbæir endast, og fer það eftir því, hvar þeir eru á landinu. Á Suður- og Vesturlandi endast þeir svo miklu verr heldur en á Norðurlandi. Það er algengt á Suður- og Vesturlandi, að það er ekki hægt að búa í sama torfbænum nema 2 búskapartíðir, en á Norðurlandi er hægt að búa í sama torfbænum 2—3 kynslóðir. Það er merkilegt, að í l. um byggingar- og landnámssjóð skuli ekki hafa verið tekið tillit til þessara aðstæðna. Ég hefi oft undrazt það, og þá kennt því um, hvað menn eru fíknir í að tolla í tízkunni, að það skuli ekki hafa verið byggt meiri af torfbæjum á Norðurlandi en gert hefir verið. En það er ómögulegt að hugsa sér betri híbýli en margir torfbæirnir eru. Ég er ekki eingöngu að mæla með því, að farið sé að byggja torfbæi aftur vegna þess hvað þeir séu ódýrir, heldur og vegna gæða, og þar má m. a. nefna, hvað þeir eru hlýir og hvað þeir fara vel í íslenzku landslagi. Hinsvegar er ég ekki viss um, hvort torfbæirnir eru miklu ódýrari. Þeir voru ódýrari meðan mikill vinnukraftur var til á bæjunum, en ef kaupa þarf alla þá vinnu, sem þarf til þess að hlaða upp bæina, þá verða þeir líklega ekkert ódýrari en önnur hús, því að það er mikið og seinlegt verk að hlaða upp torfveggi. Það var mikið byggt úr torfi á því prestssetri, sem ég ólst upp á, og sá ég þar, að það er geipileg vinna, sem liggur í því að undirbúa það efni og byggja úr því. Ég get því vel trúað, að þeir torfbæir, sem eru vel byggðir, séu lítið ódýrari en húsin. En hinsvegar á, þegar verið er að setja löggjöf eins og t. d. l. um byggingar- og landnámssjóð, að ýta undir menn að nota hið innlenda efni. mér var sagt af hv. 1. þm. Eyf. og einnig af sessunaut mínum, að það sé misminni hjá mér, að jarðræktarlögin hafi verið sett nokkrum árum áður en þau komust í framkvæmd, en þau komu til framkvæmdar fyrsta árið, sem íhaldsstj. var við völd. Mig minnti, að þau hefðu verið sett 1921, en þau voru sett 1923. L. komu til framkvæmda eftir að íhaldsfl. tók við völdum, en mig minnti, að þau hefðu áður legið 2—3 ár.

