12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

40. mál, iðnaðarnám

Jörundur Brynjólfsson:

Við 2. umr. lét ég orð falla nokkur ummæli til andstöðu við þetta mál. Eftir að ég hafði lokið ræðutíma mínum, gengu nokkrir hv. dm. í skrokk á mér. Fannst þeim óþarfi af mér að tala í þessu máli, töldu það ekki vera í mínum verkahring og kölluðu það illa varið tíma þingsins. Ég skal játa það hreinskilnislega, að ég mundi ekki hafa tekið til máls, hefði mér ekki sýnzt, sem málið ætti að senda til Ed. þegjandi og hljóðalaust.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ég hefði ekki átt annað erindi upp á ræðupallinn í þessu máli en það, að óvirða þann mann, sem borið hafði málið fyrir brjósti. Þetta kalla ég furðuleg ummæli hjá hv. þm. Til þess að fyrirbyggja misskilning, tók ég það fram strax, að ég ætlaði mér síður en svo að gera hugsjónir þessa höfundar málsins að umtalsefni. Ég vildi aðeins benda á nokkur atriði, sem sýndu, að þetta mál ætti ekkert erindi til okkar.

Af því að þannig féllu til mín orð hjá hv. þm. G.-K., að ég hefði gert lítið úr höf. þessa frv., skal ég taka fram, að ég reyndi að haga orðum mínum svo, að segja sem minnst um þau atriði frv., sem áfátt er af hálfu höfundar, vildi ég ógjarnan lengja umr. að óþörfu, og ég vona, að hv. dm., og þar með talinn hv. þm. G.-R., geti ekki borið það, að ég geri svo mjög oft að því. Getur að vísu vel verið, að ég eigi einhverja sök, en þá held ég, að sumum öðrum hv. dm. verði hætt.

Ég hefi eiginlega fáu að svara, en skal víkja að hv. þm. V.-Sk., sem mér fannst gera ráð fyrir, að af því ég hefði verið í ungmennafél. mundi ég hafa fylgt þegnskylduvinnuhugmyndinni. vissulega er þetta á annan hátt, og er ekki sambærilegt; hér er aðeins að ræða um fyrirkomulag, er snertir bæjar- og sveitarfélög, en ekki landið allt. Annars get ég upplýst það, þó ekki komi þessu máli við, að ég talaði gegn þegnskylduvinnufrv. hér í Rvík, þegar það kom fyrst fram. En ég vil minna hv. þm. V.-Sk. á það, sem var mjög nákominn vinur þess manns, er bar það frv. fram, að hann var ekki með frv., og datt engum í hug að álykta þrátt fyrir vináttuna, að hann væri því fylgjandi.

Þá kom það fram hjá einum hv. þm. hér áðan, að þetta væri hugsjónamál eins manns, og þess vegna bæri þinginu að samþ. frv. Þetta eru engin rök. Ég hefi aldrei efazt um, að hv. höf., Björgvini Vigfússyni, væri þetta hugsjón. En hinsvegar er það ofboð einfalt mál að leyfa aldrei, að það rætist, og það mun margur verða að sætta sig við um sínar hugsjónir. En um orð þessa hv. þm. er það að segja, að þau get ég ekki fallizt á, enda hæpið að halda því fram. að frv. eigi að samþ. eingöngu af því, að það er hugsjón einstakra manna. Við getum tekið dæmi t. d. frá Þýzkalandi. Ég efast ekki um, að ýmsum stórmennum þar er það hugsjón að uppræta kaþólska trú, en það efast ég ekki um, að fjöldi Þjóðverja er á móti aðferð Rosenbergs og afneita henni. Ég er neyddur til að taka það fram, vegna þess að mér hefir verið brugðið um, að ég væri að ráðast á hugsjón þess manns, sem er höf. þessa frv., að ég veit, að þessi maður hefir trú á málinu. En við skulum virða fyrir okkur þetta skólafyrirkomulag, sem höf. hefir ekki trú á, að verði framkvæmt nema samþ. verði slík löggjöf. Þá hefir hann auðvitað trú á að þetta komist upp. En hver er grundvöllurinn? Hann er sá, að héruð eða kaupstaðir eins og hv. þm. N.-Þ. hefir réttilega bent á, að þyrftu þess engu síður - komi á hjá sér skylduvinnu eftir nánari ákvæðum, sem fram eru tekin í frv. Og hlunnindin fyrir 7 vikna skylduvinnu er skólavist - frítt húsnæði og kennsla - næsta vetur. Lengra nær það nú ekki, því ef viðkomandi getur ekki sinnt því næsta vetur að dvelja í skólanum, þá er ekki eftir frv. að því er séð verður ætlazt til, að hann njóti neinna hlunninda síðar. Þó skyldi maður ætla, að frv. gerði ráð fyrir skólaskyldu, er nemendur ættu að inna af hendi, en svo er alls ekki: skólaskylda er engin, en vinnan er skylda. Að það sé hagkvæmt fyrir sýslu- eða bæjarfélagið að fá ódýra vinnu til að koma fram umbótum, það efast ég ekki um og dettur ekki í hug að neita. Nú væri hægt að ætla, að vinna sú, er vekti fyrir höf., væri áður óþekkt í landinu, en svo er ekki. Fyrir honum vakir vegavinna, garðrækt, plæging og ýmiskonar jarðrækt; yfirleitt venjuleg vinna í þessu landi, algeng vinna, sem nú er stjórnað af góðum mönnum, þeim beztu sem völ er á í þann starfa. Ég efast því um, að aðrir mundu stjórna þessu betur en þeir, er nú inna verkstjórn af höndum við þessa vinnu. Þá er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að ef einhver hindrar annan frá því að mæta til skylduvinnunnar, skuli hann sæta refsingu. En þó nemandi sé hindraður af einhverjum frá því að mæta í skóla næsta vetur, er ekki gert ráð fyrir neinni refsingu honum til handa. Þá er síður en svo, að ætlazt sé til, að þetta nái til allra unglinga á aldrinum 16—18 ára í þeim héruðum, er þó kynnu að samþ. þetta fyrirkomulag, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að unglingarnir eigi að hafa sjálfir neinn atkvæðisrétt um, þó þeir séu fyllilega komnir til vits og ára og þessi ákvörðun snertir þá fyrst og fremst. Ef nemandi hefir gengið í vissa tiltekna skóla áður, þá er hann undanþeginn skylduvinnunni. Eftir þeirri oftrú, sem hv. höf. virðist hafa á þessu skólafyrirkomulagi, þá hefði það átt að vera vilji hans að gera þessa skyldu almenna fyrir alla. En undanteknir eru þeir, sem hafa gengið í héraðsskóla annarsstaðar, gagnfræða- eða menntaskóla. En nemendur úr öðrum skólum, eins og t. d. vélstjóraskóla, verzlunarskóla, iðnskóla eða búnaðarskóla, þeir eru skyldir að hlíta þessum kvöðum, eða a. m. k. er engin undanþága gerð um þá í frv. þessu. Er þó nám í þessum skólum sízt minna virði, og m. a. gerir höf. ráð fyrir, að þeir, sem stjórni þessum verkum, eigi að vera búfróðir menn.

