07.03.1935
Neðri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

40. mál, iðnaðarnám

Flm. (Emil Jónsson) [óyfirl.]:

Lögum um iðnðarnám hafði ekki verið hróflað frá því nokkru fyrir aldamót, eða frá 1893, til 1927, að núgildandi lög voru sett. Gömlu lögin voru þá ekki lengur nothæf, en lögin frá 1927 eru sæmilega vel gerð, og þær breyt., sem hér eru bornar fram í þessu frv., geta fallið inn í aðalramma þeirra laga.

Ég hefi undanfarin ár haft góð tækifæri til þess að fylgjast með framkvæmd þessara laga og rekið mig á ýmsa agnúa á þeim. Hefi ég oft haft hug á að gera breytingar á þeim, en ekki fengið tækifæri til þess fyrr en nú.

Aðalbreyt. er fólgin í því, að iðnnemar læri hjá starfandi meisturum á vinnustöðvunum, en ekki í skóla eingöngu. Við þetta nám hjá meisturum skal svo bætt hæfilegri bóklegri fræðslu í iðnskólum. Sú aðferð er af mörgum talin að hafa ýmsa kosti fram yfir hreina skólagöngu. Þessari aðferð hefir og verið fylgt hér á landi í framkvæmdinni, en hér er lagt til, að lögunum verði breytt í nokkrum atriðum, sem ég skal nú gera nánari grein fyrir.

Fyrsta breyt. er sú, að vinnutími iðnnema sé styttur úr 60 klst. á viku, sem hann nú er, að meðtöldum 6 klst. til bóklegs náms, niður í 48 klst., einnig að meðtöldum þeim tíma, sem fer til að inna af hendi lágmark hins bóklega náms, eins og það kann að verða ákveðið.

Ég hefi oft rekið mig á það, að þessi vinnutími, sem ákveðinn er í lögunum, er óhæfilega langur. Eftir 9 klst. vinnu á dag með meistara, sem oft er erfið, verða þeir að taka 2—4 klst. skólavist, og þar á eftir lesa undir næsta kennslukvöld, ef vel á að vera. Þeir þurfa því að vinna og lesa um 13—14 klst. á dag, og fyrir unga drengi er það allt of mikið erfiði. Í frv. er farið fram á, að vinnutíminn verði styttur um 2 klst. á dag. Ennfremur er gert ráð fyrir, að sett verði lágmark vinnutíma 36 klst. á viku, en það er ekki í gildandi lögum. Þetta er nauðsynlegt til þess að nemandinn virkilega læri iðnina á hinum tilskilda tíma. Það hefir oft komið fyrir, að iðnnemar hafa verið sendir til óskyldra verka á námstímanum, til sjóróðra o. fl. Afleiðingin hefir þá orðið sú, að þeir hafa ekki getað lært iðnina svo vel sem skyldi. Einnig er ætlazt til þess, að atvmrn. setji með reglugerð ákvæði um lágmark bóklegs náms fyrir iðnina, því þeim er nauðsynlegt að fá vissan forða af bóklegri þekkingu eins og verklegri, og þá menntun geta þeir fengið í iðnskólum kaupstaðanna.

Fimmta aðalbreyt. frv. er sú, að aldurslágmark iðnnema er hækkað um 1 ár, úr 15 árum í 16. Er þetta gert bæði með tilliti til þess, að 13 ára unglingar eru margir hverjir það óharðnaðir, að það getur orðið þeim ofraun að stunda alla iðnaðarvinnu svo ungir, og eins er þetta aldurslágmark miðað við það, að hægt sé fyrir unglinga að stunda nám í tvo vetur í héraðsskólum eða gagnfræðaskólum, að afloknu barnaskólanámi.

Þá er í frv. ákvæði um, að fulltrúar sveina- og meistarafélaga á staðnum skuli undirrita námssamninga, sem iðnaðarmenn gera við nemendur sína. Þetta er nýmæli og miðar að því, að hvorttveggja þessara aðilja, félög sveina og meistara, hafi hemil á því, að ekki séu of margir teknir í hverja iðngrein og að þau samningskjör, sem samkomulag verður um, fullnægi þeim skilyrðum, er iðnfélög á staðnum kunna að koma sér saman um.

Meistarar einir mega eftir frv. taka iðnnema; nú er það svo, að í kaupstöðum mega engir aðrir en þeir taka iðnnema, en utan kaupstaða dugir til þess iðnbréf. Þetta þótti sjálfsagt að leiðrétta. Enda nær það engri átt að gera upp á milli manna eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Að vísu er þess ekki krafizt, að forstöðumaður eða eigandi iðnfyrirtækis hafi meistararéttindi í iðninni, en þá skal fyrirtækið hafa í þjónustu sinni mann með meistararéttindum.

Sumarleyfi nemenda er ákveðið a. m. k. 12 virkir dagar, og má það ekki minna vera með tilliti til þess, að ýms iðnaðarvinna fer fram innanhúss, oft í óhollum og loftillum húsakynnum, enda mun þetta sumarfrí vera það stytzta, sem nokkrir námsmenn hafa.

Gert er ráð fyrir, að iðnnemar hafi staðizt lágmarkspróf í bóklegum fræðum, til þess að þeir geti fengið sveinsbréf, og skal ljúka því prófi í iðnskóla, sé hann til á staðnum, en ella hjá prófdómendum við hið verklega próf. Nú er í lögum gert ráð fyrir því, að meistarar kosti iðnnema í slíka skóla, en útkoman hefir orðið sú, að margir iðnnemendur hafa alls ekki í skóla komið.

Þá má að lokum nefna ýmsar smábreyt. t. d. að ef maður fellur við sveinspróf, þá má hann ekki ganga undir próf aftur fyrir en eftir hálft ár, og er það í samræmi við það, sem tíðkazt hefir. Ennfremur eru í frv. skýr ákvæði um það, að meistari hafi framfærsluskyldu við nemanda sinn að því er snertir slysa- eða sjúkdómstilfelli. Yfirleitt hefir þetta færzt í það horf í kaupstöðunum, að iðnnemar hafa orðið að sjá um sig sjálfir, og ef þeir hafa veikzt, þá hefir ekki verið til annara að leita um stuðning en framfærslusveitarinnar.

Úr lögunum er fellt ákvæði um, að nemandi geti krafizt skaðabóta af meistara sínum með málsókn, ef meistari hættir að reka iðn sína eða verður gjaldþrota o. s. frv.; um það skal fara eftir áliti gerðardóms. Slíkar skaðabótagreiðslur skulu vera forgangskröfur í bú viðkomandi meistara, eins og vinnulaunakröfur væru.

Þetta eru aðalbreytingarnar frá gildandi lögum, og miða þær allar að því að bæta kjör nemenda, svo að þeir læri iðn sína og fái meiri bóklega fræðslu en áður hefir tíðkazt. Við samningu frv. hefi ég stuðzt við till. Sambands ungra jafnaðarmanna, Iðnnemafélags Reykjavíkur, Félags járniðnaðarmanna í Reykjavík og margra fleiri. Ennfremur hefi ég borið það undir stjórn Landssambands iðnaðarmanna og stjórn iðnráðs Hafnarfjarðar, sem í aðalatriðum hafa lýst sig samþykka frv.

Legg ég til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og iðnn.