05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

131. mál, alþýðutryggingar

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það eru aðeins nokkur orð áður en þessari umr. er lokið, út af því, sem komið hefir fram undir umr. — Það virðist ekki vera ágreiningur um þörf þeirra trygginga, sem frv. ræðir um. Er það vel skiljanlegt um slysatryggingarnar, því l. um þær eru búin að vera í gildi í 10 ár, í svipuðu formi og í frv. Er reynslan af þeim sú, að engum hv. þm. dettur í hug að breyta þeim. Um ellitryggingarnar eru menn ekki heldur verulega ósammála. Það er aðeins eitt atriði úr brtt. meiri hl. allshn., sem rétt er að drepa á. Er það brtt. um að fella niður ákvæðið um þá upphæð, sem menn eiga að fá úr ellitryggingunni, þegar hún kemur til fullra framkvæmda. Ástaðan til þess, að Alþfl. hefir gengið inn á að fella þetta ákvæði niður, er sú, að ekki náðist samkomulag við samstarfsflokkinn um þetta atriði, enda ekki nauðsynlegt að kveða á um þetta nú, þar sem a. m. k. líða 12 ár þangað til það kemur til framkvæmda. Hinsvegar telur Alþfl. þetta réttan grundvöll, þó ekki verði hann lögfestur að þessu sinni. Það kemur m. a. til af því, að búast má við, að á næsta ári geti verið komin á veruleg breyt. á efnahagsafkomu manna víða um land, og það gerir það að verkum, að sá grundvöllur raskast, sem byggt er á í frv., og þess vegna er ekki tímabært nú, löngu áður en þetta kemur til framkvæmda, að slá þessu föstu. Ég vil taka það fram, að gefnu tilefni í ræðu hv. 3. þm. Reykv., að við fulltrúar Alþfl. í allshn. erum honum að vissu leyti sammála um þetta, þótt við gætum fúslega fallizt á, að þetta sé ekki lögbundið nú á þessum tímum. Það eru tvær tegundir trygginga, sem hafa aðallega vakið umr. í þessari hv. d., og það eru atvinnuleysis- og sjúkratryggingar. Hv. minni hl. allshn. hefir lagzt gegn sjúkratryggingunum í þeirri mynd, sem þær eru í, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir, og fært það fram sem rök fyrir sínum till., að á þessum erfiðu tímum sé verið að leggja þungan persónulegan skatt á þá tryggingarskyldu menn, sem þetta frv. ræðir um, með þessum tryggingum. Nú erum við, sem erum í meiri hl. þeirrar skoðunar, að á þessum örðugu tímum, þegar mest þjakar að alþýðunni í landinu, sé einmitt mest nauðsyn á því, að afkoma manna sé sem bezt tryggð með þeim hætti, að hvorki sjúkdómar, örorka né heldur elli fái þeim grandað á sama hátt og átt hefir sér stað hingað til. Þess vegna teljum við ekki ótímabært að lögfesta sjúkratryggingar. En þau rok hv. minni hl. n., að með þessu sé verið að leggja þungar byrðar á einstaklingana, sem eru tryggðir, þau stangast nokkuð við þá till. þessa hv. minni hl. um það að draga úr tillagagreiðslu þeirra manna, sem helzt geta innt þessar greiðslur af hendi, en það eru þeir, sem hafa 4500 kr. í tekjur, að frádregnum persónufrádrætti. Meiri hl. n. lítur þannig á, að þeir, sem eru betur efnum búnir, eigi að styrkja þá, sem verr eru settir, með því að greiða í þennan sjóð og að tillagagreiðsla þeirra manna, sem ekki njóta trygginganna, geti orðið til þess að létta undir með hinum. mér skildist á ræðu hv. 7. landsk., að bann teldi vafasamt fyrir sveitirnar að taka á sig þessi persónulegu gjöld, sem gert er ráð fyrir í sjúkratryggingunum, en því er til að svara, að þær eru ekki lögboðnar fyrir utan kaupstaðina, og hreppunum er í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja koma þessum tryggingum á hjá sér eða ekki. En reynslan í sumum kauptúnum landsins hefir sýnt, að menn hafa lagt hart á sig til þess að fá slíkar sjúkratryggingar. Ég vil benda á dæmi, sem hv. 7. landsk. þekkir, þ. e. sjúkrasamlag Sauðárkróks. Þar greiða margir menn, og einnig af þeim fátækari, eftir því sem ég hefi fengið upplýsingar um, 2.50 kr. á mann til sjúkrasamlagsins, og býst ég við, að fæstir telji það eftir sér að greiða þetta litla tillag, þegar þeir með því sjá sér fyrir ókeypis læknishjálp, ef sjúkdóma ber að höndum. Þegar við athugum starfsemi sjúkrasamlags Rvíkur, sem starfað hefir nokkuð lengi, þá sjáum við, að þar sem fjöldi fátækra manna hefir greitt 3.75 kr. í tillag til samlagsins árið 1933, svo eitthvert ár sé til tekið, þá álíta menn yfirleitt, að það borgi sig að vera í sjúkrasamlögum og njóta þeirra hlunninda, sem það hefir í fór með sér fyrir þá, enda þótt fátækt fólk eigi vitanlega oft mjög erfitt með að inna greiðslu á sjúkrasamlagstillögum af hendi. Ég held því, að hvorki sé því til að dreifa, að greiðsla sú, sem einstaklingar eiga að inna af hendi til sjúkrasamlaga, né heldur því, að hið örðuga ástand meðal almennings í landinu geti gert það að verkum, að ekki beri að lögfesta sjúkratryggingar, eins og gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Þá vil ég minnast dálítið á atvinnuleysistryggingarnar, sem sætt hafa miklum andmælum af hálfu hv. sjálfstæðismanna hér í þessari hv. d., hafa þeir einkum fundið þeim það til foráttu, að með þessu væri verið að auka útgjöld ríkissjóðs og bæjarsjóða, og auk þess myndi þetta verða til þess að auka aðstreymi fólksins úr sveitunum til bæjanna. Eins og hv. þm. N.-Þ. minnti á, mun ekki vera hægt að reikna með því, að þessi upphæð, sem greiða á af opinberu fé, verði a. m. k. í náinni framtíð jafnmikil eins og gert er ráð fyrir í frv., og ég þori að fullyrða, að sú upphæð, sem lögð verður fram úr ríkissjóði á næsta ári fyrir atvinnuleysistryggingar, getur ekki numið meiru en 20—30 þús. kr. Þetta svarar til þess, að 2000 —4000 menn stofni með sér atvinnuleysissjóð, og ég ætla, að það sé mjög hæpið, að þeir verði fleiri í upphafi en sú tala, sem ég hefi nefnt. Hvað það atriði snertir, að þetta dragi menn úr sveitunum til Rvíkur, þá er því að svara, að það eru ekki atvinnuleysissjóðir, alþýðuhreyfingin eða verkalýðsfélögin, sem dregið hafa fólkið til bæjanna, heldur eru það fyrst og fremst atvinnufyrirtækin, sem starfa við sjóinn og í kaupstöðunum, og ekki sízt togaraútgerðin, er það kunnugra en frá þurfi að segja, að það er einmitt stórútgerðin, sem átt hefir mjög sterkan þátt í því, að fólkið hefir hópazt til Rvíkur úr sveitunum, sumpart til þess að setjast hér að fyrir fullt og allt og sumpart til að dvelja hér um lengri eða skemmri tíma í atvinnuleit. Ég ætla, að hv. þm. Snæf. og fleiri, sem líkt er ástatt um í þessu efni, hafi einmitt orðið til þess að draga allmarga menn til Rvíkur í atvinnuleit, því að úr kjördæmi hans munu allmargir menn hafa leitað atvinnu hjá því atvinnufyrirtæki, sem hann veitir forstöðu m. a., og hefir hann því átt þátt í því að auka fólksaðstreymi til Rvíkur. (TT: Það var líka áður en ég varð þm.). Satt er það að vísu, en ekki mun hafa dregið úr komu Snæfellinga hingað eftir að hv. þm. varð fulltrúi þeirra hér á þingi.

