05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

131. mál, alþýðutryggingar

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er ein af brtt. hv. meiri hl. allshn., sem ég get ekki látið hjá líða að lýsa óánægju minni yfir, þó að það sjálfsagt stoði lítið. — Það mun hafa verið einhver ágreiningur um það í allshn., hversu mikill hluti þessara tillagna á þskj. 667 væri ávöxtur af sameiginlegu starfi allrar n. Og þó að þetta sé lítilfjörlegt atriði, sem hér er um að ræða, þá get ég ekki samþ. það, sem hv. frsm. meiri hl. n. segir, að það séu aðeins 10 fyrstu brtt. á þessu þskj., sem samkomulag hafi verið um á milli nefndarhlutanna á sameiginlegum fundum. Það mun hafa verið samvinna í n. um athugun á frv., allt fram að IV. kafla. Ég man sérstaklega eftir því, að 12. og 14. brtt. voru komnar á dagskrá hjá n. á meðan ég starfaði þar; því að framan af þinginu átti ég sæti í allshn. í fjarveru hv. þm. Snæf. En aftur á móti verð ég að játa, að 15. brtt. á þskj. 667 er ekki ávöxtur af samstarfi allrar n. þó að samflokksmenn mínir í allshn. hafi lýst velþóknun sinni á þessari brtt. hv. meiri hl. n., þá get ég ekki verið því samþykkur. Eins og hv. þdm. vita, þá eru sjúkratryggingarnar og lífeyrissjóðstryggingarnar yfirleitt byggðar á hreinum tryggingagrundvelli, og samkv. ákvæðum frv. eiga gjaldendur til lífeyrissjóðs að njóta lífeyris úr honum, eftir því hversu mikil framlög hafa verið frá þeim eða héruðum þeirra til sjóðsins. En samkv. 15. brtt. á þskj. 667 er farið fram á, að upphæðir árlegs lífeyris einstaklinga skuli ekki ákveðnar strax í þessum lögum, og gefið undir fótinn um, að þeim kunni að verða hagað öðruvísi en gert er ráð fyrir í frv., og að slakað verði til frá þeim grundvelli. En mér finnst sjálfsagt að haga því eins og gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar má segja, að með 15. brtt. á þskj. 667 sé engu slegið föstu um þetta, heldur eigi aðeins að fresta endanlegri ákvörðun um upphæð árlegs elli- og örorkulífeyris einstaklinga fyrst um sinn. — Að vísu má segja, að það sé enginn skaði skeður, þó að þessi ákvörðun verði látin biða þangað til síðar, en ég greiði samt atkv. á móti þessari brtt.

Annars vil ég segja það um þessa löggjöf í heild, að þó að ég sé tryggingunum fylgjandi í principinu, þá er samt mjög mikill vafi á bak við hjá mér um það, hvort við Íslendingar, sem erum svo fámenn og fátæk þjóð, getum risið undir þessu tryggingabákni. Ég er í vafa um það, hvort þjóðinni hentar eigi betur, eins og nú er ástatt, að sjá þeim, sem eru hjálparþurfi, farborða á annan hátt og haga hinni almennu framfærslu öðruvísi. Ég verð því að taka undir með þeim, sem telja það mjög tvísýnt að ráðast í þessa tryggingarlöggjöf eins og tímarnir eru nú. Þó að þessi löggjöf gangi út á það, að veita almenna hjálp þeim, sem eru sjúkir, fátækir eða aldurhnignir, og að þörfin hafi máske aldrei verið meiri til þess en nú, í þeim erfiðleikum, sem við er að stríða, þá er þess að gæta, að jafnframt er með þessum lögum krafizt allmikilla fórna og fjárframlaga af einstaklingunum, svo að það verður að teljast vafasamt, hvort þær geta risið undir því. Þegar meðalfjölskylda á að greiða í iðgjöld til tryggingasjóða samtals um 300 kr., með atvinnuleysi og allskonar vandræði framundan, þá getur vel farið svo, að fjöldinn allur hafi enga möguleika til að greiða iðgjöld sín á móti framlögum sveitarfélaga og ríkissjóðs. Og höfuðþáttur þessarar löggjafar gengur fyrst og fremst út á það, að undirbúa sjóðstofnun með framlögum einstaklinga og hins opinbera, sem á að veita fólki hjálp í elli. Fyrst þarf í mörg ár að safna fé í lífeyrissjóð, sem gefið er fyrirheit um, að inni síðar meir af hendi lífeyrisgreiðslur til gamalmenna. Það virðist mjög vafasamt, hvort nú sé hinn rétti tími til þess að byrja á sjóðssöfnuninni, þegar allir eiga fullt í fangi með það lífsframfæri, sem á þeim hvílir, og standa ekki undir nauðsynlegustu útgjöldum. Og þegar svo þar á ofan á að bæta iðgjöldum til trygginga, sem menn fá ekki að njóta að verulegu leyti fyrr en löngu síðar, þá er eðlilegt, að menn telji vafasamt, að þetta sé tímabært.

