29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tel rétt að gera nokkru nánar grein fyrir tildrögum þess, að frv. Þetta er fram komið, en þegar hefir verið gert af frsm., þar sem frv. þetta er flutt að minni tilhlutun. Það, sem ég segi hér um þetta mál, mun að nokkru leyti verða skýring á afstöðu Framsfl. til málsins. Hv. frsm. hefir, eins og eðlilegt er, nokkuð horfið að því að skýra afstöðu Alþfl. til þessa frv. Tel ég þess vegna rétt að miða mál mitt nokkuð við hinn flokkinn, af þeim tveim flokkum, sem að þessu frv. standa, og því samkomulagi um afgreiðslu fjármála, sem frv. byggist á.

Í gildandi fjárl. er gert ráð fyrir því, að útgjöld ríkissjóðs verði nálægt 14 millj. kr. árið 1935 og að tekjurnar muni nema svipaðri upphæð. Nú hefir það komið í ljós, eins og vitanlegt var fyrirfram að nokkru leyti, að ýmsir óviðráðanlegir útgjaldaliðir fara fram úr áætlun. Og það mun láta nærri, þegar tekið er tillit til þessa, að frv. það til fjárl., sem nú er á ferðinni fyrir árið 1936, mundi hafa í för með sér ca. 15 millj. kr. útgjöld úr ríkissjóði, ef það væri samþ. óbreytt eins og það nú er.

Tekjur ríkissjóðs í ár munu fara nokkuð fram úr áætlun, þó að ekki sé hægt að segja með vissu, hve mikið. Get ég því ekki að þessu sinni gefið endanlegar upplýsingar um mismun á tekjum ríkissjóðs og gjöldum í ár. En það, sem hér kemur einkum til athugunar, þegar um afkomu ríkissjóðs árið 1936 er að ræða, er það, hvort búast megi við, að tekjur ríkissjóðs fari einnig það ár fram úr áætlun, og hvort búast megi við, að núv. tekjustofnar muni bera uppi greiðslur þær, sem gert er ráð fyrir í frv. til fjárl. fyrir árið 1936. Eftir mjög nána athugun hefir verið komizt að þeirri niðurstöðu, að mjög óvarlegt sé að gera ráð fyrir því, að svo verði. Miðað við útflutningshorfur á næsta ári og innflutning í ár, þykir ekki varlegt að reikna með því, að tekjur ríkissjóðs af núv. tekjustofnum verði hærri að upphæð en 14 millj. kr. Þar sem hinsvegar búast má við um 15 millj. kr. greiðslum, að öllu óbreyttu, þarf að mæta allt að einnar millj. kr. væntanlegum halla.

Þegar þetta lá nokkurnveginn ljóst fyrir, kom það fyrst til álita af hálfu Framsfl., hve mikið hægt væri að spara á fjárl. með niðurfærslu á útgjaldaliðum og hvort mögulegt væri að komast hjá því að hækka skatta á landsmönnum. Að þessari athugun hefir Framsfl. unnið, með góðu samstarfi við Alþfl. Niðurstaðan af því starfi mun verða sú, að niðurfærslumöguleikarnir séu sem næst 1 millj. kr. vitanlega verður þessi sparnaður ekki sársaukalaus. Hann hlýtur að snerta þá liði fjárl., sem menn helzt hefðu viljað halda óbreyttum, eins og t. d. ýms fjárframlög til atvinnuveganna, þó ekki sé um verulega lækkun á þeim að ræða.

Síðan fjárlagafrv. fyrir árið 1936 var samið, hafa verið ákveðin af Alþingi fjárframlög í ýmsu skyni með löggjöf. Ennfremur ber að geta þess, að stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að vinna að afgreiðslu ýmissa nýmæla á Alþingi, sem kosta greiðslur úr ríkissjóði. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna nýbýlalöggjöfina, sem nú liggur fyrir þinginu, og lög um alþýðutrygginrar, þó að önnur smærri mál komi þar einnig til greina.

