23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

73. mál, fangelsi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Um kostnað af fangelsunum nægir að benda á, að bæjar- og sveitarsjóðum er ofvaxið að reisa einir og standa straum af rekstri þessara húsa. Kostnaðurinn verður því að skiptast í sem réttustu hlutfalli við það hlutverk, sem hvorir aðiljar um sig inna af höndum, og ég held, að ekki sé hægt að komast nær því en að skipta kostnaðinum til helminga, sökum þess að það eru bæirnir, sem eiga að borga, ef menn eru settir inn um stuttan tíma fyrir óspektir, en úttekt refsinga á ríkið að borga, en gæzluvarðhaldskostnað eiga ýmist bæirnir eða ríkið að borga. Og þegar maður ber þetta saman, þá er ekki hægt að finna réttlátari grundvöll en helmingaskipti.

Svo hneykslast hv. 2. þm. Rang. á því, að heimilt sé að láta menn taka út refsingu um stuttan tíma í þessum húsum. Þetta ætti þó ekki að vera nein hneykslunarhella. Þetta ákvæði er sett í frv. vegna þess, að þegar refsitíminn er stuttur, er það hlutfallslega afardýrt fyrir hið opinbera að senda hinn dæmda mjög langar leiðir til að taka út refsingu, auk þess sem það er mikil röskun á högum manna að flytja þá, kannske á mesta annatímanum, langan veg til að taka út fárra daga refsingu. Það er sanngjarnt af því opinbera að taka tillit til slíkra ástæðna, t. d. ef maður á Norðfirði á að taka út 5 — 10 — 20 daga refsingu, og þar á staðnum eða annarsstaðar utan Reykjavíkur er ekkert fangahús. Þá verður að flytja hann alla leið til Reykjavíkur og svo kannske á Litla-Hraun til að taka út þessa refsingu. Þetta ferðalag er svo mikil viðaukarefsing fyrir manninn, að það getur t. d. eyðilagt fyrir honum heila vertíð. Það er því stórkostlegur aukabaggi, sem þarna er lagður á manninn, og oft líka á það opinbera.

Þetta eru ástæðurnar til þess, að ákvæði 7. gr. voru sett. En því má ekki gleyma, að það er því skilyrði bundið, að ráðh. leyfi í hvert sinn, að svona megi fara að, og að fangelsin séu þannig útbúin, að mönnum sé hættulaust að taka þar út refsingu, því að þótt það sé eins og hv. 2. þm. Rang. sagði, að ekki þurfi að byggja nein skrauthýsi, þá verða fangelsin samt að vera svo, að heilsu manna sé þar ekki hætta búin, t. d. verður að vera hægt að hita upp, og einnig verður að vera þannig frá þeim gengið, að menn geti ekki farið sér þar að voða.