17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl]:

Herra forseti! Ég sé nú, að hvorugur þeirra manna, sem ég þurfti að svara, er hér mættur. Tel ég samt rétt, þar sem ég veit, að umræðupartur þingtíðindanna verður prentaður, að láta fram koma nokkrar aths. Ætla ég þá að svara hv. 10. landsk. nokkrum orðum. Sá hv. þm. byrjaði með því að segja, að bezta vörnin gegn atvinnuleysinu væri sú, að styðja sjálfa atvinnuvegina. Vitanlega verður ekki um það deilt, að atvinnuvegirnir eru undirstaða undir öllu lífi fjöldans. Ég hefi ekki dregið úr því, að þeim væri veittur stuðningur á þann hátt sem hægt er. En aðstaðan er nú hér sú, að hve vel sem reynt er að styðja þá, þá verður ekki hér fremur en í öðrum löndum hægt með öllu að útrýma atvinnuleysinu. Sá atvinnuvegur, sem er og hefir verið undirstaðan undir mörgum hinna, sjávarútvegurinn, hefir nú ekki möguleika til að auka sig, og getur því ekki tekið á móti fleira fólki en nú vinnur við hann. En þrátt fyrir það, þó að þessi atvinnuvegur hafi haldið öllu gangandi, þá hefir gætt hér, a. m. k. í Reykjavík, atvinnuleysis í stórum stíl. Möguleikarnir til þess að auka þennan atvinnuveg eru nú ekki ýkjamiklir, þar sem við vitum, að miklir erfiðleikar eru nú á því að selja okkur sjávarafurðir. Svo að það er sýnilegt, að á meðan svo stendur, þá verður eitthvað að gera fyrir það fólk, sem ekki getur komizt að þessum atvinnuvegi, og á meðan vinna við hann er mjög stopul.

Ég mótmæli því, sem hv. 10. landsk. leyfði sér að halda fram, að gerðir þessa þings hefðu ekki miðað til þess að styðja atvinnuvegina. Á það var bent af hæstv. atvmrh., hvað hér hefir verið lagt í sölurnar í þeim efnum, og þarf ég þar litlu við að bæta. Hygg ég, að atvinnuvegunum hafi á þessu þingi verið sýnd fyllsta sanngirni, eftir getu ríkisins.

Annars var þessi ræða hv. 10. landsk. að mestu um atvinnuleysistryggingarnar. Hann minntist á berklavarnalögin, sem við höfum nú átt við að búa um langt skeið, og sagði, að sú leið hefði verið farin um berklavarnir, að menn hafi verið styrktir í sjúkdómum þeirra. Sagði hv. þm., að hér ætti að sínu leyti að fara eins að með atvinnuleysistryggingunum, og að eins mundi fara í því efni og farið hefir viðvíkjandi berklavarnakostnaðinum, að á þennan styrk mundi hlaðast mikill þungi með þeim fjölda manna, sem kæmi til með að nota hann. Sagði hv. þm., að betra hefði verið að fyrirbyggja berklahættuna heldur en að taka við öllum berklasjúklingunum á hæli. Í sambandi við þessi orð hv. þm. vil ég benda á, hvaða flokkur það er, sem á undanförnum árum hefir í raun og veru barizt fyrir því, sem gæti verið til þess að draga úr berklahættunni, sem eru holl húsakynni og nokkurn veginn sæmilegt líf fyrir alla landsbúa.

Ég hygg, að hann fari þar fremur eftir sögusögnum manna heldur en hann hafi haft nokkuð fyrir sér í því, að slíku misrétti hafi verið beitt af verkalýðsfélögunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja margt við hv. 1. þm. Skagf. Flestar aths. hans voru út af byggingu frv., vegna ýmissa galla, er hann taldi sig finna þar af lögfræðingsreynslu sinni. Hæstv. atvmrh. hefir svarað honum, og hefi ég þar engu við að bæta. En heldur fannst mér anda kalt frá honum til frv., enda er slík andstaða engin nýjung í þeim flokki, er hann fylgir.

