06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

131. mál, alþýðutryggingar

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hr. forseti. Þegar stjórn hinna vinnandi stétta tók við völdunum í fyrra sumar, höfðu þeir, sem hana studdu, þá trú, að með því að fela þessum mönnum forráð þjóðarinnar mundi fyrst og fremst verða hugsað um hag almennings og hinna vinnandi stétta. Þeir höfðu trú á því, að það mundi renna upp góðæri og gullöld í landinu fyrir þessar stéttir, og til þeirra stétta teljast nálega 9/10 hlutar þjóðarinnar. Það var vitanlega tilgangur þessa fólks að fela fulltrúum hinna vinnandi stétta völdin, af því að þeir voru búnir að hafa svo stór orð um það og telja fjöldanum trú um, að það væri ekki mikill vandi að snúa málefnum þjóðarinnar til góðs, og einungis manndómsverk fyrir stjórnarvöldin að láta fólkinu líða vel. Það mætti því ætla, að nú væri búið að tryggja almenningi flest lífsins gæði hér á landi; að atvinnuleysinu sé létt af, að sjúkir menn séu græddir og fátæklingum veitt fullnægja lífsþarfanna, og að yfirleitt þurfi ekki undan erfiðleikum að kvarta í þjóðfélaginu, þegar þessir forkólfar hinna vinnandi stétta fara með völdin, enda var því óspart lofað fyrir síðustu kosningar.

Stj. hefir nú farið með völdin í landinu í rúmt ár, og eftir því sem hæstv. atvmrh. sagðist nýlega frá í útvarpinu, þá hefir mikið verið starfað á árinu fyrir fólkið. Hann lýsti því með fögrum orðum í útvarpinu, að allir áætlunarliðirnir í starfssamningi framsóknarmanna og sósíalista væru nú komnir til framkvæmda, nema ef til vill einn, og það var hin svokallaða tryggingalöggjöf, sem ekki væri enn komin til framkvæmda, og af þeim sökum væri enn ekki vart árangurs af henni. Mér þykir það ekki með öllu óeðlilegt, þó að nokkuð hafi dregizt um efndir á hinum fögru loforðum, sérstaklega þar sem það er nú augljóst, að þeirrar tryggingalöggjafar, sem fólkinu var lofað við valdatöku þessara manna, með fyrirheiti um bætta afkomu þess og góðum hag, hefir ekki enn orðið vart, að sögn hæstv. atvmrh. En hér kemur nú sú marglofaða löggjöf, sem á að tryggja öllum lífsgæðin. Þá fyrst eru loforðin fullkomnuð, og nú skulum við bíða átekta.

Þetta síðastl. ár hefir ekki tekizt betur en svo, að flestir viðurkenna, að allt af sígi meir og meir á ógæfuhlið fyrir þjóðinni, og það með töluvert meiri hraða síðan núv. stj. tók við völdum. - Fyrirheit forkólfa núv. stjórnarflokka voru fólgin í því, að sköttunum skyldi varið viturlegar en áður, svo viturlega, að væntanlega þyrfti ekki að auka þá sem neinu næmi, enda voru þeir ærnir fyrir; því var lofað, að sköttunum skyldi varið þannig, að hagur almennings færi batnandi. Menn voru því í fyrstu nokkuð öruggir vegna þessara loforða. En vonir manna um það, að stj. mundi láta sér nægja þá skatta, sem fyrir voru, hafa algerlega brugðizt. Á þeim tveimur þingum, sem núv. stj. hefir verið í meirihlutaaðstöðu, hefir það verið aðalstarf stjórnarflokkanna að hækka gjöld og skatta á almenningi. Það hefir nú verið gengið svo nærri gjaldþoli manna, að annað eins hefir ekki þekkzt hér áður. Og allt er þetta náttúrlega gert undir því yfirskyni, að landsfólkinu líði betur á eftir.

