12.03.1935
Efri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

73. mál, fangelsi

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. shlj. þessu lá fyrir hér í d. á síðasta þingi. Flm. voru þá þeir sömu og nú, sem sé fjárveitinganefndarmenn efri deildar.

Á síðasta þingi lágu fyrir ýmsar fjárbeiðnir frá hinum stærri kauptúnum og kaupstöðum landsins í því skyni að koma upp hjá sér fangelsum. N. varð að viðurkenna nauðsyn margra af þessum fangelsum. Varð það úr, að við 3 nm. hér í Ed. flytum þetta frv. í samráði við aðra nm. fjvn. Leikur ekki á tveim tungum um það, að víða um land er mikil vöntun á fangelsum, og er ástand margra þeirra ekki í slíku lagi sem vera þurfti. Oft er það, ef afbrot eiga sér stað og menn eru úrskurðaðir í gæzluvarðhald, að ekki er hægt að einangra þá, vegna þess að hús skortir. Gæzluvarðhald kemur því óvíða að fullum notum, nema fangelsi séu til.

Við ætlumst ekki til, að miklu fé verði eytt í fangelsisbyggingar. Okkar hugsun er sú, að veitt verði fé í fjárl., eftir því sem hægt er, gegn því, að hlutaðeigandi kaupstaður leggi fram jafnmikið fé. Fer það þá líka eftir því, hvað kaupstaðirnir og kauptúnin eru áhugasöm um þetta mál, hvað til þess verður lagt.

Enda þótt frv. sé komið frá okkur í fjvn., legg ég til, að því verði vísað til allshn.