Hv. þm. varð einna tíðræddast um sjúkratryggingarnar. Eins og ég sýndi fram á í fyrri ræðu minni, byggjast þær á því, að hinir heilbrigðu greiði fyrir þá, sem fyrir því böli verða að verða veikir, alveg eins og það er viðurkennd regla í fjármálum siðaðra þjóðfélaga, að þeir, sem betur eru stæðir, greiði fyrir þá, sem eru fátækir. - Hv. þm. sagði, að kostnaðurinn við tryggingarnar ætti að greiðast af framleiðslunni. En hvað kostnaðarhlið trygginganna snertir, þá er þar aðeins um tilfærslu að ræða frá núv. fyrirkomulagi, tilfærslu, sem með tímanum verður áreiðanlega til stórsparnaðar. Útgjöld sveitar- og bæjarfélaga vegna sjúkra manna minnka stórum eða hverfa jafnvel að mestu, og því verður hægt að lækka útsvarsbyrðarnar að mun, bæði á framleiðendum og öðrum, og mun þess sízt vanþörf, því að það er víðar en hér í Reykjavík, sem menn stynja undir fátækraframfærslunni.

Þá vil ég víkja nokkuð að hv. 10. landsk. Hann talaði einkum gegn atvinnuleysistryggingunum á þeim grundvelli, að líkja þeim við berklavarnastyrkinn, sem hefði farið sívaxandi ár frá ári, án þess að stemma á að ósi og koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar. Hann hefði að vísu orðið til þess, að aðbúð hinna sjúku hefði batnað, en sú hlið málsins hefði verið vanrækt, að búa svo að hinum heilbrigðu, að þeir þyrftu ekki sjúkrastyrks með.

Allir, bæði ærðir og leikir, viðurkenna, að langsterkasta vopnið í baráttunni gegn berklaveikinni er bætt húsakynni. Og öllum hv. þm. er kunnugt, hvaða barátta hefir verið háð fyrir batnandi húsakynnum til sjávar og sveita hér á þingi og hvernig flokkarnir hafa skipzt í þeirri baráttu. Það eru jafnaðarmenn, sem í þessu efni sem öðrum hafa fyrst og fremst barizt fyrir því, að skapa fólki heilbrigt líf. Og þótt ekki hafi tekizt betur en raun hefir orðið á um útrýmingu veikinnar, m. a. vegna andstöðu íhaldsins gegn bættum húsakynnum fátæka fólksins og öðrum hollustu- og menningarmálum, þá er auðvitað jafnmikil nauðsyn til að sjá hinum sjúku fyrir sjúkravist og allri umönnun. Annað gengi glæpi næst.

Og sama er að segja um þá, sem orðið hafa fyrir því boli að verða atvinnulausir. Hv. 10. landsk. játaði, að atvinnuleysið væri orðið sjúkdómur. Þetta er því miður rétt. Allar þjóðir heimsins eru nú að reyna að lækna þennan sjúkdóm. Harðasta baráttan í heimi stendur um það, að skapa þjóðfélag, þar sem atvinnuleysi sé ekki lengur til. Þetta er einmitt aðalatriðið og undirstaðan í kenningum jafnaðarmanna, og að þessu þykjast allir aðrir flokkar vilja vinna. - En á að láta „sjúklingana“, hina atvinnulausu, deyja drottni sínum á meðan á lækningatilraunum stendur?

