23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

73. mál, fangelsi

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Frv. þetta er kallað frv. til l. um fangelsi, og eitt höfuðatriði þess er fólgið í 1. gr., þar sem segir svo, að í öllum kaupstöðum og kauptúnum, þar sem eru yfir 700 íbúar, skuli reisa fangelsi, til að geyma í gæzlufanga og aðra, sem teknir hafa verið fastir um stundarsakir. Í rauninni er hér um þrennskonar stofnun að ræða, - í 1. lagi „detentionslokale“, í öðru lagi gæzluvarðhald og í 3. lagi hegningarhús, samkv. 7. gr., sem mælir svo fyrir, að fangar megi afplána þar sektir við venjulegt fangaviðurværi. Ég verð að segja það, að eins og ástandið er núna í þessu landi, þá hefði ég haldið, að eitthvað væri nauðsynlegra við fé ríkissjóðs að gera en að verja því til að koma upp fangelsum í öllum kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 700 íbúa, þó að óknyttir, og þá sérstaklega þjófnaður og ýms afbrot, hafi farið vaxandi á síðari árum, þá hefði ég samt haldið, að ástandið væri ekki þannig, að ástæða væri til að koma upp hegningarhúsum í öllum kaupstöðum og öllum kauptúnum, sem hafa yfir 700 íbúa. Ég veit ekki, hve margir þeir staðir eru, og hv. allshn. hefir ekki séð ástæðu til að upplýsa um það, - en þeir eru eitthvað milli 111 og 20, og það er ekki svo lítil fjárupphæð, sem þarf til að koma upp sæmilegum fangelsum á öllum þeim stöðum. Ég held, að á flestum þessum stöðum væri hægt án mikilla vandkvæða að fá húsnæði leigð til að geyma í t. d. dauðadrukkna menn um stundarsakir, sem nauðsynlegt þykir að taka fasta, svo þeir valdi ekki óspektum á almannafæri, eða þá menn, sem grunaðir eru um glæpi og ástæða þykir til að setja í gæzluvarðhald. En um hitt atriðið, að láta menn afplána sektir o. þ. h., held ég, að það sé engum vandkvæðum bundið um pláss, síðan Litla Hraun var gert að fangahæli fyrir þó, sem afplána þurfa sektir eða annað því um líkt. Þó að komið geti fyrir, að þeir þurfi að bíða eitthvað, sem afplána sektir sínar í hegningarhúsinu hér í Rvík, þá er það ekki tilfinnanlegt, þar sem öll stærri afbrot eru afplánuð á litla-Hrauni. Annars held ég, að ekki sé tilfinnanleg vöntun á fangahúsum. Þó getur verið að full þörf sé á slíkum húsum í stærri kaupstöðum, eins og Vestmannaeyjum, Ísafirði, Akureyri og Siglufirði, af því þar er svo fjölmennt á sumrin. Væri e. t. v. ástæða til, að ríkið legði fram fé til að tryggja húsnæði handa þeim, er setja þarf í gæzluvarðhald, og um stundarsakir, en að þessu undanteknu held ég, að ríkissjóði séu bökuð alóþörf útgjöld með samþ. þessa frv. um byggingu slíkra fangahúsa og þeim kostnaði við rekstur þeirra, sem mun á eftir fylgja.

Þá er annað ákvæði í frv. þessu, sem er einkennilegt og mjög varhugavert, og ég efast um, að samhliða dæmi finnist í nokkru landi. Í 8. gr. frv. er sem sé gert ráð fyrir því, að rekstrarkostnaður þessara stofnana greiðist að hálfu af bæjar- eða sveitarsjóðum, þar sem ætlazt er til, að hús þessi séu notuð handa mönnum, er þurfa að taka út refsingu.

Ég held, að því ætti að halda óbreyttu, að ríkissjóður beri kostnað af framkvæmd refsilaganna, og það eigi ekki aðrir en ríkisvaldið að hafa íhlutun um þau mál, eða bera afleiðingar af því, að borgararnir sæti refsingu. Ég held, að það sé mjög varhugavert að draga þetta vald úr höndum ríkisins, en ef ekki á svo að fara, verður þessi kostnaður óhjákvæmilega að hvíla á ríkissjóði, en ekki bæjar- eða sveitarfélögum. Það sama má segja að svo miklu leyti, sem nota skal hús þessi til gæzluvarðhalds, sem ekki er annað en undirbúningur að þeirri refsingu, sem ríkisvaldið vill koma fram á hendur einhverjum borgara, sem álízt brotlegur við landslög eða sterkur grunur hvílir á. Er því þetta ákvæði um kostnaðarskyldu bæjar- eða sveitarfélaga einungis réttlátt að því leyti, er snertir notkun þessara húsa sem „detentionslokale“. Ég mun því, hvernig sem fer um frv. að öðru leyti, greiða atkv. gegn 8. gr., af þeim ástæðum, er ég hefi gert grein fyrir, þó líkur séu til, að frv. þetta nái fram að ganga, þar sem að því standa svo sterkar stoðir. En ég er á móti frv. í heild og tel, að úr þessu hefði mátt bæta á ódýrari hátt.