05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Blöð íhaldsins hafa talað mikið um það að undanförnu, að hv. þm. Snæf., sem hér hefir talað af hálfu minni hl., sé einhver sérstakur sérfræðingur í tryggingarmálum og láti sér mjög annt um að koma almennum tryggingum á. Nú hafa hv. dm. átt þess kost að heyra, hvernig sá áhugi er, og mun ég fara nokkrum orðum um það á eftir.

Hv. þm. Snæf. byrjaði ræðu sína með því að víta hæstv. ráðh. fyrir að skipa milliþingan. launaða í staðinn fyrir að hafa hana ólaunaða. Þetta er kannske skiljanlegt eftir hugsunarhætti hv. þm., því hann lítur víst svo á, að það eigi bara að skipa efnaða menn í n., og það getur líka hugsazt, að hann líti svo á, að peningunum fylgi bæði gáfur og þekking. En það er nú ekki alltaf svo, a. m. k. hefir hæstv. ráðh. álitið það heppilegra að velja í n. með tilliti til verksins, sem átti að vinna, en ekki með tilliti til þess, hvort þeir hefðu ráð á því að eyða mörgum mánuðum í þetta verk eða ekki.

Það má nú segja við báða hv. þm. úr minni hl., þegar þeir eru að tala um það, að þeir séu principielt með tryggingum: Sýndu mér trú þína í verkunum. — Þegar kemur að sjúkratryggingum, segja þeir, að það sé náttúrlega fallegt að hjálpa sjúkum, en að við höfum bara ekki ráð á því og þess vegna megi þessi löggjöf ekki koma til framkvæmda fyrr en fé er veitt til hennar í fjárl., og vitanlega ætla þeir sér að vera á móti því, að það sé gert í bráð. En þetta er náttúrlega ekki annað en á fínan hátt, eins og hæfa þykir hv. þm. Snæf., að jarða þennan hluta trygginganna.

Það er alveg rétt, að það er auðvitað pólitískt atriði, hvaða menn eiga að vera í slíkum tryggingum. En það er þó a. m. k. víst, að þar sem hv. þm. Snæf. var að tala um það, að sjúkratryggingin yrði nokkuð dýr, að hún verður ódýrari fyrir þá menn, sem í henni verða, ef allir gjalda til hennar, hvort sem þeir njóta hennar eða ekki, og einnig þeir, sem hafa yfir 4 þús. kr. tekjur. Það er ekki til þess að gera trygginguna ódýrari, heldur til þess að hlífa þeim, sem mestar tekjurnar hafa, sem hv. þm. vill sníða þá tekjuhæstu ofan af.

Það er vitanlegt, að sá kostnaður, sem landsmenn hafa af sjúkdómum, er ákaflega mikill, og það verður ekki komið skipulagi á þá hluti eða fullkomnum lækningum meðal almennings öðruvísi en með því að koma á einhverjum tryggingum, svipuðum og þeim, sem hér er farið fram á, og þá auðvitað með því að lögbjóða þær. Við sjáum það af reynslunni, t. d. í Danmörku, þar sem um langan aldur er búið að reyna frjálsar sjúkratryggingar, og eins og Danir eru þó vel mennt þjóð, að þeir hafa orðið að lögbjóða hjá sér sjúkratryggingar til þess að þær næðu til þeirra, sem verst eru staddir. En það er auðvitað rétt, að meiningin með þessu frv. er sú, að hver einstakur á ekki að borga nákvæmlega það, sem fyrir hann kemur, heldur á þetta að dreifast út yfir allan fjöldann, án þess að vitað sé, á hvern sjúkdómarnir koma, og í öðru lagi það, að þeir, sem mestar hafa tekjurnar, hafa betri aðstöðu til þess að greiða fyrir hina, sem verr eru settir. Það má líka taka það með í reikninginn, að þó maður sé einu sinni vel efnaður, þá getur á skömmum tíma skipazt veður í lofti og hann orðið fátækur.

Mér finnst, alveg í mótsetningu við hv. þm. Snæf., sem telur, að það sé varhugavert að lögbjóða þessar tryggingar á slíkum erfiðleikatímum sem nú eru, að það sé aldrei jafnnauðsynlegt og einmitt þá, þegar alþýða manna lifir í sem mestu öryggisleysi, að reyna á einhvern hátt að skapa betra fyrirkomulag og meira öryggi meðal almennings.

Hv. þm. Snæf. sagðist vilja láta þingið ráða því, hvenær þessi sjúkratryggingarlöggjöf kæmi til framkvæmda. Það viljum við líka; við ætlum að láta þingið ráða því með því að láta löggjöfina ganga í gildi 1. apríl næsta ár. Það þarf ekki aðra fjárl. heimild til þess.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Snæf. sagði um ellitryggingarnar, þarf ég ekkert að segja, því hann gerði enga aths. við þann kafla né brtt. okkar við hann.