Ég mun nú drepa á aths. hv. 10. landsk. við ýmsar einstakar greinar. - Fyrsta aths. hans var við 65. gr. Hann taldi ekki rétt, að ríkissjóðsstyrkurinn væri bundinn við einn sjóð í hverjum stað. Hann gaf í skyn, að notuð myndi óbilgirni gegn mönnum annarar skoðunar en þeirrar, sem ræðandi væri í verkalýðsfélagi því, sem færi með stjórn sjóðsins. Ég þekki þess engin dæmi úr öðrum löndum, að öðrum en verkalýðsfélögunum hafi verið falin slík úthlutun. Og til þess að forðast of marga sjóði og þann glundroða, sem af slíku kynni að leiða, er jafnan einu verkalýðsfélagi á hverjum stað falin úthlutunin. Annars gætu myndazt ótal smásjóðir með mismunandi háum tillögum o. s. frv. Aldrei hefi ég heyrt þess getið, hvorki erlendis ná hérlendis, að verkalýðsfélögin hafi beitt pólitískri hlutdrægni við úthlutun úr sjóðum, né þekki þess nein dæmi hér, að nokkur maður hafi verið sviptur réttindum í verkalýðsfélögunum, þótt ekki hefði hann þá ríkjandi skoðun. Ég hefi sjálfur verið í stjórn sjóðs, sem er eign verkalýðsfélaganna innan Alþýðusambandsins og úthlutað hefir um 15 þús. kr. ári., og hefi aldrei vitað til, að þar hafi verið hlutdrægni beitt, né að aðrir. t. d. endurskoðendur, hafi haft yfir slíku að kvarta. Verkalýðsfélögin geta átt menn af ýmsum flokkum í stjórnum sínum, enda vita allir, að þau eru opin fyrir fleirum en jafnaðarmönnum. Hætta á hlutdrægni er því engin, og það er ósæmileg aðdróttun til verkalýðsfélaganna, að þau muni níðast á atvinnulausum mönnum vegna pólitískra skoðana. Margir sjóðir valda aðeins glundroða og auka kostnað.

Þá vildi hv. 10. landsk. vita það ákvæði laganna, að hjón, sem ættu 10 þús. kr. eign, og einhleypur maður, sem ætti 5 þús. kr. eign, gætu fengið atvinnuleysisstyrk. Oftast nær er þessi eign í húsi, sem svo þungar byrðar hvíla á, að eigandanum veitist erfitt að standa undir þeim. Oft getur hér átt í hlut maður með barnahóp, sem er að basla við að hafa þak yfir höfuðið, og sýnist engin sanngirni í því að neita slíkum mönnum um styrk. Í löggjöf Dana gilda alveg sömu ákvæði.

Hv. þm. var að tala um ósamræmi á milli 69. og 71. gr. Í 69. gr. er gert ráð fyrir, að styrkurinn nemi ekki meiru en 3/5 af því, sem greitt er í starfsgreininni á sama tíma. En í 71. gr. segir, að fara skuli eftir taxta, sem viðurkenndur er af verkalýðsfélagi. Það er auðvitað kaupgjald eftir þeim taxta, sem átt er við í 69. gr. Ef ekki er unnið eftir taxta, verður verkfall, og í verkfalli fær enginn styrk. Atvinnuleysisstyrkurinn má ekki nema meiru en 3/5 af viðurkenndum taxta á hverjum stað. Þetta er svo ljóst sem verða má. Maður, sem kemur frá Ísafirði til Rvíkur, getur ekki fengið styrk þar, af því að hann er í atvinnuleysissjóði á Ísafirði. Hv. 10. landsk. harmaði það, að ekki væri hægt að neyða fjölskyldumenn til að fara upp í sveit, ef þeir gætu fengið þar lífsframfæri, eins og hægt væri að neita einhleypingum um styrk, ef þeir gætu fengið slíka atvinnu í sveit, samkv. ákvæði, sem sett var inn í lögin í Nd. Ég tel það ákvæði næsta óviðkunnanlegt, og veit, að það á eftir að vekja mikla andúð.

Hv. þm. kveið fyrir því, að tillag ríkissjóðs gæti með tímanum farið langt fram úr 75 þús. kr. Hvað sem því líður, er þó vist. eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, að árið 1936 nær framlagið ekki nærri því þessari upphæð. Nú eru til aðeins tveir atvinnuleysissjóðir, en það hlýtur jafnan að taka nokkurn tíma að koma slíkum sjóðum á fót. Auk þess eru félögin frjáls að því, hvort þau stofna slíka sjóði eða ekki. - Hv. þm. sagði, að þessar 75 þús. kr. væru miðaðar við verkamenn og sjómenn eina. Ég skil lögin svo, að þær séu miðaðar við alla, sem kunna að mynda atvinnuleysissjóði.

