11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

131. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla þá fyrst að snúa mér að hv. 6. landsk., sem beinlínis slá því föstu áðan, að allur þingheimur og fjöldi landsmanna hefði fengið þetta frv., sem hér liggur fyrir, prentað í apríl eða maí. Hv. þm. veit, að þetta er ekki rétt, því þó svo kunni að vera, að þá hafi verið lokið prentun á þessu frv. sem handriti, þá hafa einstakir þm. ekki neinn rétt til þess að ganga í skrifstofu Alþ. eða ríkisprentsmiðjuna og krefjast þess að fá eitt eintak. Þessi ummæli hv. þm. sýna því ljóslega, að hann hefir ekki nein frambærileg rök gegn þeirri kröfu hv. þm. V.-Sk. að gefa almenningi kost á að kynna sér þetta mál, áður en það yrði afgr. Ég vil a. m. k. lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég hefi aldrei séð þetta frv. fyrr en því var útbýtt hér á Alþ.

Hv. 6. landsk. sagði, að tryggingarnar gripu ekki beinlínis inn í líf þjóðarinnar nú, þar sem gjöldin og sérstaklega ellitryggingin væri svo lág.

Þetta er ekki rétt. Hv. þm. veit það, að að svo miklu leyti sem þessar tryggingar eiga að koma til framkvæmda, þá eru gjöld, sem þar um ræðir, sízt lág. Og þó að búið sé að taka þessar tölur nokkrum sinnum upp, þá skulum við aðeins velta þeim fyrir okkur. Við skulum ganga út frá því, að hér eigi hjón hlut að máli. Maðurinn verður þá að borga í sjúkratryggingu fyrir sig og konuna 72 kr. Þá er óhætt að leggja til grundvallar við svona meðaltalsreikning, að 3 börn séu á heimili yfir 16 ára. Maðurinn verður einnig að borga fyrir þau, þannig að útgjöldin verða 5 X 36 = 180 kr. Þá er gert ráð fyrir því, að fjölskyldufaðir greiði iðgjöld fyrir þjónustufólk sitt, fósturbörn og annað skyldulið, sem á hans framfæri er. Og til þess að taka nú lága tölu, þá skulum við segja, að þarna geti tveir átt í hlut, sem maðurinn verður að greiða fyrir, og er þá upphæðin orðin samtals 252 kr. - Ef við svo gerum ráð fyrir því, að þessi sami maður verði að borga gjald vegna elli- og örorkutrygginga og sé í sveit, til þess að taka lægri töluna, þá er það 6 X 7 = 42 kr. Sú upphæð, sem þessi maður verður að borga í allt vegna þessara trygginga, er því 294 kr. Það er þess vegna rangt hjá hv. þm., að þessar upphæðir, sem eru lögbundnar og lögtakshæfar, séu ekki neitt tilfinnanlegar fyrir menn. Það þarf enginn að segja manni það, að fjölskyldufeður, sízt nú á tímum, muni ekki um gjald, sem að meðaltali er hægt að reikna 294 kr.

