23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

73. mál, fangelsi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, og öll fjvn. stóð óskipt á bak við það. Frv. náði ekki fram að ganga, og er því nú flutt aftur á sama hátt og í fyrra, af þeim meðlimum fjvn., sem sæti eiga hér í deildinni.

Ástæðan til þess, að n. sá nauðsyn til að flytja þetta mál, var sú, að það, hafa borizt til hennar víðsvegar af landinu áskoranir og beiðnir um styrk til að reisa fangahús. Það er hvorttveggja, að ómögulegt er fyrir lögreglustjóra að halda uppi lögum og reglu, þar sem engin fangelsi eru til að stinga afbrotamönnum inn í, og að í löggjöf okkar eru engin ákvæði um, hvernig greiða eigi kostnað við slík hús. En þar eð vitað er, að þau eru allmikið notuð í þágu Kaupstaðanna sjálfra og þeim ber að réttu lagi að halda uppi lögunum í sínu umdæmi, þá þótti n. rétt, að kostnaður við fangahús skiptist til helminga milli ríkissjóðs og kaupstaða eða kauptúna.

Ennfremur er tiltekið í frv., að ríkisstj. ráðstafi því fé, sem veitt er í fjárl. hvers árs í þessu skyni, en fjárveitingavald ræður þeirri upphæð.

Allshn. sá ekki ástæðu til að breyta frv. að öðru leyti en því, er við kemur rekstrarkostnaði fangelsa í 8. gr. frv. vill hún, að ákvæði gr. nái einnig til hegningarhússins í Reykjavík, en það gat verið vafi á, hvort svo væri eftir frv. áður.

Ég ætla, að kostnaður við fangelsið hér í Reykjavík sé um 15 þús. kr. á ári. Hefir hann hingað til verið greiddur úr ríkissjóði, en hér eftir ætti hann þá að greiðast að hálfu leyti úr bæjarsjóði og að hálfu leyti úr ríkissjóði.