06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

131. mál, alþýðutryggingar

Jón Pálmason:

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. N.-Þ., sem urðu þess valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs aftur til frekari athugunar á máli því, sem hér liggur fyrir. Hann taldi það mikinn misskilning, sem komið hefði fram af hálfu þeirra manna, sem hefðu haldið því fram í ræðum sínum í gær, að gjald það, sem myndi leiða af lögleiðingu þessa máls fyrir almenning á komandi árum, væri lítt eða ekki útreiknanlegt. Þessi hv. þm. virtist vera þeirrar skoðunar, að það væri nokkurnveginn fastsett, hvað mikil útgjöldin væru að því er ríkissjóð og bæjarfélögin snerti. Ég held, að það, sem á milli ber, stafi af því að hv. þm. hafi ekki hugsað þá hugsun til enda, út á hvaða braut er farið hér. Um leið og hið opinbera vald gengur inn á þá braut, að tryggja allt landsfólkið fyrir vandræðum þeim, sem sjúkdómar, slys og atvinnuleysi hafa í för með sér, þá er það auðsætt mál, að þó að kostnaðurinn sé útreiknaður með áætlun, þá er það víst, að þegar sú áætlun breytist, þá verður þetta hækkað smátt og smátt, eins og hefir verið um aðrar kröfur, sem gerðar hafa verið til hins opinbera. Eftir því sem þörfin er meiri, verða kröfurnar meiri, og það leiðir af því, að fyrirfram er ekki mögulegt að segja til um, hvað há gjöld er um að ræða, þegar út á þá braut er komið. Í þessu sambandi kemur það til greina, sem ég vék ofurlítið að í gær, að þegar fólkið hefir það á meðvitundinni, að það eigi að tryggja framtíð þess, svo að það verði ekki fyrir neinum alvarlegum fjármálavandræðum af því, sem um er að ræða, svo sem elli, sjúkdómum, atvinnuleysi o. s. frv., þá miðar það til þess að dreifa sjálfsbjargarhvöt manna og þeir reyna síður að sjá sjálfum sér farborða til hins ýtrasta. Það er þessi hugsun, sem gjarnan verður þess valdandi og orsakar það, að þegar komið er út á þá braut, að hið opinbera fer að sjá fyrir fólkinu, að gjöldin fara vaxandi. Í þessu sambandi verður að gæta þess, sem síðasti ræðumaður vék ofurlítið að, að forsvarsmenn þessa máls hafa lýst því yfir, að þetta væri byrjun, sem ætti að færa út frekar, þegar þeir hefðu betri aðstöðu heldur en þá, sem nú er fyrir hendi. Af þessu hygg ég, að hv. þdm. sjái, að það er hvorki misskilningur né fjarstæða að halda því fram, að hér sé farið út á þá braut, sem ekki er fyrirfram hægt að segja um, hvað hafi mikil gjöld í för með sér fyrir hið opinbera. Ég vil minna á það, að eftir því sem örðugleikarnir eru meiri að standa undir þeim gjöldum, sem á ríkissjóði hvíla, þá verður hver aukin gjaldabyrði hlutfallslega þyngri en ella.

Hv. þm. N.-Þ. hafði eftir mér ummæli, sem hann lagði mikið upp úr, en hann sneri út úr þeim, og sneri þeim á aðra braut en rétt var. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að flest útgjöldin undanfarin ár hefðu farið til menningar og framfara í landinu. En hann nefndi það ekki, að ég átti ekki við heildargjöld ríkissjóðs. Það var ekki átt við þau frá minni hálfu. Ég sýndi fram á, að á því 8 ára tímabili, sem Framsfl. hefði farið með fjármálin í landinu, þá hefðu útgjöldin numið um 140 millj. kr. En það var ekki þetta, sem ég átti við, þegar ég talaði um, að flest útgjöldin hefðu miðað til menningar og framfara í landinu. En það, sem ég drap á í gær, og get endurtekið nú, var það, að það hefði undanfarið verið gengið lengra og lengra inn á þá braut að festa á ríkissjóðinn fleiri og fleiri föst gjöld, svo sem útgjöld til nýrra skóla í tugatali, til vegabóta, samgöngumála og til útvegsmála og ýmsra stofnana, sem eru kunnar almenningi af þeirri reynslu, sem af þeim hefir fengizt, og einnig þekktar á landsreikningunum. Um þessi útgjöld hafði ég þau ummæli, að það mætti um þau segja með miklum rétti, að þau miðuðu til aukinnar menningar í landinu. En það verður að taka þetta föstum tökum og geru sér það ljóst, hvað langt á að ganga út á þá braut að styrkja allt, sem hugurinn girnist. Sú skoðun er almenn, a. m. k. meðal sjálfstæðismanna, að það hafi verið gengið svo langt að hlaða gjöldum á opinbera atvinnuvegi, að þeim sé ekki fært að standa undir þeim útgjöldum, sem af því leiðir. Þar með er ekki sagt, að eitt og annað gott megi ekki um ýms þessi mál segja.

Ég skal ekki minnast miklu meira á hv. þm. N.-Þ. Hann var með hrósyrði í minni garð og sagði, að ég væri sannorður maður. En það fylgdi sá galli þessu, sem jafnan fylgir, þegar maður úr öðrum flokki, og ekki sízt úr flokki hv. þm., er að segja stjórnmálaandstæðingi sínum eitthvað til hróss. En sá galli fylgdi orðum hv. þm., að hann vildi láta skína í það, að þessu væri gagnstætt farið með mína flokksbræður. Það er hyggilegra fyrir hann að útfæra þessi ummæli sín á réttari veg, og segja, að sá kostur fylgdi því að eiga í deilum við sjálfstæðismenn, að þeir væru yfirleitt sannorðir og drengilegir í baráttunni. Hv. þm. sagði einnig, að það væri áberandi, að því er snerti þetta mál og jafnvel önnur, að forsprakkar Sjálfstfl. töluðu á annan veg, eftir því hvort áheyrendur þeirra væru úr kaupstað eða sveitum. Ég verð nú að segja það, að ég hefi ekki orðið þessa var af þeim kynnum, sem ég hefi haft af starfsemi sjálfstæðismanna á Alþ. Það er ekki að leika tveim skjöldum, þó þeir, sem eru fyrir kaupstaðina, berjist fyrir málefnum þeirra, og þeir, sem eru úr sveitum, berjist fyrir málefnum sveitafólksins. En höfuðbaráttan milli okkar sjálfstæðismanna og annara flokka hefir verið undanfarið og mun verða á komandi tímum það, hvort heppilegt er að beita valdi því, sem Alþ. og ríkisstj. hefir yfir að ráða í fjármálum og lifi þjóðarinnar, eins og gert hefir verið undanfarið. við sjálfstæðismenn höldum því fram, að þessu valdi hafi ekki verið þannig beitt undanfarið, að hugsanlegt sé, að atvinnulífið geti risið undir þeim gjöldum, sem á það hefir verið lagt undanfarið. Ég held, að greindum mönnum í stjórnarliðinu hljóti að vera það ljóst, að sú stefna, sem hefir verið uppi undanfarið og m. a. kemur fram í þessu frv., er í síðustu fjörbrotunum.