Hv. þm. Snæf. sagðist heldur vilja verja fé til aukinna framkvæmda en til atvinnuleysistrygginga, en það mun nú reyna á hann og hans flokksbræður við afgreiðslu þessara fjárl., hversu ríflega þeir greiða atkv. með þeim fjárveitingum, sem ganga til ýmsra verklegra framkvæmda.

Þá vil ég minnast á atriði, sem fram hefir komið í þessum umr., bæði hjá hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk., en þeir héldu því fram, að þetta frv. til alþýðutrygginga, sem hér liggur fyrir, nái miklu skemmra en frv. til alþýðutrygginga, sem borið var fram af Alþfl. á þingi árið 1930. Ég skal fúslega játa, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, nær miklu skemmra heldur en hitt frv. og er að mörgu leyti ekki nærri eins aðgengilegt. Ástæðan fyrir þessu er afareðlileg. Með fyrra frv. er gerð grein fyrir því, sem Alþfl. taldi heppilegasta fyrirkomulagið á atvinnuleysistryggingunum og hann ætlaði að reyna að lögfesta, ef hann næði meirihl. aðstöðu á þingi. Hinsvegar er þetta frv. árangur af samstarfi tveggja flokka, sem að sumu leyti hafa ólík sjónarmið að því er þessi mál og fleiri snertir, og þetta frv. er mótað af því samkomulagi, sem varð milli þessara tveggja flokka, en Alþfl. hefir ekki búizt við, að hann gæti í samstarfi við nokkurn annan flokk komið á jafngóðum alþýðutryggingum og hann vildi, en hann telur samt mikið unnið með þessu frv., sem Framsfl. fylgir og hefir sýnt fullan skilning á, að þurfi að ná fram að ganga á þessu þingi. Það er hægt að byggja ofan á þann grundvöll, sem rétta frv. er byggt á, eftir því sem reynslan gefur tilefni til og stundir líða fram.

Út af því, að hv. þm. Snæf. sagði, að frv. frá 1930 hafi fengið slæma dóma, þegar það var sent til umsagnar til vinnumálaskrifstofunnar í Genf, skal ég geta þess, að sú umsögn var ekki þess eðlis, að frv. væri fordæmt eða hugsun þess; það var farið viðurkenningarorðum um mörg atriði frv., en það var bent á nokkuð aðra leið í þessu efni heldur en frv. gerði ráð fyrir, og er sú leið farin víða erlendis í tryggingarmálum. Það fer því fjarri því, að Alþfl. hafi að nokkru leyti fallið frá þeim skoðunum sínum á þessum málum, sem fram koma í frv. frá 1930, en hitt er sannleikurinn í þessu, að hann gat ekki gengið lengra í þessu efni núna í þetta skipti, sökum þess að hann er einn út af fyrir sig í minni hl. hér á þingi.