09.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1936

Eiríkur Einarsson:

ég á eina brtt. á þskj. 727, þá XL í röðinni, sem lýtur að auknum útgjöldum til verklegra framkvæmda, og nemur sú aukning aðeins 1500 kr. og er því hófleg, þar sem mikla nauðsyn ber til vegarins um Gnúpverjahrepp. Er farið fram á, að greiðslan hækki úr 5000 kr. í 6500 kr.

Eins og hv. þm. er kunnugt, skiptast leiðir í Hrunamanna- og Gnúpverjahrepp við Sandlæk, og liggur þaðan sín þjóðvegarálman í hvorn hreppanna, sem eru fremur strjálbýlar fjallasveitir og erfitt um flutninga, sökum vegalengda og ónógra flutningabrauta, svo nauðsyn er úr að bæta.

Hv. fjvn. hækkaði fjárframlagið til Hrunamannahrepps úr 3 þús., sem voru í fjárlfrv., í 8 þús. kr. Gleður mig að sjá, hve hún hefir þarna haft glöggan skilning á þörfinni í þeim hreppi. hér er um að ræða fólksfleiri sveit og stærri, og þar sem þjóðvegurinn er þar ákveðinn á sveitarenda, allt að Brúarhlöðum, er því sízt ósanngjarnt, heldur fyllsta sanngirni, sem mælti með því, að þetta fjárframlag væri hækkað, svo sem gert hefir verið.

Hinsvegar hefir hv. fjvn. ekki þóknazt að breyta tillagi til Gnúpverjahrepps. Er þessi brtt. mín hóflega stíluð; þar er um minni sveit að ræða og fámennari, enda farið fram á minni hækkun en til Hrunamannahrepps. Hefi ég þar reynt að gæta sanngjarnra hlutfalla. Gnúpverjahreppsbændum er mjög nauðsynlegt að fá meira á næsta ári en þessi áætluðu 3 þús., því að nál. helmingur þess fjár mun nú þegar vera notaður til vegabótanna. En til þess að gera sæmilega akfæran veg upp í miðja sveitina, er alveg lágmarkið 6–7 þús. kr. fjárveiting.

Þá má og geta þess, að leiðin upp í Þjórsárdal liggur einmitt þarna, og er nú mjög fjölfarin allt sumarið; er þetta því hinn mesti sportvegur, enda er þarna viðkunnur gististaður, Ásólfsstaðir, og er þangað óslitin bílaumferð um hverja helgi sumarlangt.

Þá er ennfremur ástæða til að geta um eitt merkilegt atriði, sem styður að nauðsyn vegagerðar um Gnúpverjahrepp. Á síðustu árum er farið að sækja hráefni þangað upp eftir, eða vikur, sem fluttur er úr Þjórsárdalnum, en eins ég menn vita, er nú farið að nota hann í veggi og í steinsteypu, sem einangrunarefni, og hefir gefizt vel. Er vikur þessi notaður í stað korks, og má búast við, að sú notkun örvist heldur á næstu árum, og verður því ekki talið varið til ónýtis því fé, sem gengi til að bæta leiðina að þessari byggingarefnisnámu.

Ég skal svo ekki ræða meira þessa brtt.; í henni er farið fram á svo lítið sem fært þótti, og vona ég því, að hv. þm. sjái sér fært að greiða henni atkv.

Þá vil ég geta einnar brtt., sem ég hefi flutt ásamt báðum hv. þm. Rang., en það er XVIII. till. á sama þskj. og lýtur að framkvæmd laga um vegagerð á Hellisheiði frá 1932.

Það er nú svo um þennan blessaða Hellisheiðarveg, að hann er gamalt og nýtt mál á dagskrá Alþingis. Margt gott mál hefir orðið að gjalda þolleysis manna, er þeir hafa tekið að dofna í baráttunni fyrir að koma þeim á, jafnvel þó hin ýtrasta þörf sé á að hrinda þeim í framkvæmd.

Svo hefir viljað verða um vegabæturnar milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins. Þar hefir verið talað um járnbraut og vegi, og þm. hafa fengið fjörkipp og áhuga rétt fyrir kosningar og blöðin látið líklega, en síðan ekki söguna meir.

Mörgum er það áhuglmál, og nauðsynin ótvíræð og fer vaxandi að tryggja möguleika fyrir samgöngum milli þessara landshluta að vetri til, en þegar hefjast hefir átt handa, hefir höfginn sigið á og annað gengið fyrir. Fyrir þetta er ég hvorki að afsaka eða ásaka, en þetta hefir bara verið svona. Það hefir verið haft til afsökunar, hve þetta kosti mikið, en það er nú fleira kostnaðarsamt og hefir þó komizt til framkvæmda.

Það er líka annað í framkvæmd þessa máls, vegabótanna milli hinna frjósömu sveita á Suðurlandsundirlendinu og Reykjavíkur, sem orðið hefir til trafala og ég vil engum sérstökum kenna um. Ég á hér við þá ógæfu í málsmeðferð, hve rannsóknir hafa orðið langærar og sjálfum sér ósamkvæmar.

Það var till. eins okkar mestu áhugamanns um þetta mál sem fleiri, að járnbraut væri gerð; var járnbrautin lengi á dagskrá sem hinn eini úrlausnarmöguleiki. Síðan var fenginn norskur verkfræðingur, sérfróður um slík mál, Sverre Möller, til þess að athuga, hvernig málið yrði bezt leyst. Eins og kunnugt er, birtust síðan niðurstoður hans um málið, og lagði hann til, að járnbraut væri lausnin. Eftir sama mann komu síðan aðrar niðurstöður, nýtt álit eftir nýja athugun, um að betra mundi vera að leggja veg, og við þær var miðað við lagasetningu um þessar samgöngubætur skv. l. frá 1932.

