29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég held að það hafi verið á þriðjudaginn var, að hv. 4. landsk., sem er form. fjhn., boðaði okkur á fund og lagði fyrir fundinn frv. það, sem nú er hér til umr., en þá var í handriti. Ég sá þegar, að hér var á ferðinni merkilegt og stórt mál, og fór því fram á, að frestað yrði eitthvað að taka ákvörðun um það, svo mér gæfist kostur á að ræða það eitthvað við flokksmenn mína. Mér var samt þegar ljóst, að ég myndi ekki geta fylgt frv. fram, eða a. m. k. ekki sumu í því, en mér virtist ekki nema sanngjarnt, að við fengjum þó ekki væri nema 4—5 klst. til þess að athuga það, þar sem mér líka var vitanlegt, að þetta var margra mánaða verk stjórnarflokkanna. En það var ómögulegt að gefa mér þennan frest. Hvers vegna þessari sjálfsögðu og meinlausu beiðni minni var neitað, sá ég fljótlega. Stjórnarblöðin komu nefnil. út bæði alveg rétt á eftir og lýstu þessu frv., og annað þeirra var með letrið úr skjalaparti þingtíðindanna. Þau kváðu upp úr með það, að stjórnarflokkarnir væru búnir að ákveða að leggja þessa skatta á. Ég vil nú spyrja: Er þetta lýðræðisframkvæmd þeirra hæstv. fjmrh. og hv. 4. landsk., að lýsa því yfir, að búið sé að taka ákvörðun um þetta og hitt, áður en farið er að sýna það þinginu, hvað þá meir? Ég veit t. d., að þessir háu herrar hneykslast á Hitler, þegar hann boðar þingið saman aðeins til þess að samþ. boðskap hans. En þeir gera bara alveg það sama.

Ég hefi ekki mætt hér með vandlega undirbúna, skrifaða ræðu, eins og hæstv. fjmrh. og hv. d. landsk. Munu það því aðeins verða lausir punktar, sem ég segi. Það er auðséð, að hér hefir verið birt hið stóra samkomulag, sem sáttanefnd stjórnarflokkanna hefir unnið að nú um langan tíma. Það er alkunnugt, að nokkur sundrung hefir verið innan stjórnarflokkanna nú upp á síðkastið, og munu sósíalistar hafa lofað að sundra ekki flokkunum núna um háveturinn, þegar erfitt er fyrir framsóknarmennina að sækja kosningar. Og þetta er svo árangurinn. Traust fulltrúanna til hvors annars var þó ekki meira en það, að báðir mæta hér með skrifaðar ræður, orði til orðs.

Ég get ekki annað en þakkað hv. 4. landsk., að hann sló með öllu niður hátekjuskattsvitleysu þá, sem þm. S.-Þ. hefir verið að burðast með hér á undanförnum þingum. Þá þótti mér líka gaman að heyra hann taka upp röksemdir mínar frá í fyrra um kaffi- og sykurtollinn. Hann sagði, að kaffið væri ekki svo nauðsynlegt, að ekki mætti spara það þegar herti að. En það var bara annað hljóð í þessum strokki í fyrra, þegar rætt var um afnám gengisviðaukans af kaffi- og sykurtollinum. Þá var kaffi og sykur sú lífsnauðsyn, sem ekki var hægt án að vera fyrir alþýðuna. Hver þessi nýi kaffi- og sykurtollur verður, veit ég ekki ennþá, því að ég hefi ekki reiknað það út, en ég býst við, að hann nemi þó allt að helmingi af þeim gengisviðauka af kaffi- og sykurtollinum, sem felldur var niður í fyrra vegna nauðsynjar alþýðunnar.

Þá er ég alveg á sama máli og hv. þm. um ástandið í veröldinni, en ég held, að þetta frv., þó viturlegt eigi að vera, breyti ekki miklu til um það. Annars held ég, að það sé bezt að kenna ástandinu í veröldinni ekki allt of mikið um, hvernig ástatt er hér. Ég átti kost á að ferðast um Norðurlönd í sumar og kynntist dálítið ástandinu þar, og það verð ég að segja, að enda þótt ástandið í fjármálum sé erfitt þar, þá er það ekkert svipað og hér, enda er örðugleikunum mætt þar með ólíkt meiri skynsemi en hér. Slíkt eymdarástand sem hér er á fjármálum þjóðarinnar mun, sem betur fer, hvergi að finna hér í nálægum löndum.

