21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg) [óyfirl.]:

Meiri hl. iðnn. afgr. þetta mál frá sér á fyrri hl. þingsins og lagði þá áherzlu á að afgr. málið þá þegar, en minni hl. vildi fá frekari umsögn meistara og iðnrekenda um frv. Nú var það vitað þá, að halda átti iðnaðarþing í sumar, og því vildi hann bíða með afgreiðslu frv. til þess að geta lagt það fyrir þá ráðstefnu. Iðnaðarþingið var svo haldið á Akureyri í sumar. Þar var þetta mál rætt og samþ. nokkrar brtt. við það, og eru þær teknar upp óbreyttar í nál. minni hl. á þskj. 566.

Hv. frsm. meiri hl. hefir tjáð mér, að hann hafi í rauninni ekkert sérstakt að athuga við tvær hinar síðasttöldu brtt., þ. e. brtt. við 11. og 12. gr., og get ég því sleppt að mestu að minnast á þær, enda má telja, að þar sé um sáralitla breyt. að ræða. En í brtt. við 8. gr. felst nokkur lenging vinnutímans frá því, sem er í frv. 8. gr. frv. gerir ráð fyrir, að vinnutími iðnnema megi ekki fara fram úr 48 stundum á viku, en á iðnaðarþinginu á Akureyri var samþ.brtt., að vinnutíminn skyldi vera allt að 60 stundum á viku, þ. e. a. s. þann tíma ársins, sem iðnnemar stunda ekki bóklegt nám samtímis verklega náminu. Frá þessum tíma á þó að draga kaffihlé, 1/2 stund á dag. Jafnframt er það ákvæði sett, að starfstíminn megi ekki fara niður úr 1800 stundum á ári, nema lögmæt forföll, svo sem veikindi, hamli.

Þegar um þessi mál er að ræða, þá er það ákaflega mikilsvert, að iðnaðarmenn og iðnnemar geti komið sér saman, og er sjálfsagt að taka yfirgnæfandi tillit til sameiginlegra till. í þessu efni. En minni hl. hafði ástæðu til að ætla, að hér hafi verið lagt meira upp úr till. iðnnema en meistara, og þótti rétt að finna jafnvægi með því að gefa iðnþinginu tækifæri til að fjalla um málið, þar sem meistarar gátu einnig látið til sín heyra og borið fram sínar till.

Ég hirði svo ekki að fjölyrða um þessar till. frekar, en vísa að öðru leyti til þskj. 566, nál. minni hl., þar sem brtt. eru teknar upp nákvæmlega eins og iðnaðarþingið gekk frá þeim.