25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

131. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Jónas Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það má hafa líkan formála fyrir þessu frv. og hafður var fyrir frv. að framfærslulögum, sem var á dagskrá hér í hv. d. í gær. Þetta frv. er samið af þeirri sömu n., sem hæstv. atvmrh. skipaði um síðastl. áramót til að gera heildartill. um trygginga- og framfærslumál. Við undirbúning þessara mála stafa miklir örðugleikar af því, hve erfitt er að fá glöggar skýrslur um málefnin, vegna þess hve seint þær koma og upplýsingar liggja seint fyrir. Eins er hitt, að á reynslu annara þjóða er erfitt að byggja, því hér er allt á annan veg heldur en hjá nágrannaþjóðum vorum. Það má segja, að hér á landi sé ekki til nema ein trygging í lögum, og það er slysatrygging. Löggjöf þessi er bæði ung og ófullkomin, en það hefir þó sýnt sig, að hennar var sízt vanþörf, og hún hefir þegar gert mikið til að létta fyrir með þeim mönnum, sem fyrir slysum hafa orðið.

Frv. þetta, sem vér leggjum hér fyrir hið háa Alþingi, er í 7 köflum, eins og hv. þdm. sjálfsagt eru búnir að athuga.

Um 1. kaflann hefi ég fátt að segja, því í raun og veru eru flest þau ákvæði til víðsvegar í lögum áður, svo sem í Slysatryggingarlögum og víðar, og hafa þau ákvæði verið látin halda sér og ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði. 2. kaflinn er um slysatryggingarnar, og um hann er líka hægt að vera fáorður. Það hafa ekki verið gerðar aðrar breyt. á þeim lögum en þær, sem nauðsynlegar eru til samræmis og hljóta að leiða af því, ef frv. þetta kemst í gildi, og einstök atriði, sem tekin hafa verið upp í frv. samkvæmt óskum stjórnar Slysatryggingarinnar, og eru þau flest til þess að skýra og fylla betur út í hugtök þau, sem í lögunum felast.

3. kaflinn er um sjúkratryggingar, og er það nýr kafli. Má í stuttu máli segja, að sjúkratryggingarnar sé ætlazt til, að verði tvennskonar. Frv. gerir ráð fyrir, að í kaupstöðum séu stofnuð sjúkrasamlög, sem öllum sé skylt að tryggja sig hjá, að undanteknum þeim, sem dvelja í sjúkrahúsum vegna langvarandi veikinda. En í sveitum og kauptúnum er gert ráð fyrir heimild til að stofna sjúkrasamlög með því að atkvgr. sé látin fara fram um það í hlutaðeigandi sveitarfélagi, og fari svo, að meiri hl. sé því samþykkur, að sjúkrasamlag sé stofnað, þá eru allir hreppsbúar tryggingarskyldir. Eins og frá frv. er gengið, eru það aðeins kaupstaðirnir, sem hafa skyldu til að mynda sjúkrasamlög, en kauptúnum og hreppum er sett það í sjálfsvald, hvort þessi trygging sé tekin upp eða haldið í sama horfi og nú er.

Í 29. gr. er það skýrt tekið fram, hverra réttinda félagsmenn njóti, og er það mjög svipað því, sem áður hefir verið í sjúkrasamlögum, eða m. ö. o. læknishjálp og lyf, að fullu í sjúkrahúsum, en að 3/4 utan sjúkrahúss, ókeypis vist í sjúkrahúsi og dagpeningar.

Iðgjöld eru ekki ákveðin í frv., heldur er gert ráð fyrir, að þau verði ákveðin með reglugerð, og svo mun nú vera gert þar, sem sjúkrasamlög starfa. Hinsvegar hefir n., sem samdi frv., gert ráð fyrir, að ekki dygði lægra iðgjald en 3 kr. á mánuði, eða 36 krónur á ári. Þetta er ekki hægt að kalla hátt gjald, og hér í Reykjavík hafa iðgjöld orðið allmiklu hærri en það. Ef gert væri ráð fyrir þessu iðgjaldi, þá yrði tillag hlutaðeigandi bæjarfélags — 1/4 af iðgjaldinu — 9 kr. á móti framlagi frá hverjum einstaklingi, og frá ríkissjóði kæmi sama framlag.

