04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég býst við, að áheyrendum bæði utan þings og innan hafi verið ákaflega mikill léttir að ræðu hv. þm. G.-K., þar sem hann lýsir því yfir, að Sjálfstfl. mundi helzt ekki vilja taka við völdum, þó að nú færu fram nýjar kosningar, og þeir fengju til þess kjósendafylgi, en þó myndu þeir e. t. v. gera það fyrir föðurlandið í þetta sinn. Er því mjög að heyra, sem þeir óttist nú nýjar kosningar. Annað var ekki í þessari ræðu, sem skipti miklu máli, nema sú krafa Sjálfstfl. til ríkisstj. að hún væri nú ekki að þessu brölti, heldur léti þjóðina í friði, væri ekki að leggja á nýja skatta, ekki skapa nýja löggjöf um alþýðutryggingar eða nýbýli og samvinnubyggðir. Ég hygg, að þetta sé þungamiðjan í ræðu þessa hv. þm., og enda í umr. öllum, því hér hefir lítið verið á ríkisstj. deilt fyrir framkvæmdir hennar. Ég verð því að vera ánægður með þessar umr. og skoða sem við höfum farið svo vel með, að ekki sé margt um að kvarta. En það er viðhorfið gagnvart því, hvernig eigi að mæta vandræðunum, sem er þungamiðja málsins. Þeim á að mæta með því, að dómi hv. þm. G.-K., að láta þjóðina í friði. Hann sagði, að við hefðum verið að steypa þjóðinni í ógæfu síðustu ár. En ég vil spyrja hv. þm. og minna hann á, hvernig var 1933, þegar flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Skagf. (MG) átti sæti í stj., og annað sætið var skipað sama sem flokksmanni hans, hv. 10. landsk. (ÞBr). Hver varð útkoman þá? Þá varð greiðsluhalli við útlönd 11 millj. og tekjuhalli fjárlaga 2,5 millj. kr. En það er fullvist, þó að ekki verði jöfnuður á í ár, verður útkoman ekkert svipað því svo ill sem þá, og verður því ekki móti mælt, að færð hefir verið til stórlegra bóta. Þetta er það, sem hv. þm. G.-K. líkar illa; hann vill ekki láta stuðla að því að ná jöfnuði, hann vill láta þjóðina vera í friði fyrir slíku brölti. Alþfl. lítur hinsvegar á það sem stórt nauðsynjamál að ná jöfnuði bæði á fjárl. og í viðskiptum við útlönd. Hann vill skapa meiri atvinnu fyrir atvinnuleysingjana, en hv. þm. G.-K. (ÓTh) vill láta þá vera í friði og krefst þess, að ríkisstj. láti þá ganga atvinnulausa í friði. Hann krefst þess, að þjóðin sé í friði, án þess að mönnum séu sköpuð tækifæri til að hamast við framleiðslustörf, að hún sé látin í friði fyrir leitun og sköpun nýrra markaða, að ekki sé verið að styðja innlendan iðnað, ekki sé jafnaður greiðslureikningur við útlönd, ekki sé verið að koma upp nýbýlum, eða tryggingum, hvorki séu tryggðir sjúklingar eða gamalmenni, örkumla menn eða atvinnulausir. Öll þessu er hann og hans flokkur á móti. Þeir krefjast, að atvinnuleysingjarnir fái að ganga atvinnulausir í friði, sjúklingarnir deyja drottni sínum án allrar hjálpar í friði, — það sé ekki verið að basla við að tryggja þeim læknishjálp eða hjúkrun. Þeir krefjast þess, að gömlu skipin séu látin í friði, að Kveldúlfur sé látinn í friði um fisksöluna, bændurnir sé látir í friði fyrir nýbýlabyggingum, þeir þurfi ekki styrk til að framleiða kartöflur eða frysta kjöt eða rækta jörð sína. Nei, þessi hv. þm. vill lofa þjóðinni að vera í friði fyrir slíkum framkæmdum; það sé ekki verið að athuga um innlenda áburðarvinnslu, bara lofa bændunum að kaupa útlendan áburð í friði; það sé ekki verið að fikta við rannsóknir um sementsgerð, heldur fái allir að kaupa erlent byggingarefni í friði, eins og verið hefir. Ekkert nýtt, engar framkvæmdir, heldur lofa þjóðinni að vera í friði fyrir slíkum ófögnuði. Það er kjörorð þessa flokks og foringja hans, að halda höndum í skauti sér og láta reka á reiðanum. Þeir vilja fá að vera í samskonar friði eins og stór fjáröflunarmaður, sem sér gjaldþrotið framundan, en gefst upp, leggur árar í bát og stefnir beint til gjaldþrotsins. Þeir vilja fá að vera í friði !

Stjórnarflokkarnir líta öðruvísi á þetta. Þeir játa það, að útlitið sé ískyggilegt og miklir örðugleikar framundan. En þeir telja, að það sé þess vegna skylda að beita kröftum þjóðarinnar og berjast til þrautar á meðan kraftarnir endast, en liggja ekki í friði og spenna sultarólina sem fastast.

Ég get verið mjög ánægður með allar þessar umr. Mér þykir mjög vænt um, að meginatriðin hafa skýrzt svo sem hér hefir orðið. Ég vildi óska þess, að þeir hlustendur, sem fylgzt hafa með þessum umr., athuguðu það í næði og legðu dóm sinn á það, hvor stefnan sé heillavænlegri fyrir þjóðina, sú, að láta þjóðina vera í friði, eins og hv. þm. G.-K. vill vera láta, að ekki sé verið með þetta ótætis umbótabrölt á þessum erfiðu tímum, að ekki sé verið að hjálpa aðþrengdum atvinnuvegum landsmanna, heldur séu þeir látnir í friði, — eða hin stefnan, að berjast til þrautar og taka með karlmennsku á móti örðugleikunum og reyna að vinna sigur á þeim. Ég skýt því til áheyrendanna að dæma um það, hvor þessara stefna sé heillavænlegri fyrir land og lýð. Ég er ekki hræddur við að ganga til nýrra kosninga með þessari stefnuskrá.