Eftir að ég nú hefi lýst væntanlegum útgjöldum ríkissjóðs eftir gildandi lagafyrirmælum og að framkvæmdum óbreyttum og tekjuvonum hans á næsta ári. Þá sjá menn, að um tvennt var að velja í sambandi við þau nýmæli, sem ég hefi getið um. Annað úrræðið var að færa útgjöld ríkissjóðs til annara hluta enn frekar niður en um þessa 1 millj. kr., sem fyrirhugað er að spara. Hitt að afla nýrra tekna fyrir ríkissjóðinn til að standast hinar nýju greiðslur. Eftir að þetta mál var þaulathugað, þótti það liggja ljóst fyrir, að ef gera ætti frekari niðurfærslur á fjárl., en að framan er lýst. Þyrfti að ganga svo mjög á framlög til hinnar smærri framleiðslu í landinu, að slíkt þótti ekki fært. Þegar sú niðurstaða lá fyrir að dómi flokkanna. var enn um tvennt að ræða: Annaðhvort að láta þessi nýmæli falla niður, öll eða flest af þeim, eða hitt, að afla nýrra tekna til þess að standast útgjöld í sambandi við framkvæmd þeirra. Þegar athuguð eru þessi nýmæli, þá vænti ég, að menn muni geta orðið sammála um, að þau séu þess eðlis, að þau þoli í raun og veru ekki neina bið, en að stjórnarflokkarnir hafi farið rétta leið, þar sem þeir ákváðu að afla nýrra tekna til þess að standast kostnað af þessum nýmælum.

Þá kem ég nokkuð að þeim leiðum til þess að afla tekna í þessu skyni, sem til greina hafa komið.

Hv. 4. landsk. minntist hér á það, að þegar tveir flokkar stæðu að því að afla tekna, þá mundi val tekjustofnanna yfirleitt ekki verða hið sama og verða mundi, ef annar flokkurinn kæmi fram sinni stefnu að öllu leyti. Þetta geta menn vitanlega skilið, að er eðlilegt, þar sem allt samstarf flokka hlýtur að byggjast á því, að menn verða að jafna saman málum og finna niðurstöður, sem báðir aðilar geti sætt sig við.

Hv. 4. landsk. minntist á, að Alþýðuflokksmenn hefðu viljað fara aðra leið til tekjuöflunar en till. eru gerðar um í frv., nefnilega þá, að ríkið tæki undir sig meira eða minna af utanríkisverzlun landsins. Á þetta var nokkuð minnzt í þeim flokki. En Framsfl. gat ekki fallizt á að fara þessa leið. Sú afstaða byggist á því, að stefna Framsfl. í verzlunarmálum er og hefir verið sú, að verzlunin eigi að vera sem mest í höndum samvinnufélaga, en að ríkið eigi ekki að fara inn á verzlunarsviðið, nema þá til þess að verzla með einstöku vörutegundir til tekjuöflunar. Framsfl. vill ekki, að gengið sé inn á þá braut, að ríkið taki í sínar hendur meiri hl. af verzluninni í því skyni að afla ríkissjóði tekna. Hinsvegar er það vitað, að undir sérstökum kringumstæðum, eins og t. d. á ófriðarárunum, barðist Framsfl. fyrir, að landsverzlun yrði upp tekin á mörgum vörutegundum. En það var aðeins gert vegna sérstakra kringumstæðna. Slíkt eða hliðstætt óvanalegt ástand verður að vera fyrir hendi til þess að Framsfl. geti fylgt eða beitt sér fyrir almennri landsverzlun.

Þá er að nefna aðrar leiðir.

Eins og vitanlegt er af frv., er þar í fyrsta lagi farin sú leið, að leggja á hátekjuskatt, þ. e. skatt, sem leggst á skattskyldar tekjur, sem nema 6 þús. kr. og þar yfir. En það þýðir, að þessi skattur hittir ekki aðra en þá, sem hafa um 7500 kr. laun eða atvinnutekjur og þar yfir, þó að einhleypir séu. Verður því að telja þennan skatt hátekjuskatt og eðlilegan, eins og á stendur hjá okkur nú.

