11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég hefi verið að furða mig á því, að hv. 6. landsk. hafði svo mikið á móti því, að almenningur utan þingsins vébanda fengi nokkuð um þessi mál að segja, áður en þau eru keyrð í gegn á þingi. Ég er hissa á þessu, úr því að hann annað veifið taldi rétt að spyrja um vilja almennings um þessi efni. En ef hv. þm. telur rétt að spyrja almenning viðvíkjandi þessu máli, eftir að fyrsta fótmálið er stigið, þ. e. að frv. þetta hefir gengið í gegn á þingi, hvers vegna vill hann þá ekki spyrja almenning um þetta áður en löggjöfin um þessar tryggingar gengur í gegn á þingi, ekki aðeins einn kafli frv., heldur frv. í heild? Hví vill hann ekki spyrja, í fyrsta lagi um það, hvort fólkið yfirleitt og félög, svo sem eins og bæjar- og sveitarfélög, vilji fyrir það að setja saman þær tryggingar, sem áður voru í gildi, fá aðrar tryggingargreinir, sem hér eru áður ókunnar og óreyndar, og sem hann sagði, að væri þýðingarmestar, sem gera þessar tryggingar allar miklu þungbærari? Það verður því að telja, að þessir herrar telji það fullkomnast, sem þungbærast er fyrir almenning í landinu og sveitar- og bæjarfélögin. Er hv. 6. landsk. hræddur við að spyrja þetta fólk, sem hann segist eiga tök í? Hví er hann hræddur við að leita ráða hjá því og fá þess umsögn um málið? Er þessi hv. 6. landsk. þm. upp úr því vaxinn að tala við kjósendur sína um svona mál og við þau félög, sem hann þykist bera fyrir brjósti, sveitarfélög og bæjarfélög? Hví vill hv. þm. ekki lofa þessu fólki að standa á bak við framkvæmdir löggjafarvaldsins í þessu efni? Hvers vegna er þessi einræðishugur kominn upp í hv. 6. landsk., sem þykist vera mikill fólksins maður, og er kannske mestur fólksins maður af þessum burgeisum, sem þykjast vera talsmenn alþýðunnar? Ég býst við, að þessum hv. þm. verði erfitt með að komast heilskinnaður út úr þessu á öðrum og víðari vettvangi en hér í þingsölum. Þrátt fyrir þann undirbúning þessa tryggingamáls, sem farið hefir fram allt að þessu, hefir fólkið ekki átt þess kost að kynna sér þetta stóra og margþætta mál. Hv. þm. var að vísu að segja, að málið hefði legið fyrir áður en það kom fram á þingi. En ég verð að álíta, að hann hafi, með því að segja þetta, bara alls ekki vitað, hvað hann var að fara. Málið lá bara alls ekki fyrir, því var ekki einu sinni útbýtt til þm., hvað þá að það lægi fyrir sjónum almennings. Það var fyrst lagt fyrir Alþ. á seinni hluta þessa þings, þ. e. eftir þinghlé. Þó að undirbúningi þessa máls hafi máske verið lokið á síðasta vetri eða vori, þá hefir því verið haldið leyndu fyrir almenningi í landinu, þar sem ég veit til.

Það getur ekki verið, að það sé gert vegna bæjarfélaga að koma á þessum tryggingum. Einmitt bæjarfélögin hafa aðalkostnaðinn af þessum málum, eftir þeim l., sem gilda um þetta nú og eru fullnægjandi, að dómi þeirra manna, sem með þetta hafa nú að gera, sjúkratryggingar, slysatryggingar og ellitryggingar, með núv. fyrirkomulagi. Ástandið í þessum málum er þannig nú, að fólkið vill ekki bæta við sig meiri kvöðum vegna tryggingamála. Framfærslumálin munu líka leggja nægilega miklar byrðar á herðar bæjarfélögum um sinn, þó að þar sé ekki bætt ofan á. Hvers vegna vill ekki hv. 6. landsk. styðja að því, að hér nái fram að ganga óháð löggjöf um framfærslu sjúkra manna og örkumla? Og hver þörf er á að binda þá löggjöf við þetta tryggingarlagabákn, sem hv. sósíalistar gera í að aðalatriði það, sem í þessu máli er minnst um vert, atvinnuleysistryggingarnar? Hv. 6. landsk. kemst ekki út úr þessari flækju, sem hann hefir hér sett sig í, nema með því að vera dreginn út úr henni eins og þau kvikindi, sem ég vil ekki líkja honum við.