11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Ég ætla ekki að svara ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V.-Sk. muni sjálfur svara honum, enda var ræðunni aðallega beint til hans.

Þetta er nú 3. umr. málsins, og því í sjálfu sér ástæða til að ræða það á breiðum grundvelli, en ég geri hinsvegar ráð fyrir, að þær umr. hafi litla þýðingu, þar sem ákveðið er, að frv. skuli, eins og mörg önnur frv., ganga fram, hverskonar gagnrýni sem það kann að sæta. Það verður þá að ræða við stjórnarflokkana síðar um þetta mál á þeim vettvangi, þar sem þeir verða að svara fyrir sig, frammi fyrir kjósendum, og krefja þá þar reikningsskapar á því, út á hvaða braut þeir hafa lagt. Ég hefi áður bent á það, hve fjarri fer því, að umbjóðendur framsóknarþingmannanna eigi von á því, að þingmenn þeirra fari að styrkja atvinnuleysið í kaupstöðunum, og ég hefi einnig bent á það, hve víðtæk áhrif og röskun slíkt hlýtur að hafa á atvinnulífið í landinu og hve mikið það muni auka fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna, en það er einmitt það, sem framsóknarmenn hafa stöðugt verið að tala um, að væri svo hættulegt fyrir þjóðina, og fram til þess síðasta hefir það verið eitt þeirra stærsta áhugamál, a. m. k. heima fyrir, að stöðva þann straum, en ekki auka.

Sá kafli þessa frv., sem fjallar um atvinnuleysistryggingarnar, veldur mestum ágreiningi, en einnig um sjúkratryggingarnar er nokkur ágreiningur. við hv. 8. landsk. höfum enn freistað þess að reyna að bæta þann kafla og berum því fram nokkrar brtt. á þskj. 757. vil ég leyfa mér að skilgreina þær með nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er við 24. gr. og er þess efnis, að allir meðlimir njóti þeirra hlunninda, sem samlagið veitir. Það eru mjög há gjöld, sem leggja á á allan almenning með þessum sjúkratryggingum. Það er beinlínis gert ráð fyrir, að hver einstaklingur eigi að greiða á ári ekki minna en 36 kr. Þessi framlög eru fyrir stór heimili mjög tilfinnanleg. Ég hefi bent á það við fyrri umr. þessa máls, að þessi útgjöld geti numið 230 kr. og meiru á einu heimili, og með ellitryggingargjöldunum verður þetta yfir 300 kr. á heimili fyrir utan tekjuskattinn, og þegar hann bætist við, sem hjá einstöku mönnum verður allálitleg fúlga, þá verður upphæðin enn tilfinnanlegri. Okkur þykir það sanngjarnt, að þessir menn fái eitthvað á móti.

2. brtt. okkar takmarkar tillög til sjúkrasamlaga á þann hátt, að ríki og raunar bæjarfélög gjaldi ekki neitt á móti iðgjöldum þeirra manna, sem efnaðri eru og hafa 4500 kr. eða meira í skattskyldar tekjur. Eftir því yrði þá sá munur á hlutskipti hinna efnaðri og þeirra efnaminni, að þeir, sem efnaminni væru, fengju styrk frá bæjar- og sveitarfélögum, en hinir efnaðri fengju engan styrk. Ég hygg, að það mundi verða til þess að auka vinsældir sjúkratrygginganna, ef allir þeir, sem til þeirra gjalda. fengju einhver fríðindi fyrir.

3. brtt. er við kaflann um atvinnuleysistryggingar og er í því fólgin að takmarka framlög ríkis og bæja til þeirra trygginga meir en gert er í frv. Við teljum nauðsynlegt, vegna þess hve hagur ríkisins er bágborinn, að stilla þessum gjöldum í hóf. Í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir í 1. málsgr. 71. gr., að ríkissjóður leggi fram 50% til atvinnuleysissjóða, leggjum við til, að komi 25%, og þar sem gert er ráð fyrir 6 kr. gjaldi í sömu málsgr., leggjum við til, að gjaldið verði takmarkað við 3 kr. Ég get ekki annað skilið en að þeir, sem sérstaklega eiga að bera ábyrgð á fjárreiðum ríkissjóðs, fallist á, að fullkomin þörf sé á að takmarka gjöld hans.