Sé þetta athugað í stærri dráttum og tekinn til dæmis bær, sem hefði 1000 íbúa, þá má reikna með, að þar væru um 600 menn, sem ættu að greiða iðgjald, og greiðslur þeirra yrðu þá samtals 21600 kr., sá hluti sem bæjarfélagið ætti að greiða, yrði þá 5400 kr., og framlag ríkissjóðs það sama, eða allt samtals 32400 kr. Ef litið er til Reykjavíkur, sem er langstærsti kaupstaðurinn hér á landi, þá mundi þetta verða nálægt því, að bærinn þyrfti að leggja fram 162 þús. kr. á ári; en á reikningum bæjarins eru nú færðar 174500 kr. árlega í þessu sama skyni, en hér ber að athuga, að berklavarnagjöldin lenda að mestu á sjúkrafélögunum, því sjúkrasamlögin greiða 1/5 kostnaðar við legu manna, og ef þessa er gætt, þá virðist þetta sú fyllsta greiðsla, sem þyrfti að verða. Vitanlega er hverju bæjarfélagi frjálst, hvort það hefir iðgjöldin hærri eða lægri en hér er áætlað, en ef þau eru höfð lægri, þá er hætt við, að því meira þurfi að greiða úr bæjarsjóði vegna veikinda.

Þetta vil ég láta nægja um sjúkratryggingarnar. Eins og ég tók fram í upphafi, er ætlazt til, að í kaupstöðunum séu þær skylda, en sveitir og kauptún hafi frjálst val, hvort þau taki þær upp eða ekki.

4. kaflinn er um elli- og örorkutryggingar. Eins og allir vita, hafa hér á Norðurlöndum tvær leiðir verið farnar í þeim efnum. Önnur leiðin er sú, sem Danir fara, að skaffa ríki og bæjum ákveðinn tekjustofn og láta þá aðila síðan greiða ellilaun til þeirra manna, sem komnir eru yfir ákveðinn aldur. Hin leiðin er farin í Svíþjóð, og er hún sú, að innleiða skyldutryggingar, og sú leiðin er hér valin í frv. því, sem fyrir liggur. Gert er ráð fyrir að hver maður á aldrinum 16—67 ára, sem ekki greiðir í lífeyrissjóð embættismanna, greiði ákveðið árlegt iðgjald í lífeyrissjóð; iðgjaldið sé 7 kr. fyrir hvern mann, sem er búsettur í kaupstað, en 6 krónur fyrir hvern, sem í sveit á heima. Auk þessa iðgjalds skal hver tryggingarskyldur maður greiða í þennan lífeyrissjóð 1% af árstekjum sínum, þeim sem skattskyldar eru, og kemur á þann hátt mjög mikil upphæð til aukningar sjóðnum. Með þessu er að því stefnt, að bæjar- og sveitarfélög hætti að greiða styrki, en landsfélagið sjálft verði þess umkomið að annast þessi mál.

Galli er það á tryggingu þessari eins og hún er hér framsett, að hún kemur seint til framkvæmda. Hún verður ekki komin í fullan gang fyrr en eftir 51 ár, þ. e. þegar þeir, sem eru 16 ára þegar lögin ganga í gildi, eru búnir að ná 67 ára aldri. En til þess að bæta nokkuð úr því; hve langur tími verður að líða unz ákvæði þessa frv. geta komið að fullum notum, þá eru hér í 6. kafla sett ákvæði um ellilaun og örorkubætur, og mun ég minnast á þau síðar og gera ýtarlegri grein fyrir þeim.

Hér er gert ráð fyrir, að elli- og örorkulífeyrir þeirra, sem hans njóta, verði misjafnlega hár, eftir því hvar mennirnir eru og hafa verið búsettir. Er þetta bæði vegna þess, að iðgjöldin eru mishá, en þó einkum vegna hins, hve misjöfn verður sú upphæð, sem greiðist með hundraðshluta skattskyldra tekna, eftir því hvar maðurinn er búsettur. Tekjurnar eru langhæstar hér í Reykjavík, og kemur því þessi greiðsla langmest til greina hér, og þess vegna réttmætt og eðlilegt, að það komi þeim til góða, sem hér eiga heima.

