07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1936

Páll Þorbjörnsson [óyfirl.]:

Ég á eina brtt., XII, á þskj. 727, sem fer fram á það, að úr ríkissjóði verði veitt allhá upphæð á næsta ári til Vestmannaeyjahafnar. Hér er um að ræða 80000 kr. viðbót við till. fjárlfrv., svo ég get ekki notað sömu meðmæli og sumir aðrir hv. þm. með sínum brtt., að þetta sé lág upphæð.

Ég vil leyfa mér með nokkrum orðum að reyna að gera það ljóst, hve mikil nauðsyn er a, að Alþingi verði við þessari beiðni. Í fjárlfrv. ríkisstj. er gert ráð fyrir 15000 kr. til dýpkunar Vestmannaeyjahafnar, og á það að vera síðasta greiðsla af mörgum frá ríkissjóði til hafnarinnar upp í þau loforð, sem áður hafa verið gefin um framlag til hafnarinnar. Nokkuð af framlagi ríkissjóðs, sem í allt er orðið á annað hundr. þús. kr., var í fyrra notað til þess að greiða andvirði dýpkunarskips, sem keypt var þá fyrir höfnina. Það hafði lengi verið áhugamál Vestmannaeyinga að eiga sitt eigið dýpkunarskip, til þess að vinna verkið ódýrara. Vestmannaeyingum hefir ekki blandazt hugur um það, að með því að fá erlent skip til þess að dýpka höfnina, þá mundi það verða miklu dýrara heldur en ef kaupstaðurinn ætti sitt eigið skip, sem auk vestmannaeyjahafnar gæti unnið við aðrar hafnir hér við land. Þessi hugmynd sætti nokkrum misskilningi hjá valdhöfunum, og hinni fyrstu beiðni Vestmannaeyinga til ráðh. var neitað, en þegar núv. stj. tók við völdum, brást atvmrh. vel við beiðni þeirra og skipið kom til Vestmannaeyja í maí síðastl. og kostaði á annað hundrað þús. kr. Þessu skipi er ætlað að vinna þannig, að dæla sandi úr botni hafnarinnar og spýta honum upp á land. Nú gefur að skilja, þar sem mikil þörf er fyrir uppfyllingu og hafskipabryggju við höfnina, að mjög æskilegt væri að nota þennan sand til uppfyllingar. Þegar skipið kom, var ekki fé fyrir hendi til þess að nota uppmoksturinn, en hinsvegar var talið, að óforsvaranlegt væri að láta skilið standa ónotað. var því byrjað að vinna þannig, að skipið var látið dæla sandinum ýmist upp á land eða út fyrir hafnargarðinn. Það. sem sett var á land, var látið svo hátt, að sjór nær ekki til þess, en það, sem dælt var af sandinum út fyrir hafnargarðinn, má gera ráð fyrir, að berist inn í höfnina aftur að nokkru leyti. Af þessu er ljóst, að ekki er hægt að vinna þannig til lengdar.

Fyrir nokkrum árum var byrjað á byggingu hafskipabryggju í Vestmannaeyjum, en þó er nú svo ástatt, að komið getur fyrir, að skip, sem koma með farm þangað, verði oft að bíða jafnvel 2–3 vikur án þess að geta lagzt við bryggjuna. Af þessu leiðir, að farmgjöld til Vestmannaeyja eru hærri en nokkursstaðar á landinu. Þegar hafskipabryggjan var byggð, var svo lítið fé fyrir hendi, að hluta af bryggjunni varð að byggja aðeins sem bráðabirgðabyggingu, og hefir sá hluti laskazt svo á síðustu 3–4 árum. að ti1 stórvandræða horfir. Er óhætt að fullyrða, að svo miklar skemmdir eru þegar orðnar á bryggjunni, að ekki er ástæðulaust að áætla að hún eyðileggist til muna mjög bráðlega, ef hún er ekki endurbætt eða gerð til fulls. Nú er uppi Sú hugmynd, að vinna tvennt í einu, — annarsvegar að endurbæta og fullgera bryggjuna og hinsvegar að dýpka höfnina og nota uppgröftinn til þess að fylla upp bryggjuna, en til þess þarf allmikið útlent efni, sem mun nema frá 90–100 þús. kr., og það þarf að koma á næsta ári. Þetta er efni í veggi bryggjunnar, svokallaðar stálskúffur, sem reknar eru niður og látnar mynda bryggjuveggina. Það er áætlað, að til þessa verks þurfi að verja á næsta ári um 300 þús. kr., en af því verður útlent efni ekki nema um 90 þús. kr. virði. Með þessum framkvæmdum er girt fyrir það, að mannvirki verði ónýtt, og í annan stað að betra og dýpra hafnarpláss og skipalagi fáist, ennfremur betra bryggjupláss. Vestmannaeyingar hafa sent Alþingi ósk um 80 þús. kr. framlag úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, en fjvn. hefir ekki tekið í sínum tili. þessa beiðni til greina. Fyrir því flyt ég nú brtt. um að hækka fjárveitingu til Vestmannaeyjahafnar úr 10 þús. kr. í 95 þús. kr., og vil ég vænta þess, að sú málaleitun fái góðar undirtektir á Alþingi. Ég vil sérstaklega benda á það, að þetta er stærsta verstöð á landinu. Þaðan sækja sjóinn á hverri vertið frá 90–100 bátar. Verði ekki hægt að halda við eða bæta bryggjuna, má búast við, að útgerðin eigi brátt við þá afarkosti að búa, að ekki verði hægt að halda henni áfram.