Mér finnst, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir og kallað er um alþýðutryggingar, sé fólgin alvarlegasta blekkingin, sem enn hefir verið reynt að hampa til þess að trufla landslýðinn með. Mín skoðun er sú, að til þess að landsfólkið verði ánægt með stjórn þessara manna, þá dugi nú ekki lengur þeir skattar, sem fyrir voru, og ekki þeir viðbótarskattar, sem nú hafa verið lagðir á landsmenn. Með þessu frv. er enn bætt við nefsköttum á almenning, sem sósíalistar hafa áður sagt, að væru gersamlega ófærir. Enda hefir það líka heyrzt á þeim sumum, að þetta frv. væri ekki alveg í því formi, sem þeir hefðu óskað eftir. En hér er verið að smeygja inn í löggjöfina mjög tvíeggjuðum ráðstöfunum, í því formi, sem flm. frv. ætla sjálfir að breyta aftur við fyrsta tækifæri, þegar talið verður, að þetta fyrirkomulag sé ekki lengur viðunandi. Þegar einu sinni er búið að lögfesta þetta, þá álíta þeir, að síðar verði auðveldara að breyta gjaldskyldunni til trygginganna þannig, að kostnaðurinn (iðgjöldin) verði færður yfir á atvinnufyrirtækin og það opinbera. En hér er, í þessu frv., gert ráð fyrir, að framlögin til tryggingasjóðanna verði tekin ekki aðeins með beinum sköttum, heldur nefsköttum, svo háum, að þeir nema fleiri hundr. kr. á hvert meðalheimili. Nú þykir það tiltækilegt að ætla fólki að borga þessi fríðindi, sem í boði eru samkv. þessum lögum, með háum nefsköttum.

Og ekki er nú alvaran í þessum málum meiri en svo, að í frv. eru gerðar ráðstafanir fyrir atvinnuleysistryggingum svokölluðum í 12 stuttum lagagreinum. En með þeim kafla frv. er bara verið að stofna félagssjóði fyrir sósíalista í kaupstöðum. Og sú skylda er lögð á bæjarfélögin að leggja fram fé til þessara sjóða árlega, helmingi meira en félagarnir gera sjálfir. Þetta er eins og allt annað, sem ákveðið hefir verið í samningum milli framsóknarmanna og sósíalista fyrr og síðar, þar sem sósíalistum eru fengin öll vopn í hendur til þess að ráða því gersamlega, hvort bændur eru sveltir, eða hvort þeir fá eitthvað lítilsháttar að borða fyrir náð Alþfl. Þetta er ennfremur svo stórfellt alvörumál fyrir kaupstaðina, að mér ógnar það, að Framsfl. skyldi henda sú skyssa, að því er virðist viljandi og vitandi vits, að leggja bæjarfélögin þannig undir hæla hinna sósíalistísku félaga. Í hinu nýja skattafrv., sem kallað er bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs, er áætluð rúmlega 1 millj. kr. vegna tryggingarmálanna og nokkurra fleiri framkvæmda. En vitanlega verða þær álögur til frambúðar, af því að þarfirnar, sem þessum tekjum er ætlað að mæta, eru varanlegar og fara jafnvel vaxandi með hverju ári, sem líður. Það er því blátt áfram ekkert annað en hrekkur eða fyrirsláttur að nefna þetta bráðabirgðatekjuöflun og telja fólki trú um, að það muni mega draga úr þessu síðar, eða fella það niður. Ég tel þetta það varhugaverðasta, sem þessir ógæfusömu flokkar hafa komið til leiðar fyrir þjóðfélagið með samningamakki sínu. Og það er trú mín, að þessir samningar geti ekki staðizt lengi, og að þeir, sem þá gerðu, verði allra manna fegnastir, þegar þeim verður sagt upp, sem líklega verður þegar á næsta ári. - En það erum við, skattborgarar þessa lands, sem eigum að leggja fram það fé, sem þessir samningar kosta þjóðfélagið, við, sem búum í kaupstöðunum, erum lagðir í fjárhagsgreipar hinna harðhentu sósíalista, sem nú hafa fengið að telja sig í meirihl.aðstöðu um stundarsakir í landsstjórninni. Með þessum ákvörðunum hinna 12 stuttu lagagr. þykjast sósíalistar ætla að lækna atvinnuleysið í landinu; mér liggur við að segja, að það sé glæpsamlegt athæfi að kalla þetta tryggingar. Þetta fyrirkomulag verður sennilega tekið upp alstaðar þar, sem sósíalistar hafa 50 manna flokk og þar yfir í kaupstöðum og kauptúnum; þar verða þessir flokkssjóðir þeirra myndaðir. Og svo flytur fólkið utan úr sveitunum í þetta sæluríki sósíalista í bæjunum, þar sem það fær opinbera framfærslu án þess að vinna nokkuð í staðinn. Þetta er svo gersamlega ábyrgðarlaust og illa hugsað, eins og flest annað, sem gert er á þessu þingi. Mér er nær að halda, að þeim mönnum, sem að þessari löggjöf standa, sé það meira og minna ljóst, að hún getur alls ekki staðizt.