Við þetta situr nú, og búum ver þannig að pappírslögum, en engum framkvæmdum. Og enn á ný virðist sem nýr fleygur sé kominn í málið, þar sem því hefir verið hreyft af ýmsum nú á síðustu tímum, hvort vegurinn ætti eigi að réttu lagi að liggja annarsstaðar en lögin frá 1932 gera ráð fyrir.

En hvað sem öllu þessu líður, þegar litið er á afkomu búskaparins á Suðurlandi annarsvegar og þarfir höfuðstaðarins hinsvegar, verður öllum ljóst, að framlag til þessara framkvæmda verður að sitja í fyrirrúmi og dreifiöflin verða að víkja fyrir starfinu sjálfu.

Á Alþingi er nú rætt um stofnun nýbýla og gert ráð fyrir fjárveitingum til þeirra aðgerða. Það á að taka fyrir flottann úr sveitum til kaupstaða með því að fjölga ábýlunum. Er vitanlegt, að hið mikla graslendi austanfjalls er einkum fyrirhugað til þessa landnáms. En þegar talað er um að fjölga býlum austanfjalls, er ljóst, að afkoma hinna nýju bænda sem og þeirra, er fyrir eru, verður alls ekki örugg fyrr en búið er að byggja veg austur yfir fjallið, sem tryggir greiðar samgöngur árið um kring.

Þegar verið var að ræða um stofnun mjólkurbúanna austanfjalls, var hlutaðeigendum mesta áhyggjuefnið, að meðan fullkomið öryggisleysi væri um samgöngurnar á vetrum, og jafnvel að haustinu og vorinu, eins og fyrir kann að koma, þá væri mjólkurbússtofnun í rauninni glæframál.

Vegagerðirnar fyrst, býlafjölgun og aðrar umbætur síðan, hér eins og annarsstaðar.

Þetta þarf ekki frekari skýringa við, og þegar litið er á það í sambandi hvað við annað, þá hlýtur hið háa Alþingi að haga þannig ákvörðunum sínum, að hafizt verði handa og vegagerðin byrjuð, sé fé og starfsorka finnanleg til þess, er sú nauðsyn krefur. Að vísu hefir málinu verið sýnd sú góðvild í sambandi við tekjuöflunarfrv., sem fram er komið, að gert er ráð fyrir, að varið verði einhverju fé til þessa verks. En ef hægt væri að finna fé og starfsorku til að láta renna þangað, auk þess sem fengist með nýjum tolla- og skattaálögum, eða helzt án slíks, því að nóg er samt, þá væri vel farið.

Nú eru í fjárlfrv. fyrir árið 1936 ætlaðar 500 þús. kr. til atvinnubóta, og sé nú þörfin fyrir þetta fé svona mikil, en um það skal ég ekki dæma, ég þekki það ekki, og leiði því minn hest þar frá, þá er og á að vera hið sjálfsagða, að nota þetta fé og þá orku, sem fyrir það fæst, til að framkvæma verk, sem koma þjóðinni að gagni og sjái einhverja staði. Þegar þetta fé er veitt með reim skilyrðum, að af því sé notað 100 þús. kr. til undirbúnings stofnun nýbýla, þá er ekki mikið, þó sett væri skilyrði um, að nota skuli 150 þús. kr. af því til þessa vegar yfir Holtavörðuheiði; sú fjárveiting á að vera ríflegri og á að ganga fyrir. Við það miðast tillaga okkar, er hér liggur fyrir.

Mér finnst svo um atvinnubótaféð, að lögfesta ætti betur en gert er, til hvers það ætti að ganga, svo því verði ekki varið af handahófi. Því betur sem því fé er varið og í samræmi við nauðsynlegar aðgerðir, því hættuminni verða þjóðinni hin miklu fjárútlát til atvinnubótanna. Þarf að gera ráð fyrir því um þetta fé eins og annað, sem varið er til framkvæmda, að það bæti afkomuskilyrði fólksins, en kastist ekki á glæ. Ég hygg því, að till. okkar flm. um 150 þús. kr. framlag til þessa vegar hljóti að falla í góðan jarðveg.

Ég vil áður en ég sezt niður segja aðeins þetta: Það getur verið, að notað verði sem mótbára, að ekki væri gott að vinna að þessari vegagerð hvenær sem væri í atvinnubótavinnu, vegna tíðarfars o. fl. ástæðna. En úr því að gerlegt þykir að veita 100 þús. kr. af atvinnubótafé til nýbýla og vinna það á fjarlægum stöðum, ætti eigi síður að vera mögulegt að framkvæma vegagerðina með atvinnubótastarfi, sem hvorki er í meiri fjarlægð né verra verk en framræsla nýbýlamýranna eystra. Vitanlega verður að hnitmiða þetta þannig, ef um atvinnubótavinnu er að ræða, að hún komi sem mest á þá árstíð. sem yfirleitt hentar til bersvæðisstarfs.

Við höfum bætt því aftan við þessa till. okkar um ráðstöfun atvinnubótafjárins, að vegagerðin skuli byrja austan frá, við Suðurlandsbraut í Ölfusi, eins og talað er um í I. nr. 25 23. júní 1932, og yrði starfið hafið, skv. því, nálægt Reykjum í Ölfusi. Þetta er gert visvítandi, bæði vegna þess, að nauðsynlegt er, að bændur sem búa á þessu svæði frá Reykjum út með hlíðum í Ölfusi, fái þennan hluta vegarins sem fyrst, og eins af hinu, að enginn ágreiningur er um það, hvar þessi byrjunarspotti skuli liggja, svo að það er óhætt að leggja hann þess vegna; yrði öll sú vinna, er hér kemur til greina, því unnin í byggð.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum.