05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara mjög löngu, en vænti þó, að hv. þm. Snæf. skilji, að ein ástæðan fyrir því, að sjúkratryggingarnar eru settar á, er sú, að þær eru hlutfallslega ódýrari en annað fyrirkomulag, og því þjóðhagslega heppilegra. þannig fá þeir tryggðu — og það í kaupstöðum, þar sem ekki er lögskipuð sjúkratrygging — miklu ódýrari læknishjálp en þeir, sem ekki eru tryggðir. Ekki aðeins á þann hátt, að þeir fá beinlínis hálfan styrk, heldur líka á þann hátt, að sama regla gildir þar og annarsstaðar, að þegar viðskiptin eru mikil, er hægt að komast að betri kjörum. En læknunum er þetta ekki heldur verra, því þetta er þeim tryggt fé. Auk þessa felst í þessu trygging fyrir, að þeir, sem eru sjúkratryggðir, fái læknishjálp. En nú er fjöldi manna, sem ekki er sjúkratryggður, sem alls ekki fær læknishjálp, vegna þess að þegar veikindin ber að höndum, eru engir peningar til, þó kleift hefði verið að leggja til hliðar 3 kr. á mánuði í trygginguna.

Að leggjast á móti frv. um að lögbjóða sjúkrasamlög, er því ekkert annað en að hjálpa heilsuleysinu móti heilsuvernd.

Auk þess, sem ríki og bæir leggja fram, kemur einnig tillag frá mönnum, sem engra hlunninda njóta. Er það réttlætt á þann hátt, að sá maður, sem nú er efnaður, getur síðar við breyttar ástæður þurft að njóta réttinda samlagsins. Auk þess er ekki nema eðlilegt, að lagður sé nokkur aukaskattur á þá efnaðri til hjálpar þeim, sem snauðari eru. Vænti ég, að hv. þm. Snæf. mæli ekki á móti því, að það sé víða nauðsynlegt. Með því að bera saman tölur sest, að gert er ráð fyrir, að nýju samlögin veiti meiri hjálp en þau, sem áður voru, en eru þó ódýrari. Vænti ég, að hv. þm. og flokksmönnum hans takist ekki að standa í vegi framgangi svo góðs máls. Það kann að vera, að um það megi deila, á hvaða stigi styrkurinn eigi að hætta, en við töldum eðlilegt að miða við þá tekjuupphæð, sem frv. gerir ráð fyrir.

Það kann vel að vera rétt, sem hv. þm. sagði, að atvinnuleysissjóðirnir nái ekki mikilli útbreiðslu á fyrsta ári, en það kemur smám saman til allra verklýðsfélaga, jafnvel þó það sé rétt, að þau eigi erfitt með að leggja upp peninga. En þetta er þó það, sem fjöldi manna gerir, að leggja nokkuð fyrir til verri tíma. En þó ætti að vera meiri hvöt til þess að leggja í atvinnuleysissjóði, þegar það opinbera leggur ríflega á móti.

Hv. þm. sagði, að hann vildi auka atvinnuna í landinu. Við sjáum til, þegar fjárl. verða afgr., hvað hann verður ríflegur á atvinnubótunum. Hann sagðist ekki vilja ganga inn á að styrkja atvinnuleysingjana, heldur láta féð ganga til atvinnuveganna. En hvað á að gera við fólkið meðan það kemst ekki í atvinnu? Á að láta það deyja drottni sínum? (TT: Á það að lifa á atvinnuleysistryggingunum?). Það á að búa út atvinnuleysistryggingar jafnhliða því, sem unnið er að atvinnubótum, en það verður ekki gert á nokkrum mánuðum, því margar orsakir að okkar erfiðleikum stafa frá útlöndum, og við getum ekkert ráðið við hvenær þær lagast.