05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

131. mál, alþýðutryggingar

Jón Pálmason:

Mér þykir satt að segja nokkuð fámennt hér í hv. d. til þess að halda áfram umr. um þetta stórmál. Sérstaklega sakna ég þess, að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur, því að þegar um jafnþýðingarmikið fjárhagsmál fyrir ríkissjóð og almenning er að ræða og þetta mál, þá er náttúrlega ekki sízt ástæða til að tala við hann. Í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að líta nokkuð yfir fjárhag landsins. Það hefir verið svo undanfarið, að það hefir alltaf þokazt meira og meira í þá átt, að auka smátt og smátt útgjöld ríkissjóðs. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að fjölmörgum stofnunum hefir verið komið á fót, sem allar hafa í för með sér stórútgjöld fyrir ríkissjóð. Það er líka kunnugt, að á því 8 ára tímabili, sem Framsfl. hefir farið með fjármálavaldið í þessu landi, hafa útgjöld ríkissjóðs numið hvorki meira né minna en 140 millj. króna. Það er vitað, að eftir því sem lengra hefir liðið á þetta tímabil, hafa föst útgjöld ríkissjóðs í fjárl. farið vaxandi. En þrátt fyrir það, að atvinnuvegir landsmanna eru að þrotum komnir undir þeim álögum, sem á þeim hafa hvílt, þá má þó segja, að mikið af þessum auknu útgjöldum ríkissjóðs á seinni árum hafi gengið til aukinna umbóta og menningar í einni eða annari mynd; en í þessu sambandi ber bara að athuga, hversu mikið atvinnuvegir landsins þola að bera af skattaálögum, jafnvel þótt mikið af því fé gangi til aukinna framfara á ýmsum sviðum. Það hefir komið í ljós samkv. upplýsingum, að það eru um 300 þús. króna, sem ætlazt er til, að ríkissjóður greiði árlega til þeirra mála, sem hér eru til umr. Eins og kunnugt er, var gerður samningur milli stjfl. um það, að leggja á bráðabirgðaskatt fyrir eitt ár í senn til þess að koma þessu í framkvæmd. Ég skal ekki um það segja, hvort þessi bráðabirgðaskattur muni svara til þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið um þetta, á næsta ári, en hitt er ljóst, að þótt þær tekjur, sem ríkissjóði er ætlað að fá með þessum skatti, bregðist ekki á næsta ári, þá er ekki ómögulegt, að þar geti brugðizt á næsta ári þar á eftir. Í þessu sambandi má geta þess, að þegar lagður er svona hár tekjuskattur á, og gert er ráð fyrir að draga hann frá tekjum þess árs, sem á eftir kemur, þá verður það vitanlega til þess að rýra skattinn á því ári, sem á eftir kemur, að miklum hluta. Hitt er kunnugt, að það er stefna núv. hæstv. stj. að draga sem mest úr innflutningnum, og það gerir það eðlilega að verkum, að viðskiptagjaldið og þeir tollar, sem heimtaðir eru í ríkissjóðinn, minnka. Hvað þessar almennu tryggingar snertir, þá er því ekki að leyna, að þær eru stórt umbótamál, sem allir flokkar eru vitanlega sammála um, að sé í sjálfu sér mjög nauðsynlegt. Það fer þess vegna fjarri því, að ég vilji veita þessu máli mótstöðu, vegna þess að ég telji það ekki til umbóta; en það, sem markar mína afstöðu í þessu máli, er það, hvort hægt sé að bæta þeim auknu skattaálögum á landslýðinn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þar sem fjárhagur þess opinbera og fjölda einstaklinga í landinu er jafnbágborinn og raun ber vitni um. Það væri t. d. mjög ákjósanlegt, að hver einasti Íslendingur væri líftryggður, en það er vitanlega ekki hægt að koma því í framkvæmd vegna bágborins efnahags alls þorra landsmanna, enda þótt allir sjái, hversu nauðsynlegt þetta væri. Þegar svo er komið, að útsvör til sveitarfélaga innheimtast illa eða alls ekki, þá er auðsætt, að það er óhjákvæmilegt að draga úr þeim útgjöldum, sem ekki eru alveg óhjákvæmileg.