Þegar litið er til nágrannalandanna, þá virðist svo sem tryggingamálin hafi legið þar í rústum. Í Danmörku er ekki fengin full reynsla í þeim efnum, og eru margir mjög áhyggjufullir yfir því þar, hvort þjóðin muni geta staðið undir þeirri löggjöf. Væri það nú ekki vissara fyrir okkur Íslendinga að bíða átekta og vita, hvernig þessari löggjöf reiðir af í Danmörku, hvort hún fellur þar í rústir eins og í Þýzkalandi, eða stenzt reynsluna? Það er ekki nóg, að Alþingi afgr. pappírsgögn um þetta mál, eða að hugsa sem svo, ef allt fer í rústir, að þá geti aðrir tekið við ábyrgðinni; það er ekki nóg, enda má ekki afgr. lög á þeim grundvelli. En það gerir Alþ. vissulega í þessu tilfelli. - Ég veit, að mér verður svarað því um þessar atvinnuleysistryggingar, að þar megi fara að eins og í öðrum málum. Hér liggur fyrir þinginu frv. um stofnun áburðarverksmiðju; í því máli á að fara þannig að, að þó það fyrirtæki sé mjög vafasamt, eða jafnvel gersamlega vonlaust, þá á samt að reisa það á viðskiptavonum, sem enginn einstaklingur myndi telja fært að byggja á. Sérhver hygginn maður mundi telja það óforsvaranlegan rekstrargrundvöll. En ríkið gæti ef til vill lagt út í þá áhættu og tekið á sig töpin, eins og það verður áreiðanlega að gera í tryggingalöggjöfinni. Ég játa, að það má náttúrlega, þegar þetta fyrirtæki hefir ekki neina viðskiptamenn lengur, en ríkið heldur áfram að borga jarðræktarstyrkinn, láta bændur fá styrkinn í áburði frá áburðarverzlun ríkisins, en ég veit ekki hvað lengi.

En það á kannske að hugsa sér eins hér, þar sem um atvinnuleysistryggingarnar er að ræða, sem engin trygging er að, nema fyrir flokkssjóði sósíalista á hverjum stað, sem ríkið á að leggja fé að helmingi á móti hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarsjóði. Það má kannske segja, að allir liðir í fjárl. ríkisins séu að verða hærri og hærri, sem má verja til þessara atvinnubótafélaga. Eins er það hjá bæjarfélögunum; það má náttúrlega taka það fé og láta það renna í flokkssjóði sósíalista, til þess að þeir geti hagnýtt sér það handa þeim, sem þeir vilja láta lifa. En ég veit ekki betur en að menn vilji heldur fá fé sitt fyrir að vinna heldur en að taka það sem atvinnuleysisstyrk, og það jafnvel þó að sá styrkur gerði ekki eins og gert er ráð fyrir í frv., allt að 3/4 af kaupi manns, sem hefir fulla vinnu. En þessar atvinnuleysistryggingar eru ekkert annað en blekking.