Þá eru það villurök hjá hv. 6. landsk. að tala um það, að það séu lág gjöldin af elli- og örorkutryggingunum með tilliti til þess, að sjúkratryggingarnar séu ekki lögboðnar nema í kaupstöðum. Ef hv. þm. vill mæla með þessu máli af því, að það sé svo gott mál, að það eigi að ná til alls landslýðs, þá verður hann líka að ganga út frá því, að þeir, sem í sveitum búa, muni einnig koma á hjá sér þessum sjúkrasamlögum, sem frv. gerir ráð fyrir. Hann getur ekki með öðru orðinu slegið því föstu, að málefnið sjálft réttlæti það, að allir eiga að vera tryggðir, en í hinu orðinu, þegar talað er um kostnaðinn, að aðeins lítill hluti landsins verði tryggður. Ef hv. 6. landsk. þess vegna aðeins reiknar með elli- og örorkutryggingagreiðslunum, þá eru það blekkingar. Almenningur verður svo að dæma um það, hvort hann telur það fjárhagslega gróða eða hagræði fyrir sig að inna af hendi lögboðnar greiðslur, sem geta orðið allt að 300 kr. - Ég skal ekki segja um það, hvað ég t. d. borga í lækniskostnað á ári, en ég get þó skýrt frá því, að ég mundi sennilega samkv. þessum l. koma til með að borga fyrir 6 meðlimi, m. ö. o. 6 X 43 = 258 kr. Mér er óhætt að fullyrða, að þó svo hafi viljað til, að ég hafi þurft á talsverðri læknishjálp að halda vegna míns heimilis, þá hafi ég aldrei þurft að greiða þá upphæð. Hv. þm. hristir höfuðið yfir því, en þetta er nú samt rétt, og ef hann vill koma og athuga þá reikninga, sem ég hefi fengið frá læknum eða borgað, þá getur hann sannfært sig um þetta. Hitt er svo vitað og játað, að veikindi ganga svo ákaflega ójafnt yfir fólkið. Það er eflaust fjöldi manna, sem gæti sýnt það reikningslega, að þeir þyrftu árlega að borga meira en þetta í læknishjálp. Það er hinsvegar, sem betur fer, mikill fjöldi af fólki, sem þarf ekki að borga nálægt því þessa upphæð, og ég tel þessa upphæð ekki lágt reiknaða. Það er a. m. k. víst, að ef á að taka þessa leið, að dreifa áhættunni við sjúkrakostnaðinn, þá er það þar af leiðandi augljóst, að þeir, sem gjalda til þessara trygginga, eiga að njóta þeirra, og sé það ekki gert, þá brýtur það, eins og ég hefi áður tekið fram, í bága við almennan tryggingargrundvöll. Ég veit það, að það eru jafnaðarmenn innan þingsins, sem leggja áherzlu á, að þetta nái fram að ganga.

Þetta frv. er í 4 aðalköflum. Fyrsti kaflinn er um slysatryggingarnar, og það er óhugsanlegt, að sósíalistar leggi þetta ofurkapp á frv. vegna þeirra. Það er útilokað vegna þess, að til eru í l. fullkomin ákvæði um slysatryggingar. Og þær breyt., sem má segja, að séu komnar inn í þetta frv., eru að öllu samanlögðu svo lítilfjörlegar, að það getur ekki komið til mála, að þessi flokkur leggi áherzlu á, að málið nái fram að ganga þeirra vegna. Þá er athugandi, hvort ástæðan fyrir þessu kappi geti verið sjúkratryggingarnar, sem er annar aðalkafli frv. ég tel, ekki heldur, að það sé, fyrst og fremst vegna þess, að sjúkratryggingar eru ekki lögbundnar nema í kaupstöðum. Í sveitum og smáþorpum er aðeins heimild til þess að stofna sjúkrasamlög. En þetta er samhljóða heimildarl. nr. 103 frá 1933, þar sem heimilað er að stofna á vissum svæðum sjúkrasamlög, t. d. í skólum og víðar, og skal ríkið leggja fram ákveðna upphæð fyrir hvern meðlim. Það er vitað, að hér í Rvík er sjúkrasamlag, sem allir hafa leyfi til að ganga i, sem hafa 4500 kr. árstekjur eða lægra. Það er sama hámarksupphæðin, sem hér er gert ráð fyrir, að þeir, sem njóta eigi styrks, hafi í laun. Það mun vera mikill fjöldi manna, sem nýtur þeirra réttinda, sem l. frá 1933 heimila, og greiðir iðgjöld til samlagsins, og auk þess mun Reykjavíkurbær greiða yfir 30 þús. kr. á ári til sjúkrasamlagsins. Ég fæ því ekki skilið, að þessi kafli frv. sé saminn vegna hinna fátæku, því að sú heimild, sem veitt er í þessu frv., er þegar fyrir hendi að því er snertir sjúkrasamlag Reykjavíkur.

