05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

131. mál, alþýðutryggingar

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi fyrir mitt leyti ávallt verið því fylgjandi að innieiða tryggingar á vissum sviðum fyrir alþýðu, en mér hefir hinsvegar oft og tíðum verið nóg boðið að sjá, hve þeir, sem lengst hafa talið fært að fara, hafa viljað stíga stór spor í þá átt. Glöggasti votturinn um það var frv. sósíalistanna á þinginu 1933. Það frv. fékk að vísu enga afgreiðslu á því þingi. Var víst litið svo á það frv. af framsóknarmönnum eins og öðrum en sósíalistum, að það væri langt frá því takandi í mál að lögleiða það í því formi, sem það þá lá fyrir þinginu. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er nú búið að vera til athugunar í þessari hv. d. í eitthvað tvær vikur, og hefir það í sér innifólgnar allar tegundir alþýðutrygginga. Þetta mál er svo stórt, að það er stinningsbók með öllum fylgiskjölum.

Nú hefir svo skipazt, að sá flokkur, sem minnst vildi sinna þessu máli 1933, hefir nú, að því er virðist, tekið höndum saman við sósíalistana um að hespa málið af lítið athugað. Sá allshn.maður, sem fyrir Framsfl. hefir haft framsögu í málinu, hefir að vísu sett það skilyrði fyrir sínu fylgi og líklega flokksins við frv., að vissar brtt. verði samþ., en þegar þær brtt. eru athugaðar, virðist svo sem þetta skilyrði sé aðeins gert að yfirvarpi. Það, sem gerzt hefir í málinu, er ekki að Framsfl. hafi skipt um skoðun, heldur hefir hann nú verið kúgaður til þess að fylgja í blindni þessum till., sem að vísu hafa verið allvel athugaðar milli þinga, en svo hefir það verið ákveðið og því slegið föstu, að frv. skyldi ganga fram án frekari athugunar. Margt bendir til þessa, og t. d. það, að framsóknarmenn hér í hv. d. láta sig umr. um það engu skipta. Þeir ganga af fundi og eru úti um hvippinn og hvappinn meðan þetta stórmál er rétt. Mér virðist, að þegar slík mál sem þetta liggja fyrir Alþingi, ætti það eftir ýtarlegar umr. að leggjast fyrir sýslu- og bæjarfélög til umsagnar og athugunar milli þinga, sérstaklega þegar svo skammt er milli þinga og nú er, og með tilliti til þeirra erfiðu tíma, sem við lifum á, og þeirra þungu byrða, sem frv. leggur á herðar einstaklinga, sveitar- og bæjarfélaga og ríkisins, þá ætti það að vera skylda að gera ekki svo stórvirkar breyt. og lagasetningar án þess að þessum aðilum sé gefinn kostur á að athuga till., án þess þeir séu heyrðir í málinu. Sósíalistar kippa sér ekki upp við neitt í þessu efni, og hjá þeim virðist ekki annað ráða en metnaður og kappgirni. Þeir vilja keyra málið í gegn, hvort sem öðrum líkar betur eða verr. Það er vitað, að framsóknarmenn eru frv. alls ekki fylgjandi í hjarta sínu, en þeir eru kúgaðir til fylgis við það vegna samningamakks á bak við tjöldin, aðeins af hræðslu við það, að sósíalistarnir muni annars hlaupa frá þeim og úr stjórninni. Af þessari nauðung orsakast sú kyrrð og lognmolla, sem er yfir framsóknarmönnum í þessu máli. Út af fyrir sig verður á þessu engin bót ráðin af okkur andstæðingum stjórnarflokkanna. Framsóknarmenn eiga það vitanlega við sig sjálfa, hverja aðstöðu þeir hafa skapað sér í málinu, en hjá hinu verður ekki komizt, að taka eftir því, með hve miklu hirðuleysi og skeytingarleysi þessi stærri stjórnarflokkur tekur sér fyrir hendur að stórauka gjaldabyrðir bæjar- og sveitarfélaga.

Það hefir verið hér við umr. minnzt á allmörg atriði frv. og ýmsar brtt., sem fyrir liggja, en ég verð að segja, að fæst af því skiptir miklu máli. Ég vil segja það um till. um sjúkratryggingarnar fyrir sig, að mér finnst það ekki svo mikið þyngra, að menn njóti ekki þeirra trygginga, þó þeir hafi goldið til þeirra, ef þeir hafa visst hámark tekna. Ég tel þetta ekki höfuðgalla, en vissulega er það satt, að það er töluvert óviðkunnanlegt, að menn greiði til þeirra kannske langa æfi án þess að njóta trygginganna, en það, sem í mínum augum er höfuðgalli á þessum till., er, hversu mjög þær auka útgjöld einstaklinga í bæjar- og sveitarfélögum yfir höfuð. Ég hefði haldið, eftir allt það tal hér á þingi og vandræðastunur mínar og annara um hag bæjar- og sveitarfélaganna, um það, hvernig þau berjast í bökkum, að þá hefðu stjórnarflokkarnir hugsað sig dálítið um áður en þeir á sama þinginu fóru að íþyngja þeim með nýjum álögum; en því er nú ekki að heilsa. Þrátt fyrir hin fyrirsjáanlegu vandræði á nú að afgreiða l., sem stórum auka vandræðin á hinum mestu vandræðatímum. Ég veit, að í Vestmannaeyjum mun sjúkratryggingin einvörðungu kosta bæinn nær 30 þús. kr. Og þar að auki á það að greiða iðgjald í þennan sjóð fyrir alla þá, sem eru komnir yfir þennan aldur og njóta opinberrar framfærslu í bænum. hér er aðeins eitt örlítið atriði, sem sýnir það, að útkoman verður í bili mikil þyngsli fyrir bæjarfélagið. Að vísu er hægt að segja sem svo, að þessar ráðstafanir í heild sinni, sem hér liggja fyrir, eigi að létta í framtíðinni á tilkostnaði bæjanna til læknishjálpar, sjúkrastyrks og þvílíks. Getur vel verið, að sú verði raunin á einhverntíma. En ég er í efa um, að það beri tilætlaðan ávöxt. Ég er því miður hræddur um, að hann verði ekki eins glæsilegur og hér er gefið í skyn. Og í öðru lagi er það — og það ræður meiru hjá mér í þessu efni —, að bæjarfélögin verða hér að sæta mjög þungum búsifjum, sem þau uppskera engan ávöxt af fyrr en einhverntíma í nokkuð fjarlægri framtíð. Væri veltiár og góðæri nú, þá væri ekkert við því að segja, þó að valinn væri tími til þess að koma þessu áleiðis. En einmitt af því að hjá bæjarfélögunum er hallæri hvað fjárhag snertir, þá er tíminn ákaflega illa valinn.

Það, sem hér er sagt um bæjarfélögin í sambandi við sjúkratryggingatillagið, á nákvæmlega eins við um einstaklinga, sem borga eiga þessi iðgjöld, sem geta orðið 36 kr. á hvert nef. [Frh.].