Þá sagði hv. 10. landsk., að ákvæði 74. gr. hefðu átt að eiga við allir tryggingarnar. Ég held, að þessi ákvæði séu í hinum dönsku tryggingalögum, sem þó þykja góð, ekki látin ná nema til atvinnuleysissjóðanna, eins og hér. Ákvæðið er til þess að leggja víti við því, að menn leyni vinnu, er þeir hafa, og taki fé úr sjóðnum. Sá, sem slíkt gerir, á að greiða sekt og missa réttindi um skeið. En fyrir hvað á að sekta í sjúkratryggingunum? Þar gilda læknisvottorð, og ekki er hægt að sekta fyrir þau.

Hann talaði loks um slysatryggingarnar og taldi, að þar þyrfti að bæta inn í nýjum ákvæðum t. d. um fuglaveiði í björgum, þótt ekki væri sigið. Ég held, að með orðinu „bjargsig“ sé átt við bjargferðir yfirleitt, þótt menn t. d. fari í bjarg af sjó, eins og ég man, að tíðkaðist fyrir vestan. Ég veit, að Slysatryggingin túlkar þetta með skilningi. Hann minntist einnig á tryggingu við innanhúsmálningu. Fyrir skömmu varð slys við þá iðn hér í Rvík, og virðist sjálfsagt, að menn við þann starfa séu tryggðir.

Þá sagði hann, að menn, sem vinna að björgunarstörfum, væru ekki tryggingarskyldir. Þetta er rétt. En mér lízt, að ekki sé gott að koma slíkri tryggingu við. Auðvitað á að greiða þeim drenglyndu mönnum, sem leggja sig í lífsháska fyrir aðra, bætur, ef illa fer, eða aðstandendum þeirra. En fyrir slíka menn er ómögulegt að finna ákveðinn tryggingatíma. Ég álít það því rétta stefnu í þessu máli, að greiða bætur fyrir slys í slíkum tilfellum, þótt menn séu ekki tryggingaskyldir.

Þetta frv. miðar sannarlega að því að draga úr þessum byrðum og léttir þess vegna nokkuð á hinum „breiðu bökum“.

Út af síðustu gr. ætla ég ekki að svara hv. þm.; það hefir verið gert. Ég gat þess í minni fyrri ræðu, að e. t. v. mætti ýmislegt betur fara í frv. heldur en er, og því er hægt að breyta og því verður sjálfsagt breytt á næstu þingum, því að reynslan sker úr því, hvort það er ekki fleira, sem þarf að breyta, en það, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir komið auga á, sem ég efast ekki um, að hafi að ýmsu leyti við rök að styðjast.

En eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, er svo mikils um vert að fá þessa löggjöf, að þótt benda megi á, að eitthvað mætti öðruvísi fara, þá álít ég það ekki þröskuld fyrir því, að hægt sé að láta hana ná fram að ganga á þessu þingi. Ég tel, að með þessari löggjöf sé verið í þjóðfélagslegum efnum að stiga ef til vill eitthvert stærsta sporið, sem stigið hefir verið, a. m. k. á okkar æfi, sem nú lifum. Með þessari löggjöf er verið að forða hinum veiku og smáu frá því að vera byrði á þjóðfélaginu. Við erum sannarlega ekki of snemma á ferðinni með þessa löggjöf. Ég minnist þess, þegar slysatryggingarnar komust á árið 1921, ef ég man rétt, þá varð ég samferða frá þinghúsdyrunum einum virðulegum sjálfstæðismanni, sem nú er látinn. Það fyrsta, sem hann sagði við mig, var þetta: „Sigurjón, nú er næsta stigið að koma á sjúkratryggingu. Hún þarf að komast á.“ Svona hugsaði hann, þessi maður, og svona hafa menn hugsað um þetta og svona hefir verið skrifað af alþýðu manna öll þessi ár, a. m. k. síðan hafin var baráttan fyrir þessum málum árið 1915. Nú fyrst eftir 20 ár virðist sem þingið ætli að bera giftu til þess að leiða í höfn löggjöf, sem aðeins er byrjun á því, sem síðar á að verða, og í nokkurn veginn samræmi við það, sem aðrar menningarþjóðir hafa komið á hjá sér.