05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

40. mál, iðnaðarnám

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi enga hvöt til þess að fara að bera blak af hæstv. forseta fyrir árásum hv. þm. G.-K., nema að því leyti, sem þær árásir ná einnig til mín. Ég veit, að hæstv. forseti er sjálfur fullkomlega fær um að standa fyrir sínu máli.

Ég lagði enga áherzlu á það, að mér þætti nál. ekki vel orðað; ég benti að vísu á, að mér þætti það nokkuð stutt og að ágreiningur milli einstakra nm. um einstök atriði frv. mundi vera svo lítill, að n. hefði líklega getað sameinað sig um brtt. við frv., ef hún hefði reynt það. Það kemur oft fyrir, að n. geta ekki orðið sammála um hin stærri atriði mála, þó þær séu óskiptar um nál., og er þá sjálfsagt, að einstakir nm. gefi til kynna, að þeir ætli að flytja brtt. við málin. Hitt lagði ég áherzlu á, að flm. frv. - og ég hygg, að hv. þm. G.-K. hafi einhverntíma verið í þeirra hóp, ef mig minnir rétt. (ÓTh: Nei). Jæja, hann er þá meiri maður en ég hélt. (ÓTh: Ég er stuðningsmaður frv.). En ég deildi á flm. frv. fyrr og nú fyrir að hafa gerzt flm. þess án þess að hafa nokkurn áhuga fyrir málinu, þó þeir ekki vændu höfund frv. um að beita sér fyrir málinu gegn betri vitund eða í eiginhagsmunaskyni. Það er nú svo um þessar hugsjónir, að þær eru ekki allar framkvæmanlegar, og um sumar þeirra má segja, að bezt væri, að þær yrðu aldrei framkvæmdar.

Hv. þm. G.-K. talaði um, að aðfinnslur okkar við frv. væru broslegar. En úr því hann skilur hugsjónirnar, má ég þá spyrja hann, í hverju þær felast. Ekki felast þær í því, að hér á að koma upp skólum. (ÓTh: Er hv. þm. blindur á hugsjónir?). Nei, ég ætla að vita, hvort hv. þm. G.-K. er ekki litblindur á hugsjónir. Eru hugsjónirnar fólgnar í því, að nemendurnir vinni fyrir skólakostnaðinum? Eða eru þær fólgnar í því, að ríkið byggi skólana? Nei, hvorttveggja á sér þegar stað. Ég sé ekki annað í þessu frv. en lítilfjörlegar tilfærslur á gjöldum frá því, sem er í gildandi l. um héraðsskóla. Það er létt af sýslufélögunum kostnaði við byggingu skólahúsanna. Aftur fá þau eða skólarnir greiðslu fyrir vinnu nemendanna. Hinsvegar missa þeir af skólagjöldunum ca. 100 kr. fyrir hvern nemanda, sem mun fyllilega vega á móti vöxtum af því fé, sem sýslufélög þurfa að leggja til stofnunar héraðsskólanna eftir gildandi l. Ég hefi átt tal við höfund þessa frv., Björgvin Vigfússon, og mér hefir skilizt hann leggja mest upp úr góðum áhrifum af því fyrir nemendurna að fá að vinna fyrir skólaverunni. Þar kemur raunar það sama fram og í gömlu þegnskylduvinnuhugmyndinni. Ég væri kannske ekki alveg ófáanlegur til þess að vera með þegnskylduvinnu í einhverri mynd, en ég vil ekki, að sú þegnskylda gildi aðeins fyrir eitt hérað, heldur allt landið í heild. mér þætti það mjög æskilegt, úr því hv. þm. G.-K. hefir tekið sér fyrir hendur að ráðast á okkur hæstv. forseta fyrir að sjá ekki hugsjónirnar í þessu máli, að hann skýri það, í hverju þær eru fólgnar og hvað við vinnum með því að samþ. þetta frv., miðað við þá löggjöf, sem við höfum. Ég hefi ekki getað sannfærzt um það, hvorki af þeim grg., er frv. hafa fylgt, eða af þeim ritlingi, sem útbýtt hefir verið um það, að ástæða væri til þess að eyða dýrmætum tíma þingsins vegna þessa máls. Maður má ekki alténd taka það svo alvarlega, þó jafnvel ágætir menn beri eitthvað mjög fyrir brjósti, meira að segja þó það sé orðið þeim nokkurskonar trúarjátning. Slíkt hefir oft hent góða menn, og aðrir ekki getað orðið þeim sammála. Ég minnist þess, að fyrir nokkru síðan barst þingmönnum bæklingur frá manni, sem taldi sig vera frelsara mannkynsins. Ég er hissa á því, að hv. þm. G.-K. skyldi þá ekki taka því alvarlega, að þessi maður ætlaði að frelsa allt mannkynið. Það væri þó ólíkt mikilsverðara heldur en þó eitt lítið sýslufélag á Íslandi frelsaðist. (ÓTh: Ég tel þennan hv. þm. frelsaðan). Það er sýnilegt, að enginn maður á þingi hefir áhuga fyrir þessu máli eða trú á því, og ekki einu sinni hv. um. G.-K., því hann hefir aldrei verið flm. þess, - eða hugsar hann aldrei um þau mál, sem mestu skipta fyrir landið?