Þá gerir höf. og ráð fyrir, að heimilt skuli að stofna skóla fyrir stúlkur á sama aldri, þó ekki fyrr en reynsla sé fengin um piltaskólana. Nú skulum við segja, að þeir gefist vel, og skóli sé settur fyrir stúlkur með þessu fyrirkomulagi, sömu skyldum og réttindum, þá eru heldur ekki undan þegnar skylduvinnu þær stúlkur, sem hafa sótt t. d. verzlunarskóla, kvennaskóla eða húsmæðraskóla, sem maður skyldi þó ætla, að hefði mátt, heldur nær undanþágan yfir sömu skóla og fyrir piltana. Og hvað er þeim svo ætlað að læra? Prjóna, sauma, tæja og líklega taka ofan af eða yfirleitt tóskapar- og heimilisstörf, sem nú eru almennt unnin eftir því sem við verður komið, á flestum sveitaheimilum landsins.

Af því, sem ég hefi stuttlega drepið á, verður ljóst, að það, sem fyrst og fremst vakir fyrir höf. frv., er skylduvinnan, en ekki lögð nein áherzla á málið sjálft eða að nemendur njóti þess.

Eins og ég vék að áðan, efast ég ekki um, að höf. gengur gott eitt til., en maður hefir ekki aðeins rétt, heldur líka skyldu til að lita á allar hliðar þessa máls.

Höf. hefir trú á því, að uppskera unglinganna af þessari skylduvinnu verði hverskonar dyggðir, og í stað léti, ómennsku, óráðvendni og annara ókosta verði þeim ekki aðeins útrýmt, heldur líka vaxi upp nýjar dyggðir, eins og árvekni trúmennska, skyldurækni, hlýðni og hverskonar manndyggðir. Og allar þessar dyggðir á fólkið að öðlast fyrst og fremst fyrir það, að vinna í 7 vikur að ýmsum daglegum störfum, sem allur þorri þessara unglinga vinnur nú um land allt, ekki aðeins í 7 vikur, heldur líka mikinn hluta sumars og ár eftir ár.

Ég verð að segja það, ef nokkur von væri um, að þetta frv. bæri þann árangur, sem höf. þess ætlast til, þá ættu þetta ekki að verða heimildarlög, heldur blátt áfram skylda á herðar héruðum að koma upp slíku skólafyrirkomulagi.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, og ekki ræða um þær brtt., sem hér liggja fyrir og margar eru til bóta. En ég vil benda á, að í rauninni nær það engri átt að afgr. svo þetta frv., að ekki sé athugað um fyrirkomulag á bóklegu kennslunni eins og þeirri verklegu, en eins og frv. er nú, er það algerlega ómótað. Það er vitaskuld aukaatriði, hvernig skólabyggingar skuli afhenda o. s. frv., en hitt er ekki aukaatriði, hvernig verður byggt. Ég vonast til, að hv. d. beri gæfu til að samþ. þær brtt., sem eru til bóta, en vitanlega, ef mönnum er alvara um að þetta verði framkvæmt, þarf að undirbúa málið betur. Menningarmál þjóðarinnar eru það mikilvæg, að ég er hissa, ef hv. dm. halda, að hér sé um smámál að ræða; þó við höfum komið upp alþýðuskólum, þá er ekki svo, að ekki megi betur fara enn, en til þess skortir okkur nú getu og aðstöðu. En hugmynd höf. er að mínum dómi allsendis ófullnægjandi til að koma lagi á þessi mál.

Ummæli mín byggjast í máli þessu aðeins á þeirri umhyggju, sem ég ber fyrir menningarmálum þjóðarinnar, en til höf. frv. hefi ég ekki annað en gott eitt að segja.

Ég mun svo ekki taka oftar til máls, þó einhver kunni að segja eitthvað til mín út af ummælum þessum, þá læt ég mig það engu skipta.