17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Ég skal reyna að ljúka máli mínu á tímanum fyrir kl. 7. (MG: Það geta verið fleiri, sem vilja tala).

Frsm. minni hl. vildi meina, að ég hafi aðallega deilt á hv. 10. landsk. En það var reyndar ekki ádeila, heldur nokkrar aths. við frv., sem hann gerði. Að öðru leyti virtist mér hv. 1. þm. Skagf. ekki skilja, hvað ég átti við. Ég átti við Pétur og Pál, alla, sem háðir eru sjúkdómum, greiða til sjúkrahúsa, lyfja og lækna, en eiga að fá þetta ókeypis hér eftir fyrir greiðsluna. Ég átti ekki við, þó að ríkið leggi nokkuð fram, því að þátttaka þess í að styrkja bæjarfélög og einstaklinga er í samræmi við það, sem gildir með flestum þjóðum. Ég vona, að hv. þm. skilji þetta.

Í ellistyrktarsjóð verðum við nú að greiða gjald, sem hefir hækkað fyrir skömmu. Meiri hluti landsmanna nýtur ekki styrks úr honum, en við, sem ekki þurfum á honum að halda, greiðum fyrir hina. Og þetta er svo lítil upphæð, að það getur ekki heitið trygging, og hefir líka verið kallað jólaglaðning, nemur til einstaklinga oft 75 eða 100 kr., en er almennt um 35—40 kr. Þetta er aðeins jólaglaðning, sem reyndar mörgum kemur vel. En með hinu nýja skipulagi ætlumst við til, að myndaðir séu tryggingarsjóðir, sem geti orðið lífeyrir fyrir þessa menn, og ég efast ekki um, að þessi breyt. verði til að hækka framlagið; í framtíðinni verður þessi kafli um tryggingarnar til að hækka stórlega þennan lífeyri.

Þá spurði hv. þm., hverjir ættu að standa undir þessum byrðum. Þær koma auðvitað niður á hverjum einstaklingi. En ég sé ekki, að hér sé um neinar nýjar byrðar að ræða, heldur aðeins um tilfærslu greiðslunnar. Viðvíkjandi því, að atvinnureksturinn standi undir byrðum þessum, þá hefi ég skýrt það, að hann ofhleðst ekki af þeim. Menn hafa hingað til orðið að standa straum af sinni greiðslu í sjúkra- og fátækrasjóði, meðan menn hafa nokkuð haft. Svo að þetta er ekki annað en hártogun.

Hv. þm. sagði, að horfði til uggs og ótta, þegar allir sjóðir eru étnir upp. En það er ekki meiningin, að hinir opinberu sjóðir verði étnir upp, heldur eru myndaðir varasjóðir. Ég veit ekki, hvaða aðra sjóði hann á við. Það er óskylt mál, ef hann á við skattabyrðarnar, sem þingið er með nú. En það er enginn vafi, að þessar tryggingar safnast í sjóði, sem verða síðar notaðir að nokkru leyti til að standa undir framleiðslu landsmanna. Sjóðirnir aukast og þar safnast fé, sem hægt verður að setja í rekstur eða fasteignir, sem þjóðin hefir gagn af. Ég sé svo ekki ástæðu til að elta meira ólar við hv. þm.

Þá vil ég víkja fáum orðum að hv. 10. landsk. við erum ekki alveg sammála, sízt um kaflann um atvinnuleysistryggingarnar. Hann sagðist viss um, að hlutdrægni gæti orðið í veitingum styrksins. En ég er þar á annari skoðun. Ég óttast ekki, að félagsmenn njóti þar ekki fulls réttar. Eins og ég drap á áðan, er það annarsstaðar svo, að þetta er falið verklýðsfélögunum án íhlutunar hins opinbera. Enda er þetta eðlilegt, því að það hefir verið svo í öðrum löndum, að félögin sjálf hafa myndað sjóðina, en hafa síðan notið styrks frá því opinbera.

Þá talaði hv. þm. um mismunandi kaupgjald. Hann túlkaði það svo, að menn, sem kæmu utan af landi, gætu ekki notið styrksins hér, og ef þeir fengju ekki vinnu, yrðu þeir að lifa á hráætinu, eins og kallað er. Tölurnar, sem hann nefndi í þessu sambandi, eru ekki annað en tilfærsla hjá bæjunum. Kaupgjaldið er kr. 1.36. Ef maður á kost á vinnu annarsstaðar, þá verður hann að velja, hvernig farið er með þetta kaupgjald, eða lúta því, sem hér gildir.

Ég ætla ekki að lengja mikið umr. með því að fara út í mismun á kaupgjaldi í sveitum og bæjum. En ég vil benda á, að það er ekki að ástæðulausu, þó að þeir, sem hafa fyrir nokkrum að sjá, séu tregir að leita til manna í sveitum, sem geta ekki borgað sæmilega, því að menn geta ekki framfleytt fjölskyldu fyrir það kaupgjald, sem er í sveitunum. En það þykist ég vita, að það er ekkert jafnmikil kvöl en heita að vera að vinna og vita heimili sitt svelta á meðan. Ég fer svo ekki ýtarlegar út í þetta.

Þá minntist hv. þm. á, að atvinnurekendum væri ekki gert að skyldu að tryggja sig. Í 8. gr. frv. er þetta ótvírætt um sjómenn. Ég hefi ekki leitað svo í frv., að ég viti, hvort sama gildir um menn, sem vinna í landi, t. d. við iðnað, eða menn, sem eiga fyrirtæki, en vinna með verkamönnum. En verði þeir skoðaðir sem verkamenn, þá verða þeir skyldir til að tryggja sig.

Nú sé ég ekki ástæðu til að fara lengra út í þær aths., sem hér hafa verið gerðar.

Það er ekki svo, að stj. sé hætt við falli, þó að frv. komist ekki fram. Hinsvegar er betra að fá þessa löggjöf nú heldur en að draga hana til næsta þings eða lengur. Menn vita ekki, hvernig þá yrði gengið frá henni. Það er alltaf hægara að koma fram með endurbætur. Og ég vil miklu heldur vera með í því að lagfæra þessa löggjöf síðar heldur en láta málið stranda nú á þinginu. En hver breyt., sem á því yrði gerð hér, verður sennilega til þess, að málið dagar uppi. En þetta er allt of mikið stórmál til þess að bíða hér. (PM): Þetta er fallegt fyrirkomulag!). Já, en hv. þm. ætti að vita að þingið er orðið nógu langt og að margir vilja fara að ljúka því. (PM: En öll stærstu málin hefðu ekki þurft að koma í sömu vikunni).