17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf aðeins að svara hv. frsm. meiri hl. með fáeinum orðum. - Það bar svo undarlega við, að hv. þm. sneri sér aðallega til hv. 10. landsk., sem er eiginlega samherji hans í þessu máli, en til mín sagði hann lítið. Mér finnst það heldur ósanngjarnt af hv. frsm. meiri hl., en hann um það.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hér væri í raun og veru ekki um nein ný útgjöld að ræða. En þá vil ég spyrja: Hvers vegna á að leggja á skatta til þess að mæta þessum útgjöldum? Hvers vegna hefir hv. þm. og hans flokkur verið hálfan þingtímann að semja um, hvaða skattalöggjöf ætti að setja til þess að koma á móti þessum útgjöldum? Ef þetta eru ekki ný útgjöld, þá veit ég ekki, hvað það er. (SÁÓ: Ekki á einstaklingana). Jú, einmitt á einstaklingana, en auðvitað ríki og bæi líka. Ég sé ekki annað en að það séu ný gjöld á einstaklingana, þegar þeir eiga að leggja fram fé til þess að leggja í sjóði fyrir framtíðina, eins og t. d. með örorkutryggingarnar. Það er viðurkennt, að fyrst eftir tugi ára eigi að borga verulegan ellistyrk, og svo kemur hv. frsm. meiri hl. með miklum belgingi og segir, að ekki sé verið að leggja ný gjöld á, þetta sé það sama og verið hefir áður. Hvernig getur hv. þm. haldið þessu fram? Það er bert, að hér er verið að bæta við nýjum gjöldum, og það er einmitt gert á hinum óheppilegasta tíma, þegar bæði atvinnuvegirnir og einstaklingarnir eru í hinum mestu þrengingum. Ég segi, að þetta sé óheppilega valinn tími til þess að safna sjóðum til síðari ára, sjóðum, sem fyrst koma að gagni eftir tugi ára. Það er óheppilegt að gera það á hinum verstu tímum, bæði fyrir framleiðslu landsins og landsmenn alla.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri bara verið að flytja til á milli manna í þjóðfélaginu. Það getur verið, að það sé aðeins það, en það er nú einu sinni svo, að það eru sumir menn í þjóðfélaginu, sem standa undir meiri byrðum heldur en aðrir, og ef alltaf er verið að þyngja á þeim, sem standa undir byrðunum, þá fer svo að lokum, að þeir geta það ekki lengur. Hverjir eiga þá að standa undir byrðunum? Hvar á þá að taka þetta fé, ef enginn stendur uppi? - Það vantar svar við því, og það er sannarlega ekki undarlegt, þó að manni detti þetta í hug nú, þegar það er viðurkennt, að aðalatvinnuvegir landsins eru reknir með tapi ár eftir ár og verða að ganga á þá tiltölulega litlu sjóði, sem hafa verið sparaðir á undanförnum árum. Er þá undarlegt, þó að maður leiði hugann í átt til þess tíma, þegar þessir sjóðir eru uppétnir og ekkert er til til þess að leggja fram til hjálpar öðrum? Hv. frsm. meiri hl. viðurkennir, að ýmislegt megi betur fara í frv. og sjálfsagt sé að bæta úr því mjög bráðlega. Það er einhver sú ömurlegasta játning, sem komið getur fram frá einum þm., sem er að því kominn að samþ. frv., að viðurkenna, að á því séu verulegir gallar, en vilja þó ekki bæta úr þeim. Sérstaklega er þetta heimskulegt nú, þegar komið er undir áramót og það er á almanna vitorði, að þing kemur saman aftur um miðjan febrúar næsta ár, en lögin, sem hér á að samþ., ganga ekki í gildi fyrr en 1. apríl. Hvað er það þá, sem rekur á eftir? Það er ekki annað en þessir samningar milli stjórnarfl., sem reka á eftir. Það er ekki umhyggja fyrir velferð fólksins, sem rekur á eftir á nokkurn hátt. Það er enginn velgerningur við gamla fólkið að firra það öllum möguleikum til þess að fá bætur úr ellistyrktarsjóði. Það hefir enginn gott af þessari löggjöf fyrr en ettir að næsta þing er tekið til starfa og kannske langt komið með störf sín. Það mundi því auðvelt á þessum tíma að lagfæra þá galla, sem á frv. eru. Ég veit, að það er ekki til neins að vera að tala um þetta, en þegar maður fær svona hreinskilnislega játningu um, að gallar séu á frv., þá er ekki hægt annað en að benda á þessa einkennilegu aðferð, að semja um framgang máls, sem ekki er búið að setja svo í letur, að víst sé, að það muni verða frambærilegt sem lög. Annars er ólíklegt, að samningar stjórnarflokkanna hafi verið þannig, að ekki mætti breyta neinu í þessu frv.

Ég er samþykkur hv. frsm. meiri hl. um það, að hér sé verið að stíga stórt spor. Ég held, að það sé rétt, að það sé verið að stiga mjög stórt útgjaldaspor.

Ég viðurkenni, að ýmislegt í þessu frv. hefir mikinn rétt á sér, en ég viðurkenni ekki, að það eigi einmitt nú að framkvæma þetta, þegar allra verst stendur á. Ég held það eina rétta hefði verið að draga þetta, en hafa undirbúna löggjöf þegar skánaði í ári og þyngja ekki byrðarnar, sem nú hvíla á. Þær eru þegar of þungar, þó ekki sé bætt á þær.