Það er mín sannfæring, að þessi löggjöf liggi öll í rústum innan 5 ára. Ég veit, hvað þá tekur við. Það verða miklir erfiðleikar. Kostnaðurinn af þessu bákni verður gífurlegur. Stórkostleg skrifstofa með miklu mannahaldi verður stofnuð til þess að annast þetta allt, og ég tala nú ekki um, ef byggt verður stórhýsi yfir allt þetta starfsmannalið, sem þarf til þess að starfrækja þetta bákn. En það fer í rústir, og byrjar með því að það verður gerð krafa til Alþingis um, að það leggi fram úr ríkissjóði miklu meira fé heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það verður svo undirstaðan að kröfu sósíalista til framsóknarmanna um það, að ríkissjóður taki þetta spursmál miklu fastari tökum og leggi fram miklu meira fé. Þó að framsóknarmenn telji þá úr og segi, að meira fé þurfi til allskonar þarfa í sveitunum heldur en þá er hægt að veita, þá munu sósíalistar segja, að í sveitunum geti menn lifað, en í kaupstöðunum geti menn ekki lifað. Það getur vel komið að því, með þessari löggjöf, sem hér um ræðir, og þeirri löggjöf, sem meirihl.flokkarnir hafa staðið að á undanförnum árum, að það verði ekki hægt að lifa í kaupstöðunum. En það segir ekki, að betra sé að lifa í sveitunum. Þess vegna geta framsóknarmenn haft rétt fyrir sér, þegar þessi krafa kemur fram, að ekki sé hægt að gera meira fyrir kaupstaðina. En ég vildi sjá framan í þá framsóknarmenn, sem þá beygja sig ekki fyrir því, að þetta megi þó ekki leggjast niður, þegar þeir eru spurðir að því, hvað við taki og hvað þeir vilji gera fyrir fólkið. mér finnst, að framsóknarmenn ættu að hugsa fram í tímann, a. m. k. svona langt, og hefðu átt að gera það fyrr, áður en þeir gerðu kaup við sósíalista um að fá að vera í stjórn landsins eitt eða tvö ár fyrir þetta voðalega frv., sem hér liggur fyrir. Það voðalegasta við þetta frv. er fyrst og fremst það, að með því er verið að telja fólki trú um, að hægt sé að tryggja það gegn öllum erfiðleikum lífsins. Tryggingin átti, þegar þessir meirihl.flokkar tóku við völdum, að liggja í þeirra stjórnarframkvæmdum og góðvild í meðferð þeirra mála, sem fyrir lágu og fyrir liggja. Nú virðist sú trygging vera lítil og ómerkileg, og býst ég ekki við, að landsfólkið vilji trúa því, að þeir hafi þekkingu og vit til þess að leggja nokkra tryggingu fyrir almenning um, að komast megi fram úr erfiðleikunum. En hér á hún að koma, tryggingin, sem taka á af öll tvímæli.

Nei, þessi kaup, sem gerð hafa verið milli stjórnarflokkanna, eru ekki neinn gróði fyrir landsfólkið. Þau eru stórhættuleg fyrir land og þjóð, og ég vona, að af öllum þessum ráðstöfunum stjórnarflokkanna geti áður en langt líður komið að því, að þeir sleppi ábyrgðinni á meðferð landsmála og finni sér einhverja litla og ómerkilega ástæðu til þess að létta af sér því oki og fargi, sem þau búa hverjum, sem fara með almenningsmál, sem undir stjórn þessara manna virðast verða með hverjum mánuði sem líður, glæfralegri og hættulegri, bæði fyrir þá sjálfa meðan þeir eru við völd og síðar fyrir þá, sem kynnu að taka við af þeim, hverjir sem það verða og hvaða stefnu sem þeir hafa í stjórnmálum.

Þetta allt er því undarlegra, sem það er á allra vitorði, að þótt ríkissjóður kæmist af í augnablikinu, séu þó erfiðleikar hjá bæjar- og sveitarfélögum, sem standa þó nær almenningi og eru fyrsta vörn í ýtrustu erfiðleikum. En samt sem áður er haldið áfram að gera kröfur um hitt og þetta, eins og með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er eins og komið sé á menn eitthvert æði og þeir geti ekki hugsað sér, hvað fram undan er. Það er eins og ábyrgðarleysið sé komið í algleyming um að láta skeika að sköpuðu með alla hluti, þegar verið er að veifa framan í landsfólkinu loforðum um fríðindi, sem í öðru orðinu verður að lýsa yfir, að ekki sé hægt að standa við. Þetta er mín afstaða til þessa máls.

Það hefir að vísu verið bent á að þetta væri ekki fyrst upp tekið hér á landi, og að víðsvegar í öðrum löndum, sem ríkari eru, sé löggjöf, sem fari í svipaða átt að ýmsu leyti, en það hefir bara ekkert að segja, vegna þess, að ástand og ástæður hér eru að öllu leyti ósambærilegar við það, sem þar er byggt á til grundvallar fyrir slíkri löggjöf sem þessari.