Að því er snertir þann þátt þessara trygginga, sem atvinnuleysistryggingar nefnast, þá hefir verið að því vikið bæði af hv. 7. landsk. og hv. þm. Snæf., að hér er áreiðanlega um mjög vafasama braut að ræða, og kemur þar fleira til greina en þau útgjöld, sem um er að ræða í þessu sambandi af hálfu þess opinbera og þeirra manna, sem til þessara mála eiga að greiða. Hv. 1. landsk. hélt því fram, að það væri ekki rétt, sem almennt er haldið fram, að straumur unga fólksins frá sveitunum til kaupstaðanna væri sprottinn af kaupgjaldskröfum verkalýðssamtakanna, heldur taldi hann þetta stafa frá stórútgerðinni í bæjunum. Ég held, að hv. þm. fari alveg villur vegar í þessu efni, því að þótt það sé rétt, að sjávarútvegurinn hafi átt nokkurn þátt í þessu, þá hefir það tvímælalaust verið öruggasta sporið til þess að hrinda þessum fólksflutningum úr sveitunum áfram, að síðustu ár hefir það komið í ljós, að það hefir verið arðvænlegast fyrir hvern einstakling að vera óbreyttur verkamaður í kaupstöðunum, aðallega Rvík náttúrlega, og bera ekki ábyrgð á framleiðslunni í sveitunum. Þetta er sterkasta aflið, sem dregið hefir fólkið til kaupstaðanna úr sveitunum. Og verði haldið áfram að auka atvinnubótavinnu í bæjunum og verði komið á atvinnuleysistryggingum, þá er það alveg auðséð, að af því leiðir aukinn fólksstraumur til bæjanna.

Viðvíkjandi því, sem rætt hefir verið í þessu sambandi, hvaða upphæð mundi þurfa til allra þessara trygginga úr ríkissjóði, bæði ellitrygginga, sjúkratrygginga og atvinnuleysistrygginga, þá virðist svo, eftir því sem málið liggur fyrir, að það sé alveg óútreiknanlegt, því það fer eftir svo mörgum ástæðum, sem ekki er hægt að gera sér grein fyrir fyrirfram. Það má búast við, að það verði svipað með þann kostnað og berklavarnakostnaðinn. Þegar þau l. voru sett, var kostnaður af þeim áætlaður tiltölulega lítill fyrir hið opinbera, en í framkvæmdinni reyndist þetta allt annað. Í þessu sambandi kemur það mjög til greina, að þegar fólk hefir von um þá fyrirhafnarlitlu hjálp, sem leiðir af þessari umbót, þá hefir það minni hvöt til þess að hjálpa sér sjálft. Það hafa verið nefndar 75 og jafnvel 35 þús. kr. til þess að standa straum af atvinnuleysistryggingunum, en slíkar tölur svífa algerlega í lausu lofti, það verða meiri og stórslegnari upphæðir, sem til þarf, en þær, sem nefndar hafa verið. Viðvíkjandi því, að hv. þm. N.-Þ. var að bera saman jarðræktarstyrkinn til bænda og þennan styrk til kaupstaðanna, þá er þar ólíku saman að jafna og alls ekki sambærilegt. Jarðræktarstyrkurinn er greiddur fyrir unnin verk, sem koma til góða þeim mörgu mönnum, sem eiga við framkvæmdirnar að búa í ókominni framtíð, en hér er um að ræða fé, sem veitt er til þess að halda uppi fólki, sem vegna veikinda, elli, atvinnuleysis eða atvinnu, sem það vill ekki sætta sig við, getur ekki séð fyrir sér sjálft.

Ég vil nú vænta, að hv. þdm. sjái það, að ég legg áherzlu á það fyrst og fremst, að ég tel eins og sakir standa hvorki til fé hjá ríkissjóði, sýslufélögum, sveitarfélögum eða einstaklingum fyrir hendi til þess að vit sé í að slengja þessu frv. gegnum þingið nú í einni svipan. Ekki af því, að þetta sé ekki nauðsynlegt mál, heldur eins og kunnugt er, að menn verða alltaf að sníða sér stakk eftir vexti og láta útgjöldin takmarkast af þeim tekjum, sem um er að ræða. Þessi ummæli mín ná þó ekki til þess þáttar í frv., sem kallast atvinnuleysistryggingar, því ég er í öllum tilfellum skilyrðislaust á móti þeim. En með tilvísun til þeirra ástæðna, sem ég hefi nú fært fram, mun ég þó að þessu sinni greiða atkv. gegn frv. í heild.