17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

131. mál, alþýðutryggingar

Páll Hermannsson:

Ég ætla ekki að taka þátt í almennum umr. um málið. En mér finnst eðlilegt, að þær fari fram við þessa umr., fyrst þær fóru ekki fram við 1. umr., en ég vil ekki tefja tímann.

Ég kvaddi mér hljóðs út af einu atriði í 72. gr. frv. Ég ætla það hafi verið hv. 10. landsk., sem benti á, að hámarksákvæðið, sem þar er 75000 kr., eigi við tillag til atvinnuleysissjóða ófaglærðra manna, sem sé, að þeir atvinnuleysissjóðir, sem talað er um á eftir, heyri ekki undir þetta. Ég get tekið undir með hv. þm., að þetta muni vera rétt skilið. Það lítur út fyrir, að þessar 75000 kr. hámarkstryggingar eigi við atvinnuleysissjóði sjómanna og ófaglærðra verkamanna, en ekki atvinnuleysissjóði hjá faglærðum mönnum.

Nú hafa menn tekið eftir því, að alstaðar er gengið út frá að setja hámark fyrir greiðslu úr ríkissjóði; svo er um sjúkratryggingarnar og ellitryggingarnar, og þetta var líka meining stjórnarflokkanna um allar alþýðutryggingarnar. Ég geri ráð fyrir, að upphæðin hafi hér lent óviljandi á skakkan stað. Ég vil láta þess getið, að ég er óánægður með, að þetta sé látið standa eins og það er, nema fram komi yfirlýsing frá hæstv. ráðh., sem gengur í þá átt, sem ég hefi lýst viðvíkjandi skilningi á þessu atriði. - Það var ekki annað, sem ég vildi benda á.