07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Auðunn Jónsson:

1. brtt. mín er um tilfærslu á læknisvitjunarstyrk tveggja hreppa, vegna aðstöðubreytingar, sem þar hefir orðið á síðustu árum. Er brtt. fólgin í því, að styrkurinn hækki um 50 kr. til Reykjafjarðarhrepps, en lækki að sama skapi til Snæfjallahrepps.

2. brtt. mín er brtt. við þá till. fjvn. að utanfararstyrkir lækna verði með öllu felldir niður. Styrkir þessir hafa komið að miklum notum og orðið til þess, að læknar þeir, sem þeirra hafa notið, hafa oft getað hjálpað sjúklingum, sem annars hefðu orðið að leita í önnur héruð, eða jafnvel til Reykjavíkur, með ærnum kostnaði.

Þá ber ég fram brtt. um það, að veittur sé styrkur til tveggja sjúkrasjóða í mínu héraði, 300 kr. til hvors. Ég veit, að slíkar beiðnir eru margar, en þess er hér að gæta, að ég kem með lækkunartill. á móti, sem ég álít, að þingið geti að skaðlausu samþ. Ég álít, að fé landsins sé betur varið til styrktar sjúkum mönnum en að leggja það í vafasama listamenn.