Þá kom hv. þm. Snæf. að atvinnuleysistryggingunum, sem hann tjáði sig vera mótfallinn, og þá fyrst og fremst af því, að það væru verkalýðsfélögin á hverjum stað, sem ættu að ráða því, á hvern hátt atvinnuleysisfénu skuli úthlutað, og gaf það í skyn, að það mundu nú víst fyrst og fremst verða þeir „útvöldu“, sem hlunnindanna yrðu aðnjótandi. Í verkalýðsfélögin er öllum heimill aðgangur, sem stunda þá atvinnu, sem sá félagsskapur nær yfir, og menn eru ekki spurðir um það, hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyri. Það eru því auðvitað verkamenn úr öllum stjórnmálaflokkum í þessum félögum. En það getur verið, að hv. þm. Snæf. trúi því, að gert sé upp á milli verkamanna í þessum félögum eftir því, hvað stjórnmálaflokki þeir tilheyra, en ég fullyrði, að slíkt á sér aldrei stað. Ég er a. m. k. viss um, að þau verkalýðsfélög, sem ég þekki, hafa ekki spurt um það, hvaða stjórnmálastefnu menn fylgdu, til að láta fara eftir því, hvort menn fengju atvinnuleysisstyrk eða ekki. Það er vitað, að þar sem verkfallssjóðir eru hjá félögunum, en ekki opinberir styrkir, þá er þeim úthlutað jafnt milli manna af öllum pólitískum flokkum.

Þá gat hv. þm. um það, að atvinnuleysisstyrkir væru óeðlilegir vegna þess, að atvinna væri mismunandi eftir árstíðum. En það er í öllum löndum meira eða minna, en þar, sem iðnaður er meiri, þar er ekki eins mismunandi atvinnuleysi eftir árstíðum. En þetta segir bara, að það verður að haga samþykktum atvinnuleysissjóða í samræmi við þetta. Þeir eru ætlaðir til þess, að greitt sé úr þeim í reglulegu atvinnuleysi.

Þá talaði hv. þm. um það, að rétta væri ekki kleift fyrir bæina eða ríkið og væri betra að láta vinna fyrir þessa peninga. Við Alþfl.menn álítum, að ekki sé of mikið unnið í atvinnubótavinnu í landinu og það ætti að gera meira. En allt næst ekki með henni. Og það er vert að athuga, að erlendis, þar sem tekið hefir verið upp hvorttveggja, atvinnuleysissjóðir og vinna. Þar er þeim haldið áfram, og þar sem byrjað er á öðru, eins og í Svíþjóð, og menn hafa ekki viljað fara inn á þá braut að mynda atvinnuleysissjóði, þá hafa menn þó seinna farið inn á þá leið. Það er ekkert af nágrannalöndum okkar, sem ekki hefir atvinnuleysissjóði. Með þeim eru verkamenn hvattir til að leggja til hliðar af kaupi sínu og njóta jafnframt styrks ríkissjóðs. Þannig eru þeir örvaðir til að hugsa sjálfir um öryggi sitt. Féð verður líka á sínum tíma meira á þennan hátt en þó að lagt hefði verið fram úr ríkissjóði eða bæjarsjóði og varið til atvinnubóta. Og auk þess, eins og atvinnubótavinnan er framkvæmd, verður allur fjöldi manna, sem ekki nýtur hennar, svo sem iðnstéttirnar, kvenfólk o. fl.

Þá sagði hv. þm., að meiningin hefði verið að láta frv. ekki ná nema til kaupstaðanna. Ég hélt því hinsvegar fram, að það hefði verið prentvilla í frv. Og þegar við töluðum við n., þá tók hún undir þetta, enda er það sjáanlegt af grg., þar sem útreikningurinn er 10 þús. verkamenn skattskyldir, en það svarar til allra bæði í kaupstöðum og kauptúnum. Í kaupstöðunum einum eru ekki nema um 7000 verkamenn. En hvað sem þessu líður, þá erum við sammála um að láta þetta ná til kauptúnanna, svo að ekki þarf frekar um það að ræða.

Þá kom hv. þm. Snæf. fram með það, að ekki væri hægt að veita meiri styrk til alþýðunnar í bæjunum, meðan afkoman væri jafnslæm í sveitunum. við, sem í stjórnarflokkunum erum, álítum, að þetta hvorttveggja verði að leysast samhliða. Ennfremur má benda á það, að meira hefir verið gert fyrir sveitabændurna, með afurðasölulögunum o. fl. Og ekki er hægt að búast við því, þó stofnaður yrði atvinnuleysissjóður með áætluðu 75 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði og annað eins úr hlutaðeigandi bæjarsjóði, að þetta kæmi strax til framkvæmda. Og þó svo væri, get ég ekki séð, að hv. þm. Snæf., sem hefir sjávarþorp í sínu kjördæmi, ætti að sjá eftir þessari upphæð á 14 eða 15 millj. kr. fjárl. En hv. þm. sagði, að það væri margt meira aðkallandi en leggja fé til atvinnuleysingja í kauptúnum. Annars munu flestir stjórnmálamenn, sem nokkra ábyrgðartilfinningu hafa, skoða atvinnuleysið sem eitt af mestu vandræðamálum þjóðanna.

Viðvíkjandi einstökum brtt., vil ég geta þess, að allar brtt. minni hl. eru komnar fram á móti brtt. og skoðunum meiri hl., að undantekinni 2. brtt., sem er meinlaus, en gerir ekkert gagn og breytir ekkert efni.

Af 26. brtt., sem við höfum komið með, hefir minni hl. starfað með okkur að 10, — hinar eru frá meiri hl.