05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

142. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Jóhann Jósefsson:

Ég vil fyrir hönd okkar flm. frv. þakka hv. menntmn. fyrir góða og fljóta afgreiðslu á þessu máli, og þó einkum og sér í lagi þau sterku og eindregnu meðmæli, sem hv. frsm. n. hefir borið fram með frv. Hefi ég engu þar við að bæta öðru en því, að ég óska þess, að hv. d. taki til greina þau rök og þær óskir, sem hv. frsm. bar fram þessu máli til handa.

Að því er snertir brtt. hv. 2. þm. Árn., þá sé ég ekki ástæðu til þess að leggjast á móti þeim, hvorri sem er, og það sérstaklega eftir að hafa heyrt hans eigin skýringu á brtt. undir staflið a., þar sem hv. flm. skýrir það, sem mér var ekki ljóst fyrst, er ég las brtt. Í stað þess, sem í frv. er ákveðið, að kennslan, sem kemur í endurgjald fyrir þá vinnu, sem af hendi er leyst, komi þegar á næsta vetri í 6 mánaða tíma, þá ætlast hv. flm. brtt. á þskj. 465 til, að hlutaðeigandi nemandi hafi óbundnar hendur um, á hverju af næstu 4 árum hann noti sér þessa kennslu. Sem sagt, ég sé ekki neina ástæðu til að vera á móti þessu og greiði því atkv. með brtt. Þó skal ég geta þess, að hér tala ég ekki nema fyrir mig einan af flm., því að ég hefi ekki haft tíma til að minnast á brtt. við þá, því að hún er svo nýkomin fram.

Önnur brtt. á þskj. 465, sem er merkt b, fjallar um 2. málsgr. 1. gr., og virðist mér hún eiga líka talsvert til síns máls og að réttara sé, að undanþágan gildi um þá, er tekið hafa próf í héraðsskóla, hvort sem hann er í sýslu, þar sem skylduvinna er innleidd, eða hann er utan þeirrar sýslu. Ég get mér þess til, að það hafi kannske legið til grundvallar þessu orðalagi hjá höfundi þessa frv., að í þeirri sýslu, sem hann hefir sérstaklega fyrir augum, að þetta skólafyrirkomulag verði hafið fyrst, er enginn slíkur héraðsskóli, og að honum hafi orðið starsýnt á héraðsskóla nágrannasýslunnar, og e. t. v. að orðalagið af þessum ástæðum hafi fallið á þennan veg.

Ég verð að segja, að ég fellst á röksemdir hv. flm. brtt. á þskj. 465, og ég hygg, að ég hafi skilið þær rétt og sé því ekki ástæðu til að mæla á móti því, að brtt. verði samþ. Ég held, að svo sé ekki ástæða til, ef ekki gefast ný tilefni, að lengja þessar umr., og vona ég, eins og allir velunnarar þessa máls, að það fái greiðan gang í gegnum þessa hv. d.