Að lokum vil ég taka það fram, að hér er ekki verið að ræða um ellistyrk, heldur ellitryggingar svipaðar þeim, sem eru í Svíþjóð. Það er líka rétt að taka það nú fram, að ef strax hefði átt að taka upp fulla lífeyrisgreiðslu samkv. frumv. og ef miðað er við fjölda gamalmenna við manntal 1930 — en þá voru alls á landinu 6800 menn yfir 67 ára aldur —, þá hefði til þess þurft um 3 millj. kr., og ég býst við, að allir séu sammála um, að ekki hefði verið unnt að ná í þann gjaldstofn, sem hefði gert það kleift.

5. kaflinn er um atvinnuleysistryggingu, og má um hann segja, að hann sé miklu fremur vísir til atvinnutrygginga heldur en raunveruleg tryggingarlöggjöf. Það hefir sýnt sig af reynslunni, að það er öllum þjóðum ofviða að halda uppi atvinnuleysistryggingum. Þær hafa víða orðið allfullkomnar, eins og t. d. í Þýskalandi, en geta alls ekki komið í staðinn fyrir það, að fólk hafi vinnu, sízt á þeim tímum, sem nú eru yfirstandandi, og því er þessi tryggingarvísir langt frá því að vera þannig, að ætla megi, að honum verði fært að taka við öllum þeim atvinnuleysingjum, sem einstaklingsframtakið getur ekki séð fyrir atvinnu. Hitt verður að vera aðalatriðið, að auka atvinnubætur svo sem hægt er við að koma og skaffa fleiri mönnum atvinnu hjá því opinbera eða einstaklingum, og minnka atvinnuleysið á þann hátt. Aðalefni þessa frv. er, að félögum verkafólks er heimilað að stofna atvinnuleysissjóði, sem njóta styrks frá ríki, sem nemur 50% á móti framlagi félaganna, og frá bæjarfélögum með 25—50%. Hins ber að gæta, að þetta frv. nær aðeins til kaupstaðanna, en ekki til sveita.

Þá er ég kominn að 6. kafla frv., og er það sá kafli, sem ég geri ráð fyrir, að flestir hafi mestan áhuga fyrir að kynna sér, því hann kemur strax í framkvæmd, og honum er ætlað að brúa bilið á milli þess, sem nú er, og þess, sem á að verða, eins og ég sagði áðan. Er gert ráð fyrir, að þau ákvæði verði til hjálpar þangað til lífeyrissjóður getur tekið svo til starfa, að hann greiði 50% af fullum lífeyri.

Frá þessu fyrirkomulagi skal ég nú segja í fáum dráttum. Hver sveitarstjórn leitar árlega upplýsinga um gamalmenni í sínu umdæmi, og þegar henni hafa borizt þær ásamt umsóknum um ellilaun, þá tekur hún umsóknirnar til athugunar og tekur þá frá, sem eiga venzlamenn, sem annast þá, eða á annan hátt álítast að vera sjálfir færir um að sjá sér farborða. Hinir, sem þá verða eftir, koma svo til greina við úthlutun ellilaunanna, og ber framfærslunefnd þá að áætla og ákveða, hve mikið þeir þurfi til að lifa, án þess að þeir einnig þurfi að njóta framfærslustyrks, en eins og allir vita, getur þetta verið mjög misjafnt, því gamalmenni þurfa misjafnlega mikið, og fer það eftir ýmsum aðstæðum.

