07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1936

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég hafði tæplega búizt við því að taka til máls við þessa umr., en vegna þess að hér er fram komin till., sem snertir mitt kjördæmi, þá vil ég taka undir þau ummæli, sem með henni hafa verið flutt, og um leið nota tækifærið til þess að skýra ofurlítið betur fyrir þinginu þau rök, sem liggja að þessu máli, heldur en fram kom í ræðu hv. 3. landsk. Um nauðsynina á því að koma stórskipabryggjunni í Vestmannaeyjum í forsvaranlegt stand þarf ekki að fjölyrða fram yfir það, sem hv. 3. landsk. gerði. Ég tók ekki eftir, að þar væri farið með neitt rangt í því efni, en það mætti e. t. v. eitthvað fleira um það segja, eins og t. d. það, að í sambandi við hina miklu erfiðleika á því að koma skipum inn í höfnina munu flutningsgjöldin þar vera nær helmingi hærri en í Reykjavík.

En það er dálítið annað í þessu máli, sem ég vildi gjarnan upplýsa, úr því þessi till. er þegar fram komin. Ég bjóst tæplega við því, að hún mundi koma fram við þessa umr., en úr því svo er, þá vil ég geta þess, að sú samþykkt, sem liggur til grundvallar fyrir því, að þessi till. er fram komin, er gerð í hafnarnefnd Vestmannaeyja 3. febr. síðastl., og var mér — og að ég held hv. 3. landsk. — sent afrit af þeirri fundargerð, og 11. marz sendi ég hv. fjvn. svo hljóðandi bréf:

„Jafnframt því að senda hinni hv. fjvn. afrit af bréfum bæjarstjórans í Vestmannaeyjum frá 16. febr. og 1. marz s. l., sem og afrit af útskrift úr gerðabók hafnarnefndar Vestmannaeyjakaupstaðar, leyfi ég mér hér með virðingarfyllst að fara þess á leit, að hin hv. fjvn. taki upp í fjárl. fyrir árið 1936: a) 80 þús. kr. styrk til framhalds hafnarbyggingar í Vestmannaeyjum, b) heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast allt að 93 þús. kr. lán, er tekið kann að vera til efniskaupa við framhald byggingu greindrar hafnar.

Um rökstuðning fyrir þeirri nauðsyn, er hér liggur fyrir, vísast fyrst og fremst til meðfylgjandi skjala, sem tilgreind eru hér að ofan, en óski n. frekari upplýsinga í þessu efni, þá er ég fús til að láta þær í té, og leyfi mér að öðru leyti að vanta þess, að hún veiti mér viðtal um þessi mál áður en hún afgreiðir þau til fullnustu.“

Samkv. þessum tilmælum mínum fékk ég svo viðtal við fjvn. fyrir eitthvað hálfri annari viku síðan, og það var í samráði við formann þeirrar n., að ákveðið var, að freista þess að eiga tal við ríkisstj. um þessi mál. Og það var í samráði við hv. 3. landsk., að ég, sökum þess hvað hér er þýðingarmikið mál á ferðinni fyrir Vestmannaeyjar, fór þess á leit við bæjarstjórann í Vestmannaeyjum, Jóhann Gunnar Ólafsson, að hann kæmi hingað ásamt einum hafnarnefndarmanni, sem vel væri kunnugur þessu máli, til þess að ræða málið við hæstv. ríkisstj. ásamt mér og hv. 3. landsk. Þeir eru nú staddir hér, bæjarstjórinn, Jóhann Gunnar Ólafsson, og hafnarnefndarmaðurinn, Ólafur Auðunsson, sem fylgzt hefir með þessum málum fjöldamörg ár. Í fyrradag fór svo fram viðtal við hæstv. atvmrh. og fjmrh. um þessi mál, og ég verð að segja það, að ég fór af þeim fundi með þeirri fullvissu, að ráðh. skildu, hvað hér var um að ræða, og væru þess viljugir að greiða úr þessum málum eftir megni. En þeir fóru fram á það báðir, sérstaklega hæstv. atvmrh., að við létum frekari aðgerðir bíða til þess er fjárl. kæmu til 3. umr. og notuðum tímann til þess að leita fyrir okkur um lán, sem styddist við ákvæði, er kæmi inn í fjárl. um framlög ríkis til hafnarbygginga, sem dreifðust á nokkur ár. — Það var af þessum ástæðum, sem ég ákvað að hreyfa ekki þessu máli við þessa umr., en nú sé ég mér til mikillar ánægju, að hv. 3. landsk. hefir lagt fram brtt. um það að fá 80 þús. kr. viðbót við þær 13 þús., sem fyrir eru í fjárl. til þessa nauðsynlega mannvirkis. Eftir því sem fyrir liggur er ég hæstánægður með þessa lausa á málinu í bili, og þar sem vitanlegt er, að hv. 3. landsk. er stuðningsmaður stj. og í nánu samstarfi við hæstv. atvmrh., þá geng ég út frá því sem vísu, að þessi till. sé flutt í samráði við ríkisstj., og það tel ég hina æskilegustu lausn á málinu eins og nú horfir við. Ég vona því, að hv. d. vilji ljá þessari till. liðsinni sitt til þess að hún nái fram að ganga.

Ég vildi þá aðeins minnast á það hér um leið, að mér er sagt út af öðru erindi mínu til fjvn., viðvíkjandi ræktunarvegi í Vestmannaeyjum, að samkomulag hafi orðið um það mál. Ég lít því á það sem vangá, að ekki liggur frammi till. frá fjvn. til styrktar ræktunarveginum og vona, að það sé rétt, sem nm. hafa sagt mér, að það sé ákveðið, að hún komi við 3. umr.