Út af þeim kafla í ræðu minni, þar sem ég talaði um, að bezta hjálpin væri fjármálapólitík, sem styddi að því, að atvinnuvegirnir væru í blóma, og stuðlaði að því, að sjávarútvegurinn í kaupstöðunum gæti borið sig, sagði hv. 1. þm. Eyf., að þetta væri laukrétt út af fyrir sig. En síðan spurði hann, hvaða gagn væri að því að fiska meira, ef ekki væri hægt að selja fiskinn, og í því sambandi sagði hann, að kreppan hefði komið vegna sölutregðunnar. Það er alveg rétt, sem hann sagði um sölutregðuna. En hitt er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að afturkippurinn í sjávarútveginum hafi byrjað með sölutregðunni. Hann kom af því, að atvinnuvegurinn var sligaður undir þeim kostnaði, sem á hann var lagður. Sölutregðan byrjaði ekki fyrr en í fyrra, þegar Suðurlandaþjóðirnar byrjuðu á því að láta leggja inn á „quota“ hjá sér, og það varð til þess, að við misstum meira og meira af markaðinum, fyrst á Spáni, svo á Ítalíu og síðast í Portúgal. Þegar þetta gerðist, þá hefði átt að taka mjúklega á útgerðinni, á meðan hún væri að vinna nýja markaði og yrði kannske að selja ódýrt. En samt hafa verið lagðir á hana nýir og nýir skattar, svo að framþróunin hefir verið heft, og afturför orðið miklu fyrr en þurft hefði að vera, eins og berlega sest á togaraflotanum. Það er ekki eina tjónið, sem af þessu hefir leitt, að minna hefir verið fiskað, heldur líka hitt, að það hefir ekki verið hægt að endurnýja flotann í skip, sem geta unnið meira úr aflanum en gert hefir verið. Það hlýtur að liggja geipiverð í því, sem orðið hefir að henda í sjóinn, vegna þess að ekki hafa verið tók á að vinna úr því þegar í stað. Það hefir verið byrjað á því í örfáum skipum, en það er of lítið. Ef hér hefði verið uppi sú stefna, að andað hefði hlýju til útgerðarinnar frá stjórn landsins og Alþ., og til þessara fyrirtækja, sem áttu allt í hættu, þá er ég viss um, að flotinn væri nú endurnýjaður og breyttur þannig, að hin eldri skip væru horfin, en í stað þeirra komin ný og stærri skip. Ég ræð þetta af þeim framförum, sem urðu á meðan útgerðin þurfti ekki að vera síhrædd við það, hvað stjórn og þing gerði. Ég er viss um, að þetta væri svona, ef búið hefði verið að útgerðinni þannig, sem hver siðuð þjóð hefði gert, önnur en Íslendingar. Jafnvel hjá þeim þjóðum, þar sem fylgt hefir verið svipaðri stefnu og hér, hefir mönnum skilizt, að það verði að styðja atvinnuvegina, svo að þeir geti tekið framförum. Ég er viss um, að Ísland er eina landið, þar sem Ég þekki til, þar sem hjá mörgum atkvæðamönnum í þjóðfélaginu er bókstaflega óvinátta til þessara fyrirtækja og manna þeirra, sem standa að þeim, þannig að ef fyrirtækin komast upp fyrir að hafa það, sem kalla mætti til hnífs og skeiðar, þá eru þeir menn ofsóttir, sem að þeim standa, og þeim líkt við þjófa, ræningja og illvirkja. Við, sem störfum í lögjafnaðarnefndinni, vorum á ferð um Danmörku í sumar og sáum þá mörg einkafyrirtæki, sem komin eru í 4. eða 5. ættlið, og urðum við ekki varir við, að frá hinum ráðandi mönnum andaði neitt köldu til þessara fyrirtækja. Við urðum þvert á móti varir við, að þeir voru stoltir af þeim. En hvernig halda menn, að myndi syngja í blöðum framsóknarmanna, ef Thorsararnir væru komnir í 5. lið. Þetta mun vera einsdæmi hér á Íslandi og er þetta ákaflega sorglegt hjá þjóð, sem stærir sig af því að vera að nokkru leyti komin af konungum. Ég held, að þrælarnir hafi átt hér of mikið af börnum, og þau hafi gert þjóðina svona. Þetta er alvarlegt atriði, og einkum þegar það kemur fram hjá mönnum, sem sitja í valdastól, eins og var hjá hv. þm. S.-Þ. Ég gat ekki. stillt mig um að segja við hann í sumar, þegar við vorum að skoða eitt einkafyrirtæki, hvað hann heldi, að hann myndi segja um svona fyrirtæki, ef það væri heima á Íslandi. Hv. þm. S.-Þ. er eins og menn vita góður félagi í ferðalögum, svo að hann gerði ekki annað en brosa að þessu. Þessi hugsunarháttur er alvarlegur hlutur út af fyrir sig, og ef hann kemst inn hjá þeim mönnum, sem með völdin fara, þá er hann eitthvað það háskalegasta fyrir atvinnulífið, sem átt getur sér stað. Það er svo fjarri því, að alþýða manna græði á þessu, að þetta er hið langstærsta bol, sem fyrir getur komið, því þó að tryggingarlöggjöf sé komið á hér, þá er það aldrei nema sultarlíf, sem menn geta tryggt sér og sínum með henni á móts við það, ef atvinnuvegirnir eru í blóma og atvinna til handa fólkinu. Atvinnuvegirnir eru fjöregg þjóðarinnar, og það líður engum vel, nema þeir séu í fullum gangi. [Fundarhlé.]

