18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er nokkuð langt síðan þetta frv. kom fyrst fram. Það hefir nú legið fyrir menntamn. þessarar hv. d., og hún hefir skilað áliti á því, að nokkru leyti í tvennu lagi, þar sem minni hl. er með brtt. Mér fannst samt, þegar n. sat á fundi um þetta mál, að það væri sameiginlegt álit nm., að hugmynd sú, sem fólgin er í frv., ætti mikinn rétt á sér. Með því að gert er ráð fyrir, að ungir menn taki að sér störf fyrir sýslu- eða bæjarfélag sitt kauplaust, en eiga svo að uppskera launin á sínum tíma með því að fá ókeypis skólavist, þá má segja, að dálítil kvöð sé lögð á þá. En við mennirnir erum nú einu sinni svo gerðir, að okkur þykir vænna um þá hluti, sem við höfum eitthvað fyrir, heldur en þá, sem koma svo að segja upp í hendurnar á okkur fyrirhafnarlaust eða fyrirhafnarlítið. Sérstaklega á þetta við um ungt fólk og duglegt. Það er ekki lítilsvirði, ef hugmynd frv., þegar hún kemur í framkvæmd, gæti orðið til þess að efla hjá ungu, íslenzku fólki rækt til átthaga sinna eða sveitar þeirrar, sem það er borið og barnfætt í. Ég hygg að ræktin til átthaganna myndi vaxa, þegar ungu fólki gefst kostur á að starfa gegn skólaréttindum að þeim störfum, sem að dómi héraðsbúa eru þörf og nauðsynleg fyrir héraðið. Ég held, að það megi til sanns vegar færa, að það, sem Íslendingar þurfa að hlúa einna mest að, þar sem alltaf er verið að kvarta um los á fólkinu og þann fólksstraum, sem átt hefir sér stað til kaupstaðanna, er að festa huga fólksins við eitthvað, sem bundið gæti einstaklinga við átthaga sína. Ég held, að sá, sem búinn er að vinna eitthvað fyrir sveit sína, sé tengdur henni sterkari böndum en sá, sem ekkert hefir fyrir hana gert. Mér finnst, að þessi hugmynd felist á bak við frv., og hún er alltaf þess virði, að að henni sé hlynnt. Aftur hafa heyrzt einstaka raddir um það, að þetta fyrirkomulag hefði í för með sér nokkurskonar þvingunarráðstafanir, sem ungt fólk muni ekki vilja gangast undir. En þegar þetta er borið saman við frv., þá sé ég ekki, að það þurfi að óttast þetta mikið, þar sem aðeins er um heimild að ræða í frv. fyrir sýslu- og bæjarfélög til þess að taka þetta skólafyrirkomulag upp, og sú heimild takmarkast af atkvgr., þeirra, sem eiga við fyrirkomulagið að búa, og það verður aldrei reynt nema mikill hluti kjósenda komi sér saman um það. Ég held því, að út frá þessu sjónarmiði sé það alveg hættulaust að samþ. þetta frv. En frá hinu sjónarmiðinu er það fullkomlega þess virði, að það sé reynt. Setjum svo, að þetta fyrirkomulag gæti skapað þann hugsunarhátt hjá ungu fólki, að það yndi betur hag sínum heima í sveit sinni, þá er það heillavænlegt spor, sem stigið er með því að samþ. frv. Það er mörgum áhyggjuefni, að svo virðist, sem kjarni þjóðarinnar, sem talið hefir verið, að sé í sveitunum, sé nú að flytja sig úr stað, af því að hann uni ekki hlutskipti sínu og kringumstæðum. Þetta verður að teljast skaðlegt. ef það hefir verið réttmæti - en það álita margir -, að sveitafólkið sé kjarni þjóðarinnar.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um frv. að sinni, heldur heyra fyrst, hvað hv. þm. S.Þ. hefir að segja um brtt. sínar. Ég vona hinsvegar, að hv. d. verði mér sammála um, að það sé engin hætta á ferðum, þó að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir, sem sem annarsvegar er aðeins um heimild að ræða, sem hinsvegar er takmörkuð af atkvgr. þeirra, sem eiga í hlut. Það má vel vera, að þrátt fyrir það, þó að aðrir skólar séu frjálsari, þá séu margir svo settir eða þannig gerðir, að þeir vilji heldur fara þessa leið en hinar venjulegu leiðir. Ég hygg því, að þeir muni verða margir, sem vilji fara þessa leið. Ég hefi orðið þess vör, að með vaxandi ungmennafélagastarfsemi hefir viðhorfið í þessu efni dálítið breytzt. Ég hygg, að ungmennafélögin séu líkleg til þess að taka upp svona mál.

Ég ætla svo ekki að ræða það meira að sinni, en sjá til, hvað hv. þm. S.-Þ. hefir að segja.