Ellihjálp sú, sem gert er ráð fyrir í frv., er að nokkru leyti annars eðlis og mætti sjálfsagt koma henni fyrir á annan hátt.

Því var eitt sinn slegið fram á opinberum vettvangi, að það ætti helzt ekki að borga af ríkisskuldum í góðæri. Eftir því virðist heldur eiga að gera það í harðæri, því að sennilega á þó einhverntíma að greiða skuldirnar. Framkvæmd þessara tryggingarmála virðist vera hugsuð á sama hátt. Maður skyldi þó halda, að það væri öllu betra í góðæri.

Það er mikið skvaldrað um, hvað þetta sé stórfellt mannúðarmál, það sé svo mikill stuðningur að styrktarstarfseminni í landinu; nú eigi að hjálpa öllum. Og þó er langt síðan gerðar voru allvíðtækar ráðstafanir til þess með lögum hér á landi að veita fátæku og ellihrumu fólki opinbera hjálp. Ég hygg, að það hafi verið kvæði um það í hinni fyrstu íslenzku löggjöf, að það ætti að sjá öllum farborða, sem ekki gætu séð fyrir sér sjálfir, hvort sem það stafaði af fátækt, sjúkdómum eða elli, og hverjar sem ástæðurnar voru. Og nú er þetta gert í öllum tilfellum. Það er alls ekki svo að skilja, að fólk sé í örþrifavandræðum hér á landi, því það á alltaf heimtingu á brýnustu þörfum, og þá er þeim fullnægt. Þess vegna er ekki sérstaklega knýjandi nauðsyn á þessari löggjöf; heldur þvert á móti; það er fullkomin ástæða til að athuga, hvort ekki sé réttara að fresta henni um stundarsakir.

Ég er ekki að skýra frá þessum hugleiðingum mínum af því, að ég sé beinlínis á móti slíkri löggjöf sem þessari, þó ég telji, að tilgangi hennar megi ná eftir öðrum leiðum, á meðan afleiðingar kreppunnar þjaka almenningi. Ég geri að vísu ráð fyrir, að það liði ekki mörg ár áður en þessi löggjöf verður sett hér á landi. En ég kvíði því, að eins og nú árar verði bæjar- og sveitarsjóðum og ríkissjóði reistur hurðarás um öxl með útgjöldum vegna þessarar löggjafar; ég kvíði því líka, að einstaklingum verði einnig reistur hurðarás um öxl með iðgjöldunum. Mér er kunnugt um, hversu mikið er kvartað yfir því, að einstaklingum gangi erfiðlega að greiða opinher gjöld. Enda hefir það komið berlega fram í þeim kröfum, sem fluttar hafa verið í frumvarpsformi á þessu þingi um nýja tekjustofna handa bæjar- og sveitarfélögum. Og er það vitanlega sprottið af því, að gjaldendur til bæjar- og sveitarfélaga hafa ekki gjaldgetu til þess að rísa undir útsvörum og sköttum, sem á þá eru lagðir. En hér á svo með þessari löggjöf að bæta allt að 300 króna útgjöldum árlega á hvert meðalheimili, sem ekki getur staðið undir þeim sveitargjöldum, er þau eiga nú að greiða. Það er því nokkurnveginn augljóst, að í því árferði, sem nú er, þarf að færa saman og takmarka útgjöld einstaklinganna fá því, sem nú er.

Annars getur farið svo, að útgjöldin til trygginganna innheimtist alls ekki, og þar með verður grundvellinum svipt undan þeim stofnunum, sem eiga að annast greiðslu á styrkjum til einstaklinga. — Í mörgum tilfellum eiga menn að njóta hlunninda fyrir gjöldin, sem þeir greiða til tryggingarstofnananna, en á hinn bóginn eru þeir fjöldamargir, sem ekki njóta slíkra hlunninda í hlutfalli við það, sem þeir leggja fram. Má því búast við, að þeim þyki það þungar búsifjar að sæta þessum auknu álögum, og að af þeim ástæðum kunni líka að reynast erfitt að heimta gjöldin inn, þó gera megi ráð fyrir, að úr rætist þegar betur árar, og þegar almenningur hefir fengið meiri skilning á gagnsemi þessara laga. Þannig má búast við, að þeir erfiðleikatímar, sem nú eru, geri þessar löggjafarráðstafanir mjög óvinsælar og verði þeim að meira eða minna fótakefli. Það er hætt við, að almenningur espist til andstöðu gegn þessum togum og tregðist við að inna af hendi iðgjöld sín samkv. lögunum, sem annars mundi ekki bóla á þegar betur árar.

Annars viðurkenni er fúslega, að tilgangur þessarar löggjafar er í alla staði hinn bezti, og er æskilegt, ef hægt væri að leysa úr erfiðleikum almennings með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í þessari löggjöf.