Það gjald, sem meðlimir sjúkrasamlags Reykjavíkur greiða, er ekki hærra, heldur lægra en gert er ráð fyrir, að menn þurfi að greiða samkv. þessu frv. Það er því útilokað, að það séu ákv. um sjúkratryggingar og sjúkrasamlögin, sem eru þess valdandi, að sósíalistar leggja svo mikla áherzlu á, að þetta nái fram að ganga. Þá er það þriðja atriðið, sem vert er að athuga, hvort það er þriðji kaflinn, örorkutryggingarnar, og þar fáum við sama svarið, að það er ekki skiljanlegt, að sósíalistar leggi kapp á þetta mál þeirra vegna sérstaklega. Að vísu gætu þeir sagt, að sú hugmynd, sem kemur fram í þessum kafla frv., sé rétt. En hinsvegar liggur ekkert á að samþ. slíkt frv. á þessu þingi, sem þó virðist tilætlun hv. meiri hl. þingsins, vegna þess að þessi kafli frv. kemur í fyrsta lagi ekki til framkvæmda sem l. fyrr en 1. apríl 1936, og í öðru lagi af því, að þessar tryggingar koma ekki til að verka fyrr en eftir fjöldamörg ár. Aðalhugmyndin er sú, að þvinga fram með l. sjóðsöfnun, og þegar sjóðurinn er kominn yfir 500 þús. kr., verður fyrst farið að veita styrk úr honum. Hitt má svo deila um, hvort yfirstandandi tímar geti talizt heppilegir til að leggja á þjóðina slíkt gjald, þegar hún á engan hátt er aflögufær. Það er fyrst eftir 20 ár að menn fá greitt eftir þessum kafla frv. Það er þess vegna útilokað, frá hvaða sjónarmiði sem það er skoðað, að sósíalistar leggi mjög mikla áherzlu á að fá frv. afgr. með afbrigðum á þessu þingi, eftir að það hefir legið frammi aðeins 10 vikna tíma hv. þm. til athugunar, a. m. k. ekki vegna þriggja fyrstu kafla frv. Sjóðsöfnunin samkv. þessum kafla frv., sem ætlazt er til, að verði þvinguð fram með löggjöf, er að vissu leyti óréttmætari þegar þess er gætt, hvernig afkoma þjóðarinnar er yfirleitt, og vitað, að nú stendur yfir og er að enda sá þátturinn, sem nefnist kreppuhjálp bænda, þegar mikill hluti bændastéttar þjóðarinnar hefir orðið að leita á náðir hins opinbera og ríkið orðið að hlaupa undir bagga með þeim, og bændur hafa verið þvingaðir til að gefa svo og svo mikinn hluta af skuldum eftir, og í framhaldi af því kemur víst bráðlega löggjöf um stofnun annars kreppusjóðs fyrir bæjar- og sveitarfélög. Það mun sýna sig fljótt, hvort það kemur fram frv. um að hlaupa undir bagga með bæjar- og sveitarfélögum á þann veg, að gefa þeim frest n skuldum sínum. Loks er þriðji þátturinn, skuldaskil smáútvegsmanna, þar sem þeim er getin heimild til undir vissum kringumstæðum að fá eftirgjöf á skuldum sínum. Ég fæ ekki skilið, að það sé nein knýjandi nauðsyn að stofnsetja slíkan sjóð einmitt nú, þegar almenningur í landinu á við svo slæm kjör að búa. Ég sé því ekki, að nein skynsamleg rök séu fyrir þessum köflum frv. Það er hinsvegar IV. kaflim, um atvinnuleysistryggingarnar, sem ræður afstöðu þingsins í þessu máli. Það eru atvinnuleysistryggingarnar, sem gera það að verkum, að sósíalistar beita sér sérstaklega fyrir framgangi þessarar löggjafar. Það hefir enginn gengið þess dulinn, að Framsfl. myndi aldrei samþ. þessa löggjöf, fram undir þann tíma, að 2. umr. fór fram um málið, en þeir hafa nú orðið að kúvenda. En hvers vegna leggja sósíalistar svo mikla áherzlu á þetta? Naumast er það afleiðing af því yfirlýsta stefnuskráratriði, að