17.12.1935
Efri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég tel mig hafa fengið staðfestingu frá hæstv. ráðh. um það, sem ég hélt, að menn á aldrinum 60—67 ára verði eftir frv. verr settir en þeir eru nú, þar sem þeir verða útilokaðir frá styrk úr ellistyrktarsjóði, nema þeir séu öryrkjar. Ég spurði hæstv. ráðh. áðan, hvort svo bæri að skilja frv., að þeir, sem hefðu orðið öryrkjar áður en lögin koma í gildi, yrðu styrks aðnjótandi, og svaraði hann því neitandi, eða m. ö. o.: þeir einir fá styrk, sem verða öryrkjar eftir að lög þessi öðlast gildi, hinir fá ekki neitt. Þeir verða þess vegna algerlega útundan, og er þetta spor aftur á bak. Það er ekki um svo litla fjárhæð að ræða, sem ellistyrktarsjóðirnir hafa úthlutað. Þeir nema á 2. millj. kr. og gefa árlega í vexti um 60 þús. kr. Það eru hundruð manna á landinu á aldrinum 60—67 ára, sem hafa notið styrks úr þeim, en verða nú útilokaðir. Þetta er ófært með öllu og algerlega óviðunandi, enda er ég viss um, að þessu verður breytt á næsta þingi, hvað sem nú er sagt.