Þegar fundi var frestað, var ég að ræða um það við hv. l. þm. Eyf., af hvaða orsökum afturkast hefði komið í togaraútgerðina. Er það aðallega vegna almennra viðskiptaerfiðleika, og því vegna sömu orsaka að miklu leyti og valda því, að fólkið helzt ekki við í sveitunum. Get ég tekið undir það, sem sagt hefir verið, að ein aðalástæðan fyrir því, að fólkið flytur úr sveitunum, er sú, að unga fólkið hefir ekki tækifæri til þess að stofna þar heimili, en hefir meiri líkur fyrir því í kaupstöðunum. En orsakirnar eru miklu fleiri. Ég þekki mörg dæmi þess, að fólk hefir flutt í kaupstað án þess að stofna heimili. Þess eru ekki heldur fá dæmi, að bændur hafi hætt búskap og flutt í kaupstað, og það án þess að eiga vísa nokkra fasta atvinnu. Er mér kunnugt um, að hingað til Rvíkur hafa flutt ekki svo fáir menn vegna þess, að búskapurinn ber sig illa. En ástæðan til þess er einkum, að markaðurinn í kaupstöðunum er ekki nógu góður, sem stafar af því, hvað þeir eiga erfitt uppdráttar. Hv. þm. hafa viljað kenna hér um sölutregðu, en ég hefi áður sýnt fram á, að hún gerir því fyrr vart við sig, sem atvinnuvegirnir eru hlaðnir þyngri sköttum og allskonar álögum fyrir. Það kemur sérstaklega illa við nú, þegar sölutregða er á afurðunum út á við, að flotinn skuli ekki vera þannig útbúinn að geta hagnýtt sér allan aflann og komizt þannig af með að afla minna, því vafalaust væri léttara að koma aflanum í verð, ef afurðir framleiðslunnar væru fjölbreyttari en nú er.

Ég skal ekki fara út í að ræða það frekar nú, sem okkur hefir farið á milli um alþýðuskólana, hvort þeir stuðli að því að halda fólkinu í sveitunum eða ekki. Það stendur bara orð á móti orði. Um það er ekkert hægt að sanna nema með rannsókn, enda eru skólarnir ekki orðnir svo gamlir enn, að nokkur veruleg reynsla sé fengin í því efni, nema e. t. v. Eiðaskólinn. Annars væri merkilegt að athuga, hvort fólk, sem gengur í slíka skóla, verður stöðugra í sveitunum en annað fólk, eða kynningin af skólunum eykur tilhneigingu þess til að komast í margmenni og þangað, sem er fjörugra líf og meiri félagsskapur og þægilegri húsakynni. Ég minntist á þetta fyrir 1—2 árum við mann, sem er kunnugur þessum málum, og taldi hann ekki óhugsandi, að svo gæti farið. Mér dettur í hug, ef hv. 1. þm. N.-M. ekki talar í þessu máli hér í d., þá hefði ég gaman af að ræða það við hann annarsstaðar. Þetta er alveg án gamans mjög merkilegt atriði, hvernig skólarnir verka, hvort þeir verða til þess að stuðla að því að halda fólkinu í sveitinni, eða til þess að auka strauminn þangað, sem margmennið er. Það er alvarlegt mál, ef svo kynni að fara, eins og ég sagði áðan, að skólarnir verkuðu eins og dælur til kaupstaðanna. En meðan það er álitamál, hvernig þeir verka, verður að telja óhyggilegt að leggja stórfé í slíkar stofnanir.

