06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

131. mál, alþýðutryggingar

Thor Thors:

Ég vil mótmæla því hjá hæstv. forseta, að búið sé að greiða atkv. um kaflann eins og hann nú er orðinn, hvort skuli fella hann niður allan í heild. Nú er kaflinn orðinn svo mikið breyttur, að full ástæða er til að ganga til atkvæða um hann á ný. Hæstv. forseti viðurkenndi, að það vantaði höfuðið á þennan kafla, og ég vildi því vita, hve margir af hv. þm. vilja samþ. jafnhöfuðlausa skepnu og kaflinn nú er orðinn.

Ég held, að það sé ekki rétt hjá hæstv. forseta, að allir þm., sem greiddu atkv. með hverri einstakri grein kaflans, hafi þar með samþ. kaflann í heild. Þeir hafa aðeins látið í ljós, hvernig þeir óska, að hver einstök grein sé, ef kaflinn á að standa, en ekkert um það, hvort kaflinn á að standa í lögunum eða ekki.

Allar ástæður mæla nú með því, að gengið verði til atkv. um kaflann, hvort hann skuli standa í lögunum eða ekki, og vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri kaflann upp sérstaklega.