4. brtt. okkar er um stjórn atvinnuleysissjóða. Frv. minnist í raun og veru ekkert á það, hvernig stjórnir þessara sjóða eigi að vera skipaðar. Það er bara auðséð, að verklýðsfélögin eiga þar að hafa öll yfirráð. Í annan stað er það tekið fram í frv. að ekki megi vera nema eitt verkalýðsfélag, sem hljóti styrk frá ríkinu, á hverjum stað. Ég hefi bent á það áður, að hér kennir sama einræðisins hjá stjórnarflokkunum og kenndi í verkamannabústaðamálinu í fyrra. Ég sé, að það er ekkert óeðlilegt við það, þó sósíalistar berjist hart fyrir því að fá þessar álögur lögteknar, þeir vilja eðlilega styðja það, af því þeir eiga að fá að ráða yfir þessu fé. En það er einkennilegt, svo framarlega sem það er ekki fastákveðið, að ríkisvaldið skuli að sjálfsögðu alltaf vera hjá sósíalistum, að engin rödd skuli heyrast um það, að ríkið eigi að hafa hönd í bagga með um meðferð þessara sjóða. Og það verður einnig að heimta það, þar sem bæjarfélögin eiga að greiða allhá gjöld til þessara sjóða, að þá hafi þau einnig íhlutunarrétt um, hvernig sjóðunum er varið. Það hlýtur beinlínis að vera sjálfsögð krafa, að fé það, sem ríki og bæjarfélög leggja fram, sé ekki fengið til varðveizlu og því varið til framdráttar einstökum pólitískum flokkum. Brtt. okkar hv. 8. landsk. um þetta efni er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn staðfests atvinnuleysissjóðs skipa 3 menn. Skal einn tilnefndur af því verkalýðsfélagi, er sjóðinn hefir stofnað, einn af hlutaðeigandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd og einn af atvinnumálaráðherra.“ hér er öllum þeim þremur aðilum, sem leggja fram fé til þessara sjóða, gefinn ráðstöfunarréttur yfir fénu, og það virðist vera sú eina sanngjarna regla, sem hægt er að taka upp í þessu máli. Þessi till. hefir frá okkar hendi engan pólitískan blæ, eins og menn sjá, því a. m. k. meðan ríkisstj. er eins skipuð og nú, þá er víst, að meiri hl. stjórna sjóðanna verður í höndum núv. stjórnarflokka. Ég geri ráð fyrir því, að sá maður, sem yrði valinn innan hvers verkalýðsfélags til þess að taka sæti í þessari stjórn, sé sósíalisti, og ég geri einnig fastlega ráð fyrir því, að hæstv. atvmrh., sem er sósíalisti, muni velja menn úr sínum flokki í þessa stjórn. Þá hafa þeir undir öllum kringumstæðum meiri hl. í stj. Og þar sem bæjarstjórnir og hreppsnefndir eru úr flokkum stjórnarliðsins að meiri hl., þá geri ég einnig ráð fyrir því, að sá maður, sem yrði fyrir valinu, yrði úr þessum flokkum. Ég fæ ekki annað séð en að þessi brtt. okkar sé svo eðlileg og sanngjörn, að meiri hl. d. hljóti að fallast á hana. Það verður vissulega prófsteinn á hv. þm., hvernig þeir greiða atkv. um þessa till., því þá mun það sýna sig, hvort þeir hafa hugsað sér þessar atvinnuleysistryggingar sérstaklega gerðar vegna verkamanna sjálfra og af þjóðarnauðsyn eða hvort þeir hafa hugsað sér það sem pólitískt framdráttarmál sósíalista. Atkvgr. mun skera úr um það á sínum tíma, hvernig beri að líta á þessar aðgerðir ríkisvaldsins.

Það mætti náttúrlega margt segja um stefnu þessa frv. í heild, og ég get að nokkru leyti tekið undir það, sem einn maður sagði, sem hér var inni í d. og talaði fyrir nokkru, Magnús Torfason, að það væri undarlegt, að sósíalistar skyldu beita sér fyrir slíkri löggjöf sem þessari, því hún byggðist nær eingöngu á hreinum og beinum nefsköttum. Þeir, sem standa undir tryggingunum, eru einstaklingarnir, að langmestu leyti. Ég er því ekki í minnsta vafa um það, að ef sjálfstæðismenn hefðu verið í meiri hl. á þingi og borið fram slíkt tryggingarfrv. sem þetta, þá hefðu sósíalistar gert hið mesta hark að þeim fyrir það, að þeir væru með beinum nefsköttum að koma fátækraframfærslunni og opinberri framfærslu úr höndum ríkisins og bæjarfélaganna yfir á blásnauða einstaklingana. Ég undrast því það, hvert kapp sósíalistar leggja á framgang þessa máls. Þetta frv. er í rann og veru mjög íhaldssamt, og ég get bent á það, að íhaldsmenn í Danmörku hafa borið fram frv. um sjúkra- og ellitryggingar, sem raunar náði ekki fram að ganga, af því að sósíalistum þar í landi þótti það of íhaldssamt. En dönsku íhaldsmennirnir lögðu þó ekki til, að beinir nefskattar skyldu standa undir tryggingunum, svo sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur átti hver einstaklingur að gjalda 3% af tekjuskatti sínum til þess að standa undir tryggingunum. M. ö. o., þeir efnuðu áttu að greiða mest, en samkv. þessu frv. eiga allir að greiða jafnt. - Frá sjónarmiði sjálfstæðismanna er aðalstefna frv. að mörgu leyti rétt, en við höfum gert grein fyrir því, að við teljum varhugavert að leggja þessi gjöld á allan almenning á þeim erfiðleikatímum, sem nú standa yfir. Og ég spái því, að sú verði strax raunin á fyrsta ári, að mjög erfitt verði að innheimta þessi gjöld, og ég er þess fullviss, að harðfylgi sósíalista við þetta frv. verður ekki launað í sama hlutfalli af kjósendum þeirra víðsvegar úti um landið.

Hv. þm. V.-Sk. hefir hér flutt rökst. dagskrá. Ég verð nú að segja það, að ég tel það í raun og veru litlu máli skipta fyrir framgang þessa máls, hvort sú rökst. dagskrá verður samþ. á þessu þingi, því stjórnarliðar sjálfir hafa nú sett það ákvæði inn í frv., að það skuli ekki öðlast gildi fyrr en 1. apríl næstk. Nú er það vitað, að þingið á að koma saman 15. febr. Þó því svo fari, að dagskráin verði samþ. og frestur veittur til frekari aðgerða í málinu, þá er hægt, þegar þingið kemur saman 15. febr., að knýja þetta mál fram nægilega tímanlega til þess að l. öðlist gildi á þeim degi, sem sósíalistar sjálfir vilja miða við.

Það eru ýmsar aðrar brtt. komnar fram, en þar sem ekki er búið að tala fyrir þeim öllum ennþá, mun ég fresta að ræða um þær, unz ég hefi heyrt rök fyrir þeim.