23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

73. mál, fangelsi

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að lengja mikið umr. um þetta mál. Ég held, að það sé þó rétt að bæta fáum orðum við þau rök, sem ég færði fram áðan, að sanngjarnt sé að skipta kostnaðinum á þann hátt, sem um ræðir í 8. gr.

Ég færði fyrst og fremst þau rök, sem hv. 2. þm. Rang. gat um, að það mundi verða álíka mikið, sem bæirnir þyrftu að nota þessi fangahús fyrir gæzluvarðhald og ríkið þyrfti að nota þau til þess að afplána refsingu.

Ég held, að rétt sé að taka það fram, svo að það liggi ljóst fyrir þeim, sem eiga að taka þátt í afgreiðslu þessa máls, að það fer fjarri því, að bæirnir hafi kostað fangahúsin hingað til. T. d. hefir Reykjavíkurbær neitað að taka þátt í kostnaði við fangahúsið í Reykjavík, svo að ríkið hefir rekið það á sinn kostnað. Þetta hefir líka við nokkra sanngirni að styðjast. Meðan dæmt var eftir lögreglusamþykkt Reykjavíkur um óspektir á almannafæri og brot á umferðareglum, þá var það jafnframt í l., að sektir fyrir brot á lögreglusamþykktum skyldu renna í bæjarsjóð. Það er sanngjarnt, að bæirnir í þessum tilfellum sjái um afplánun þessara refsinga, þar sem þeir taka við þeim sektum, sem fást greiddar. En nú hefir þessu algerlega verið breytt með breyt. á bifreiðalögunum. Þessi breyt. er þannig, að brot á umferðareglum á nú að dæma eftir bifreiðal., og þær sektir renna í ríkissjóð. Sektir fyrir brot á áfengisl. eiga einnig að renna í ríkissjóð. Það skiptir nokkrum tugum þúsunda á ári, sem hér er tekið af bæjunum. Þess vegna mælir öll sanngirni með því, að ríkissjóður sjái um afplánun þessara refsinga, þar sem hann fær nú tugi þúsunda árlega greidda í sektir, sem áður runnu í bæjarsjóð. Að vísu er nokkur hluti sekta, sem ennþá rennur í bæjar- og sveitarsjóði, þar sem lögreglusamþykktir eru til fyrir sveitir, en það er aðeins fyrir minni háttar umferðarbrot, sem eru eingöngu brot á lögreglusamþykktinni, en ekki á umferðareglum, t. d. brot á ákvæðum um ljósatíma.

Þessar sektir, sem bæirnir fengu áður, en ríkissjóður nú, skipta tugum þúsunda, hafa stundum orðið 40—50000 kr., svo að það er ekki hægt að neita því, að það eru nokkur rök fyrir því, að ríkissjóður taki þann þátt í þessum kostnaði, sem ráð er fyrir gert í 8. gr. Það er ekki ósanngjarnt gagnvart ríkissjóði, nema síður sé.