05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

131. mál, alþýðutryggingar

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. N.-Þ. virtist undrandi yfir því eða vilja átelja það, að svo líti út, sem Sjálfstfl. ætlaði ekki að verða það sem hann kallaði hreinn í málinn, heldur ætluðu þm. flokksins að skiptast, sumir með, sumir móti og sumir með ýmsum aths. og fyrirvörum með því, aðrir minni fyrirvörum móti því o. s. frv. Ég skil það vel, að þessum hv. þm. þyki þetta undarlegt, en okkur sjálfstæðismönnum finnst það mjög eðlilegt. Það er sem sé alkunnugt, að í Sjálfstfl. er fullkomið skoðanafrelsi. Það þekkist ekki í þeim flokki, að bundnar séu hendur manna í einstökum málum, og gildir alveg sama þar um þetta mál og önnur. Ég skildi ekki hv. þm. svo, að hann væri að öfundast yfir þessu frelsi í Sjálfstfl., heldur taldi hann, að þetta væri ljóður á ráði flokksins, og er það af því einu, að hann kann ákaflega vel við hinn siðinn, að flokksmennirnir verði að hlíta því í einu og öllu, sem meiri hl. flokksins samþ. á flokksfundum. Ég óska honum til hamingju með þessa skoðun og þær siðferðiskröfur, sem hún byggist á, en ég kýs mér heldur að hlíta reglum minna flokksmanna en hans flokks og að því er mér skilst bandalagsflokksins líka í þessum efnum. Þessi sami hv. þm. var að reyna að finna ósamræmi í því, að sagt væri, að bændur gyldu ekki skatta til ríkisins, en þó væri því haldið fram, að gegnum framlög ríkisins til þessara trygginga væri þeim haldið uppi af bændum í landinu. Hv. þm. virðist alveg ganga framhjá öðru frv., sem hér er á ferðinni í þinginu, borið fram í þeim sérstaka tilgangi að afla tekna vegna þessara trygginga, en það er þetta samkomulagsfrv. stjórnarflokkanna um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, þar sem gert er ráð fyrir að afla tekna með tvennu móti: Annarsvegar með því að hækka tekjuskattinn, en hinsvegar með tollum. Hækkun tekjuskattsins er ekki gert ráð fyrir, að nemi meir en 180 þús. kr., og jafnvel þó það færi allt til þess að standa straum af tryggingafrv. þessu, þá mundi það ekki nema meir en helmingi af því, sem til þyrfti frá ríkissjóði, svo verulegum hluta af peningum til þessa fyrirtækis yrði að ná með tollum, og ef hv. þm. athugar það, hvaða vörur það eru, sem tollaðar eru í þessu frv., þá mun hann komast að raun um, að það eru engu síður nauðsynjavörur þeirra, er landbúnað stunda, heldur en annara.

Hv. þm. reyndi að gera sér mikinn mat úr því, að ég lýsti mig andvígan brtt. við 56. gr. frv., sem flokksbræður mínir hafa lýst sig samþykka, og skildist mér hann ætla að reyna að nota þessa afstöðu mína til dómsáfellis fyrir Sjálfstfl, í sveitunum. Ef það er röng skoðun, sem ég hefi á þessu atriði, þá verð ég að bera ásakanir hans einn, meðan enginn flokksbróðir minn lýsir sig mér samþykkan, hvorki nefndarmennirnir eða aðrir. Annars er ég reiðubúinn til þess að ræða við hv. þm. N.-Þ., hvort réttmætara er, að 56. gr. standi óbreytt, eða að henni verði breytt samkv. skoðun hans, því tilgangur ellitrygginganna er alveg bersýnilega sá, að koma í stað sveitarframfærslu þeirra gamalmenna, sem ekki eru sjálfbjarga, þannig að þau fái sinn lífeyri úr lífeyrissjóði. hér er því í raun og veru ekki önnur breyting en sú, að lífeyrissjóður kemur í staðinn fyrir sveitar- og bæjarfélögin til að sjá fyrir gamalmennunum. Nú er því þannig háttað með framfærsluna, að talið er, að hvert sveitar- og bæjarfélag fyrir sig eigi að framfæra sína menn, en ekki að fá hjálp til þess frá öðrum sveitarfélögum, og það er sá skilningur í frv., að framfærslan á hverjum stað skuli koma til góða þeim gamalmennum, sem þar eiga framfærslurétt. Annars. ef frá þessu er vikið, þá er framfærsluskyldan flutt frá einu sveitar- eða bæjarfélagi á annað. Þetta er það, sem hv. þm. N.-Þ. vill, og ég tel ekkert réttlæti í því, enda er með slíku fyrirkomulagi trygginga-prinsipið gersamlega brotið, það sem frv. byggist á. Nú er fyrirkomulagið þannig, að einstaklingarnir greiða misjafnlega há iðgjöld til lífeyrissjóðs, og þá verða þeir einnig að hafa mismunandi rétt til stuðnings frá sjóðnum. Alveg eins er með þau framlög, sem greidd eru af skattborgurunum á hverjum stað, að þau eru greidd til að styrkja þau gamalmenni, sem þar eiga framfærslurétt, og má segja, að með því séu framfærsluhéruðin einnig að tryggja sig gagnvart framfærslu gamalmennanna. Þess vegna er ómögulegt að hnekkja því, að frv. óbreytt á meiri rétt á sér heldur en það fyrirkomulag, sem hv. þm. N.-Þ. vill vera láta.

Ég skal svo ekki tefja umr. með meiri málalengingum, vildi aðeins gera ýtarlegri grein fyrir skoðun minni á þessu atriði en ég gerði í dag.