Framsfl. hefði viljað láta allan þennan skatt renna í ríkissjóð. En til samkomulags við Alþfl. hefir Framsfl. gengið inn á, á helmingur hans renni til bæjar- og sveitarfélaga. Í reyndinni þó aðeins bæjarfélaga, þar sem um hátekjuskatt þennan verður eigi að ræða í sveitum. Þetta þýðir auðvitað það, að ríkissjóður fær af þessum hátekjuskatti minni tekjur en ella hefði orðið, ef Framsfl. hefði einn ákvarðað. Verður því að afla þeim mun meiri tekna með öðru móti.

Þegar vitanlegt var, að ekki var hægt að nota verzlunarleiðina og ekki var heldur með beinum sköttum einum hægt að afla þeirra tekna, sem þurfti til þeirra nýmæla, sem lýst hefir verið, þá varð að skyggnast eftir öðrum leiðum. Þá var, eins og eðlilegast var í þessu máli, litið til þess, hvernig farið hefði verið að meðal annara þjóða undir svipuðum kringumstæðum. Í Noregi eru ástæðurnar líkastar og hjá okkur í þessu efni. Beinir skattar háir þar eins og hér. Þar komst til valda vinstrimannastjórn bænda og verkamanna, sem vildi halda uppi verklegum framkvæmdum og framlögum til smáframleiðslu. Þá var þar lagður skattur á alla vörusölu verzlana, sem mætti (á lélegri íslenzku) nefna umsetningarskatt. Þessi leið var töluvert mikið athuguð hér í þessu sambandi. En eftir að hafa athugað hana og borið hana saman við þá leið, sem farin er í frv. því, sem hér liggur fyrir, sem sé að leggja gjald á vörur, þegar þær koma til landsins, þá urðu flokkarnir sammála um, að betra mundi vera að nota þá leiðina, sem við höfum farið hér í frv., miðað við okkar ástæður. Skal ég færa nokkur rök fyrir þessari niðurstöðu. Það gæti kannske orðið til þess, að menn yrðu okkur sammála um, að þessi leið eigi betur við okkar staðhætti.

Með því að leggja skatt á vöruumsetningu almennt í landinu, þá hefði varla orðið hjá því komizt, að gjaldið hefði líka komið á innlendar vörur, sem seldar eru í búðum. En eins og nú er háttað um gjaldeyrisástandið hér hjá okkur og viðskiptasambönd við önnur lönd, þá er eitt af þeim aðalatriðum, sem taka verður til greina við afgreiðslu skattamála, að reyna að skapa innlendu framleiðsluvörunum betri aðstöðu á innlenda markaðinum heldur en útlendri vöru, bæði framleiðsluvörum bænda og innlendri iðnaðarvöru. Meðal annars af þessari ástæðu var valin sú leið, að láta vörugjaldið eingöngu hitta útlenda vöru, en ekki koma niður á útlendri og innlendri vöru.

Ef „umsetningargjald“ hefði verið lagt á, þá hefði það orðið að koma jafnt niður á allar vörur, til þess að framkvæmdin yrði ekki of flókin.

Með því hinsvegar að taka gjaldið af vörunum strax og þær koma til landsins er hægt að hafa það misjafnt, eftir því hve nauðsynlegar vörurnar eru og hvort hægt er að nota innlendar vörur í þeirra stað. Með þeirri aðferð einnig. eins og frv. hér með sér, að undanþiggja gjaldinu þær vörur, sem beinlínis eru nauðsynlegar vegna framleiðslunnar, bæði til lands og sjávar, og einnig þær vörur, sem nauðsynlegar eru neytendum.

Vitanlega hefðu báðir flokkarnir helzt kosið, að hægt hefði verið að sinna nýmælunum, sem nefnd hafa verið, án þess að hækka skattana, en þess var enginn kostur. Var því ekki annað fyrir hendi en láta þessar framkvæmdir niður falla, eða afla nýrra tekna til þess að standa undir þeim.