Hv. 1. þm. Eyf. viðurkenndi, að eitt atriði, sem ég minntist á í sambandi við nýbýlamálið, væri nokkuð alvarlegt.

Ef þessi stefna er upp tekin, getur hún gripið svo um sig, að nýbýlingarnir verði beinlínis keppinautar við þá, sem nú stunda búskap. Þetta er að sumu leyti ekkert efamál, t. d. að ræktunarsjóður hefir tiltölulega minna fé til útlána, ef upp kemur fjöldi nýbýla, því það er ekki efamál, að það verður ákveðin takmörkuð upphæð, sem ríkissjóður leggur fram. Þess vegna hlýtur að koma því minna í hlut þeirra, sem nú stunda búskap, sem fleiri nýbýli koma upp og milli fleiri manna er að skipta. Er hér alveg um sama hlutfall að ræða og þegar úthlutað er námsstyrk í skólum. Ef um ákveðna upphæð er að ræða til úthlutunar, kemur því minna í hvers hlut, sem milli fleiri þarf að skipta.

Ég hygg, að hitt sé stærsta atriðið, sem ætti að leggja meiri áherzlu á, að koma afurðunum í sæmilegt verð, en það yrði því erfiðara, ef hér kæmi upp verulega stór keppinautur um þá markaði, sem til eru. Ég er því mjög undrandi yfir því, að bændurnir og flokkur bændanna skuli leggja áherzlu á að fá sem flest fólk í sveitirnar. Ef ég væri bóndi, mundi ég óska af heilum hug, að bændurnir væru sem allra fæstir, því ég býst við, að það sé eins um vörur bændanna og allar aðrar vörur, að þær lúti því lögmáli um eftirspurn, að því færri sem bjóða vöruna fram og því minni sem varan er, því meiri eftirspurn og hærra verð. (MG: En vinnufólkið?) hér er ekki verið að tala um vinnufólk. Það er allt farið úr sveitunum. Allar ráðstafanir, sem talað er um að gera, eru miðaðar við sjálfstæða atvinnurekendur. En ég bara skil þetta ekki. Þetta er líklega allt gert af einskærum mannkærleika, svo að þar kemst ekki að snefill af mannlegum breyskleika.

Ég skal viðurkenna, að ég hefi mikla tilhneigingu til þess að vera með þessu máli, en mér finnst full ástæða til að athuga það frá báðum hliðum, en fylgi því ekki alveg í blindni. (BSt: Það er ekki vanalegt, að tala í margar klst. móti máli, sem maður ætlar að greiða atkv. með). Það er full ástæða til þess að tala um málið frá báðum hliðum og draga fram þau rök, sem mæla með og móti. Annars vil ég spyrja hv. 1. þm. Eyf., hvort hann vilji ekki spjalla við mig um málið, ef hæstv. forseti sýnir okkur þá þolinmæði að leyfa samræður. (BSt: Ég skal tala við hv. þm. norður á Dalvík). Já, við vorum þar saman á mjög ánægjulegum fundi síðastl. vor. Þætti mér gaman að heyra hv. þm. sannfæra bændur þar um, að framboð verki ekki eins þar og annarsstaðar. En úr þessu ætlar hv. þm. og aðrir fylgismenn stj. að bæta með nokkurskonar „planökonomi“. mér skilst, að nýbýlingarnir eigi ofan á allt annað að fara eftir því, sem aðrir segja þeim fyrir um. Þeir mega svo sem ekki haga sér eins og þeir vilja, heldur á að segja þeim fyrir um hvernig þeir eigi að búa, hvað þeir eigi að framleiða o. s. frv. Ég held, að það verði að skapa alveg nýja tegund bænda til þess að þola svona undirlægjuhátt. Því það merkilegasta við bændastéttina hefir einmitt verið það, að bóndinn hefir verið sjálfs sín herra. Ég tel því óheppilegt að fara að skapa hér nýja bændastétt, sem í öllu verður að haga framkvæmdum sínum eftir fyrirmælum nýbýlastj. En eftir því, sem hv. þm. predikar, á að framleiða allt eftir vissu skipulagi — planökonomi. Og af því nóg mjólk er á markaðnum, þá þýðir ekki að framleiða mjólk. Og vegna þess að of mikið framboð er á kjöti, er ekki til neins að framleiða kjöt. En hvað eiga allir þessir nýju bændur þá að framleiða? Mér skilst helzt, að það eigi að vera smjör eða kannske ostar. Og þar sem á að setja þá niður einhversstaðar austur í Flóa eða fyrir austan Þjórsá, er a. m. k. sýnilegt, að þeim er ætlað að vinna úr mjólkinni. Það er alkunnugt, að stórfelldar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að styðja þá, sem hafa þurft að vinna úr mjólkinni, svo að þeir geti tórt við búskapinn. Hefir verið lagt hátt gjald á þá, sem ekki vinna úr mjólkinni, en framleiða hana aðeins til sölu til þess að borga þeim, sem ekki geta notið þeirra markaða. Mér skilst því, að nýbýlingarnir verði dæmdir til þess að lifa á styrk frá þeim, sem selja mjólkina beint til neytenda. Mér sýnist þetta ekki spá góðu um afkomuna, en það, sem ríður mest á, er, að reynslan verði góð í byrjun.