þeir skyldu afnema atvinnuleysið, þegar þeir kæmust til valda. En hvað skeður? Atvinnuleysið hefir aldrei verið meira en nú, þar sem þeir þó drógu enga dul á fyrir kosningarnar, að atvinnuleysið væri ríkisstj. að kenna, og ef þeir fengju aðstöðu til að fara með völd, myndi atvinnuleysið hverfa. Það getur því ekki verið í áframhaldi af því, að sósíalistar hafi fullnægt þessu loforði, að sósíalistar þurfa að setja l. um atvinnuleysistryggingar, því að slíkt er ónauðsynlegt í því landi, þar sem ekkert atvinnuleysi er, en það hefir komið fram hér í Reykjavík, sérstaklega innan félagsskapar sósíalista og verkamanna hér, og innan verklýðssamtakanna yfirleitt, að almenningur hefir ekki lengur trú á því, að góðar efndir myndu verða á loforðum sósíalista. Almenningur finnur ekki mikið til þess svona í skammdegismyrkrinu, þegar liður að jólum, að sósíalistar séu við völdin í þessu landi. Aldrei hefir afkoma almennings verið verri en einmitt nú, þegar þeir stjórna. Það er vitað, að það eru kommúnistar, sem hafa knúið fram þessa afstöðu sósíalista innan þingsins; það eru þeir, sem hafa borið dýru loforðin upp á sósíalista og heimtað efndir, heimtað atvinnu, hakkað kaup og lægra vöruverð. Úr því að sósíalistar geta ekki lengur sannfært menn um, að þeir geti og ætli sér að efna þessi loforð, þá verða þeir að játa svik á sig. Þeir hafa því tekið til nýrra ráða. Þeir segja: Þótt þið fáið enga atvinnu, þá skuluð þið samt sem áður fá kaup. - Það er þetta, sem knýr fram þetta frv. Það er þverrandi von um loforðaefndirnar innan þessara samtaka, sem knýr fram þessar aðgerðir í málinu. Það hefir sýnt sig á þeim fundum, sem hér hafa verið haldnir undanfarið, og þar sem umr. hafa verið um stjórn sósíalista, að fylgi þeirra fer minnkandi, en Sjálfstfl. vaxandi. Það kom fram í ræðu hæstv. atvmrh., að það væri ekki nema rétt, að ríkissjóður hefði á hendi úthlutun atvinnubótafjárins, þar sem svo og svo mikið af því kemur úr ríkissjóði. Þetta eru að vissu leyti góð og gild rök, en það er nákvæmlega sama, sem gildir hér um þessar tryggingar, að svo og svo mikið kemur úr ríkissjóði. En ef hið opinbera á að skipa menn í stjórn þessara sjóða, þá mun hæstv. atvmrh. ganga eins auðveldlega að sýna þar hlutdrægni, sem enginn efast um, að hann muni gera, ef hann hefir tækifæri til, og í úthlutun atvinnubótafjárins. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það verði 75 þús. kr. á ári, sem ríkissjóður greiði til þessara sjóða, og það mun vera annað eins, sem bæjar- og sveitarsjóðir greiða, svo að þarna eru komnar 150 þús. kr. á ári. Hvers vegna mega ekki viðkomandi yfirvöld hafa umsjón með, hvernig þessu er úthlutað? Það er auðvitað af því, að hæstv. ráðh. er hræddur um, að þá yrðu ekki sósíalistar í stjórn allra þessara sjóða, ef fyrirkomulagið yrði þannig. Sjóðstjórnirnar ættu vitanlega að vera margar, í stað þess að hafa eina stjórn, t. d. ein í hverju sýslu- eða hreppsfélagi, sem væru hver um sig skipaðar þrem mönnum, og einn væri útnefndur af viðkomandi verklýðsfélagi, einn af hreppsnefnd og sá þriðji af atvmrh. Þetta virðist vera hið eina rétta fyrirkomulag, en ekki hitt, að ein sjóðstjórn sé fyrir allt landið, þar sem hv. 2. þm. Reykv. og hans notar myndu vera í meiri hl.