Þegar þannig er búið að áætla hverju gamalmenni ellilaun, þá er vöxtum ellistyrktarsjóðanna skipt niður í réttu hlutfalli við úthlutunina, þannig að hvert gamalmenni fái hlut sinn hlutfallslega réttan. Þá upphæð, sem á vantar, greiðir svo lífeyrissjóður að hálfu. Þó er tillag lífeyrissjóðs bundið ákveðnu hámarki. Í 77. gr. er sagt: „Tryggingarstofnun ríkisins leggur til grundvallar síðustu skýrslur um tölu gamalmenna, yfir 67 ára, á ollu landinu. Árstillag lífeyrissjóðs fæst þá með því að margfalda tölu gamalmennanna með kr. 52.50, að frádreginni þeirri upphæð, sem úthlutað hefir verið á því ári af vöxtum ellistyrktarsjóðanna. Gildir regla þessi þangað til lífeyrissjóður Íslands byrjar að greiða elli- og örorkulífeyri, sbr. 87. gr. Eftir þann tíma dregst auk þess, sem að framan getur, frá árstillagi lífeyrissjóðs helmingur af öllum lífeyrisgreiðslum á árinu“. Ég get nú ímyndað mér, að þetta komi einhverjum spánskt fyrir, og skal því útskýra, hvernig þetta er hugsað. Þegar ellitryggingin er tekin til starfa og komin í fullan gang, verða meðalellilaun 420 kr. á hvert gamalmenni. Nú er til bráðabirgða ekki gert ráð fyrir, að hægt verði að greiða nema hálf ellilaun, eða 210 kr. Helmingur af því yrðu þá 105 kr., ef öllum gamalmennum væru greidd ellilaun. En nú er ennfremur búizt við því, að annaðhvert gamalmenni geti séð fyrir sér sjálft eða eigi þá venzlamenn, sem geti annazt framfærslu þeirra. Við þurfum því ekki að svo stöddu að reikna með hærri útgjöldum fyrir lífeyrissjóð en helmingnum af 105 kr., eða 52,50 kr. Eftir manntalinu 1930 voru um 6800 gamalmenni á öllu landinu. Það margfaldað með kr. 52.50 gerir 357 þús. kr., sem lífeyrissjóði ber að greiða, en frá því má draga vexti af ellistyrktarsjóðnum, um 80 þús. kr., og verða það því 277 þús., sem lífeyrissjóðurinn mundi greiða. Sama upphæð mætti óefað gera ráð fyrir, að kæmi frá bæjar- og sveitarfélögum, þar sem mikill hluti ómaga er nú gamalmenni. Væri þetta ólíkt heppilegra fyrir gamalmennin, að hafa þannig fastákveðinn styrk, en eiga alltaf undir sveitarstjórnirnar að sækja, hve hár styrkurinn er í hvert sinn. Mundi þetta styðja mjög að því, að upp kæmu gamalmennahæli, þar sem fólk keypti vist fyrir sig eða sína. En nú hefir alþýðufólk ekki aðstöðu til að skapa sér slíka vist, vegna þess að hún hefir verið of dýr. En þegar þetta væri komið á, mundi fjöldi fólks sækja vist á gamalmennaheimilin og kostnaður jafnhliða færast niður, og gera því fleiri kleift að standast hann. Að þessu ber að stefna.

Um niðurlag frv. hefi ég ekki sérstaka ástæðu til að segja mikið. Þar er það einkum 83. gr., sem leggur kvaðir á ýmsa aðila, bæði um innheimtu og greiðsluskyldu iðgjalda. Þetta er eðlilegt, bæði til að tryggja greiðslu iðgjalda og minnka kostnaðinn.

Ég vil svo að lokum segja, að þessi frv., sem hér liggja fyrir, eru til orðin, eins og allir vita, á þann hátt, að Alþfl. hefir barizt fyrir þeim á undanförnum árum, og með samkomulaginu við Framsfl. tryggt, að þau gangi fram. En það má öllum vera ljóst, að þessi frv. eru ekki eins fullkomin og Alþfl. hefði óskað. Er það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að fjárhagur ríkissjóðs og þjóðarinnar er nú þannig, að ekki er hægt að svo stöddu að leggja fram mikið fé. Og í öðru lagi vegna þess, að við ráðum ekki einir, heldur verðum að njóta þeirra að, sem með okkur standa að stj. landsins, og er því svo frá frv. gengið, að ætlazt er til, að það gangi fram lítið breytt. Er með frv. þessu verið að leggja grundvöllinn að einum mikilsverðasta þætti í löggjafarstarfi þjóðarinnar.