Ég verð að segja, að ég öfunda ekki þá bændur, sem eiga að búa undir þessari planökonomiu, sem á að segja fyrir um, hvernig þeir eiga að búa. Ég vil í þessu sambandi benda á þá planökonomiu, sem framkvæmd er í rekstri bæjanna, sérstaklega hér í Rvík, og beinlínis er rekin í því skyni að reyta af mönnum hvern eyri, með hækkuðu vöruverði, lækkuðum tekjum og síhækkandi skottum. Þetta er alveg heilsteypt planökonomia til þess að koma þeim mönnum, sem hafa bjargað sér áfram, úr skárri lífskjörum í lakari — það er verið að lækka lífsstandard fólksins. (BSt: Er þetta mál á dagskrá?). Já, ég held mig við nýbýlamálið og er að ræða um það, eins og hv. 1. þm. Eyf., í sambandi við planökonomiu. En þetta snertir beinlínis þetta mál, því Rvík hefir verið og ætti að verða í framtíðinni bezti markaðsstaðurinn fyrir afurðir bændanna.

Skilyrði fyrir því að gera mönnum lífvænlegt í sveitinni er því, að sá markaður haldist. Ég hefi sýnt fram á, að bezt yrði komið í veg fyrir óheppilegan fólksstraum til kaupstaðanna með því að stuðla sem mest að því, að atvinnuvegir í kaupstöðum, sérstaklega sjávarútvegur, geti verið í sem beztu horfi, til þess að afkoma kaupstaðabúa geti orðið svo góð, að þeir geti keypt landbúnaðarafurðir af sveitamönnum. Í samræmi við þetta er aftur hitt, að vitanlega má ekki auka svo framboð á landbúnaðarafurðum í kaupstöðunum, að verðið vegna þess hljóti að lækka. Það er ekki hægt samtímis að gera þær tvennskonar ráðstafanir að láta vörur bænda hækka í verði og stórauka einnig framboð á þeim.

