18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Páll Hermannsson):

Út af fyrri brtt. hv. 5. landsk. vil ég segja það, að ég geri ráð fyrir, að slíkt ákvæði, um að meistararnir leggi til námsbækur og áhöld, sé sett til þess að tryggja það, að iðnneminn fái þessi áhöld og hafi þau. Það er nú svo, að þetta eru fátækir unglingar, er fá litla þóknun fyrir starf sitt, og gæti því farið svo, að þá vantaði þessi námstæki, ef ekki væri séð fyrir því af meisturunum, enda má og á það líta, að vanalega er samið um þóknun til iðnnemans í byrjun, og mætti þá taka tillit m. a. til þessa ákvæðis laganna. Ég játa, að það gæti viljað til, að nemandi færi verr með áhöldin, ef hann fengi þau ókeypis til afnota, en það færi eftir því, hvernig hver og einn er gerður, og mundi í mörgum tilfellum vera alveg sama, því sá, sem er nýtinn og hirðusamur, færi vel með þau, hver sem teldist vera eigandi.

Um síðari brtt. lít ég þannig á, að hún geti ekki náð samþykki. Tryggingarlöggjöfin nær ekki yfir þetta atriði, t. d. um fæði og aðhjúkrun, sem veikir menn skulu fá. mér virðist líka, að ákvæðin eins og þau eru sett fram í 12 gr. frv. séu eðlileg, og blátt áfram ætlazt til líks og fram að þessu hefir verið ætlazt til af meisturunum. Það er gengið út frá, að komi slík veikindi fyrir, standi meistari straum af nemanda í 6 mán. Þetta hefir verið svo um þá nemendur, sem hafa búið hjá meisturum, en það þykir rétt, að þetta gangi jafnt yfir alla nemendur, hvort sem þeir búa hjá meisturum eða ekki. Væri hálfóviðkunnanlegt, að þessir menn yrðu að gerast þurfalingar, ef veikindi bæri að höndum.

Aftur á móti um slysa- og sjúkratryggingu er gert ráð fyrir, að meistari tryggi sína nemendur, og geri því ekki annað en greiða tryggingargjöld eða iðgjöld, og tryggi á þann veg sjálfan sig fyrir áhættunni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar brtt., en get lýst því yfir, að meiri hl. n. fellst ekki á þær.