Því hefir verið haldið fram undir umr. um þetta mál, að skattur þessi yrði til að íþyngja atvinnuvegunum, sem vitanlega verða að standa undir öllu hér eins og annarsstaðar, og því væri hér verið að leggja inn á hættulega leið. Þar sem þetta atriði er einmitt aðalatriði þessa máls, mun ég fara um það nokkrum orðum og sýna fram á, að skattur þessi hittir einmitt ekki framleiðsluna, heldur er miklu frekar til þess að létta undir með henni.

Ef við tökum hátekjuskattinn til athugunar, þá verkar hann ekki fyrr en atvinnutekjurnar eru komnar upp í 7—8000 krónur, að frádregnum öllum kostnaði, en því miður mun reynslan vera sú, að framleiðendur hafa yfirleitt ekki haft svo háar tekjur eða hærri árið, sem er að líða, og því hittir skatturinn þá yfirleitt ekki. Að öðru leyti vil ég benda á, að ef einhver framleiðandi hefir nú haft meiri tekjur en þetta, þá eru ákvæði í núgildandi skattalögum um það, að framleiðendur megi draga töp sín á framleiðslunni síðastl. 2 ár frá gróðanum. Kemur þetta atriði því alveg í veg fyrir, að skattur þessi komi þungt niður á framleiðslunni. Með öðrum orðum, smáframleiðendurna hittir skatturinn ekki, en stórframleiðendurnir mega draga töp síðustu ára frá gróðanum, samkv. lögum frá 1934, og hlífa sér með því móti, ef sæmilega hefir gengið í ár.

Þá er viðskiptagjaldið. Undanþegnar því eru allar vörur, sem notaðar eru beint til framleiðslunnar. Íþyngir sá skattur því ekki framleiðslunni.

Þegar rætt er um þessa nýju skatta og afstöðu framleiðendanna til þeirra. vil ég biðja menn að athuga einnig gaumgæfilega, til hvers þeir eiga að notast. Af þeim rúmlega 900 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að skattur þessi nemi, gengur meiri hlutinn beinlínis til þess að styrkja framleiðsluna. Þar er upphæð, sem á að ganga til skuldaskila smáútvegsmanna, upphæð, sem u að ganga til nýbýla í sveitum, sem á að stuðla að því, að menn geti byrjað þar framleiðslu. Þá á og nokkur upphæð af þessu að ganga til vaxtaívilnunar fyrir bændur. Þá á að styrkja kartöflurækt. Þá á að nota nokkuð af þessari upphæð til þess að styrkja mjólkurbú og frystihús. Þá á ennfremur að verja nokkru af þessu fé til þess að styrkja iðnaðarmenn, til þess að þeir geti fengið lán úr iðnlánasjóði. Á þessu sést, að yfirgnæfandi meiri hluti af þessu fé á að ganga til styrktar framleiðslunni og atvinnuvegunum. Hér er því stefnt að því að skattleggja þær stéttir þjóðarinnar, sem hæstar hafa tekjur og mest nota erlendar vörur, til þess að styrkja smáframleiðendur og verkamenn. Sannleikurinn er því sá, að enda þótt mönnum hætti til í fljótu bragði að halda, að gjöld þessi verði til að íþyngja atvinnuvegunum, þá eru þau þvert á móti þeim til stuðnings á lögð. Auk þess ber að minnast þess gagns, sem framleiðendum, einkum landbúnaðarvara og iðnaðarvara, verður vitanlega að þeirri bættu aðstöðu, sem afurðir þeirra fá í samkeppninni við ýmsar af erlendu vörunum vegna gjaldsins, sem lagt er á hinar síðarnefndu.

Af því, sem ég nú hefi sagt, ætti öllum að vera það ljóst, að hér er ekki verið að afla tekna til venjulegrar eyðslu, eða til þess að auka kostnað við rekstur ríkissjóðs, heldur eiga tekjurnar þvert á móti að ganga til hagsbóta smáframleiðendum og verkamönnum. Tekjuöflun til slíkra hluta verður að teljast í fullu samræmi við stefnuskrár stjórnarflokkanna og hagsmuni umbjóðenda þeirra, þar sem Alþfl. fer fyrst og fremst með umboð, fyrir launaverkamennina, en Framsfl. fyrir smáframleiðendur til sveita og við sjó.