Þá var hv. þm. að tala um það, sem ég minntist á, að menn mundu streyma til kaupstaðanna í atvinnuleysisstyrkina og atvinnubótavinnuna, og hv. þm. lagði mjög út af því, að ég sagði, að með atvinnuleysisstyrkjunum væri skapað óeðlilegt öryggi. Ég sagði þetta ekki af því, að ég ætlaði, að menn sæktust eftir þeim kjörum, sem þeir menn eiga við að búa, sem eiga að fá atvinnuleysisstyrki. En með því að koma slíkum styrkveitingum á er, hvað sem hver segir, skapað það öryggi, að menn treysta þó á það, að þeir fari aldrei algerlega á vonarvol, þó að atvinna bregðist, ef þeir flytja í kaupstað; þeir geti þó í svipinn dregið fram lífið á því, sem veitt er í þessu skyni. Það er alls ekki víst, að menn geri sér allir grein fyrir því, hvaða eymdarlíf slíkt er. Og sérstaklega þegar svo mjög er búið að predika, að eymdarkjör sveitafólks séu svo afskaplega mikil. Ég gæti vel hugsað, að sú agitation, sem rekin hefir verið með þeim forsendum, að sveitabændur eigi við ákaflega mikil eymdarkjör að búa, geti verkað nokkuð í þá átt, að sveitafólk haldi, að eymdarkjörin verði þó ekki verri, þó flutt sé í kaupstað, og þar með að einhverju leyti treysti á það, að atvinnuleysisstyrkirnir bæti þó eitthvað töluvert úr. Mér heyrðist nú á ræðu hv. 1. þm. Eyf., að sveitalífið væri ekki eins mikið kvalalíf og oft hefir á þessum síðustu tímum verið talað um.

Hv. þm. vildi gera lítið úr kostnaðinum við þessar nýju umbætur og sagði, að hann skipti ekki miklu máli. Já, það getur nú náttúrlega verið, að kostnaðurinn, sem þessi löggjöf leiðir af sér, sé ekki meiri en svo sem við eina nefnd. En safnast þegar saman kemur. Það hljómar óneitanlega ákaflega einkennilega saman, þegar annarsvegar er verið að stofna til nýrra miður nauðsynlegra útgjalda í rekstri ríkisbúsins, en hinsvegar er hæstv. fjmrh. hvað eftir annað að tala um, að það verði nú að gera allan rekstur ríkisbúsins sem allra ódýrastan. Það er vitanlega einn liður á kostnaðarhlið ríkisbúsrekstrarins, að lagt er fram fé til nýbýla. Það er ákaflega einkennileg aðferð til þess að gera rekstur ríkisbúsins sem ódýrastan, að stofna sífellt til nýrra og nýrra umbóta. Þetta einkennilega samræmi(!) er prýðilega samboðið fjármálastefnu hæstv. fjmrh. og þeirra, sem að þessum málum standa með honum.

Ég er alveg sammála mótmælum hv. 1. þm. Eyf. gegn því, að svo ákaflega mikið eymdarlíf sé nú í sveitum landsins. Straumur fólks úr sveitum til kaupstaða sýnir ekki, svo óyggjandi sé, hvar bezt er að lifa. En hann sýnir þó það, hvar fólkið heldur, að bezt sé að lifa. Þessi hugsunarháttur fólksins og afleiðing þessa hugsunarháttar er það sterk, og mér liggur við að segja það eina sterka, sem gerir það að verkum, að menn vilja ekki leggjast á móti því máli, sem hér liggur fyrir. En menn getur greint nokkuð á um, hvort sú löggjöf, sem hér á að setja, gerir ákaflega mikið strik í reikninginn.

Með þessum orðum, sem ég hefi nú talað hér, hefi ég viljað benda á nokkrar líkur til þess, að þessar ráðstafanir muni ekki verka mjög mikið. En ég tel afsakanlegt, að menn geri þessa tilraun, úr því að sumir trúa því, að slíkar ráðstafanir geti verkað nokkuð. En mikið má vera, ef það reynist ekki svo eftir nokkur ár, þegar reynsla er komin á þessi l., að ég hafi verið helzt til sannspár um, að ekki muni verða við þessa löggjöf þau aldahvörf í landbúnaðarmálum okkar, sem hv. aðalmeðmælendur þessa frv. virðast gera sér vonir um.