Þeir, sem með völdin hafa farið hjá okkar nær eingöngu síðastl. 8 ár, hafa beitt allri sinni heimsku — við skulum segja litlu vitsmunum við stjórn fjármálanna, og því er komið sem komið er, því neitar vitanlega enginn, að fyrir okkur hafa komið ýmsir örðugleikar á sviði þjóðmálanna, en þeim hefir bara ekki verið mætt á réttan hátt.

Hvað snertir þetta nýja samkomulag stjórnarflokkanna, þá er ég ekki viss um, að allir aðstandendur séu ánægðir með það, en vel má vera, að þeir geti skrifað og talað sig upp í það. Ég get þó tæplega trúað því, að allir jafnaðarmenn séu glaðir yfir því að hækka verðtollinn eða bæta nýjum verðtolli ofan á þann, sem fyrir er, því að ég minnist þess, að þessir sömu menn heldu því einu sinni fram, að það væri ekkert nema ósvífni, sem engum væri samboðin nema illmennum einum, að bæta tolli á fatnað, skófatnað, kaffi, sykur o. fl.

Ég þykist líka skilja það ofurvel, þó að allir framsóknarmenn séu ekki ánægðir í hjarta sínu yfir því að fara nú að leggja nýja skatta á umbjóðendur sína til þess að koma í höfn tryggingarmálunum, sem eru mestu stefnumál jafnaðarmanna.

Þá er dálítið gaman að samkomulaginu hjá þessum herrum. Þeir kenna hverjir öðrum um. Hafa sér til varnar, að allt hið vonda sé hinum að kenna. Hv. 4. landsk. segir t. d.: Við vorum nú ekki einir um þetta. Við ætluðum ekki að hafa verðtollinn, en urðum að gera það fyrir félaga okkar. Aftur á móti fengum við því ráðið, að nokkur hluti hans skyldi ganga til bæjarfélaganna. — Svo kemur hæstv. fjmrh. og segir: Við erum ekki fyllilega ánægðir með þetta svona, en við urðum að taka tillit til — ja, ekki sagði hann ólukku jafnaðarmannanna, en tónninn var í þá áttina — jafnaðarmanna, sem vildu hafa þetta svona. — Þá var dálítið gaman að heyra þá báða segja, að það væru aðallega lúxusvörurnar, sem hái verðtollurinn lenti á, því að í öðru orðinu segja þeir, að það verði að banna allan innflutning á lúxusvörum. Annað komi ekki til greina. Þessu lofa þeir almenningi. Ef þessir góðu menn vilja nú, svona einu sinni á æfinni, ekki svíkja öll loforð sín, þá væri gaman að vita, hvað yrði eftir til kartöfluverðlauna, alþýðutrygginga o. fl.

Þá undraðist ég, hvernig hæstv. fjmrh. getur endurtekið sömu firrurnar þing eftir þing. Það er alveg hámark ósvífninnar, hvernig hann getur tuggið sömu blekkingarnar upp hvað eftir annað, og það á meðan svikin eru alveg glóðvolg. Það, sem hann segir nú, er nákvæmlega það sama og hann sagði í fyrra, að hér væri í raun og veru ekki um nýja skatta að ræða, heldur væri verið að víkja við tekjunum.

Þá er óneitanlega gaman að heyra hann tala um stefnu Framsfl. í verzlunarmálum. Ef hægt er að fá góða lýsingu á setningunni: „Það góða, sem ég vil, geri ég ekki“, þá er það í þessari framkomu ráðh. Hann segir, að stefna flokksins sé sú, að láta samvinnufélögin annast nær alla verzlun, aðeins geti þeir gengið inn á, að í einkasölu séu teknar einstöku vörutegundir til þess að afla ríkissjóði tekna. En hvað skeður? Undir forystu hæstv. ráðh. er svo hver vörutegundin á fætur annari tekin í einkasölu, sem hann svo ver í líf og blóð. Í blaðadeilum við mig hefir hann svo a. m. k. haldið því fram, að þetta væri einhver bezta leiðin til þess að afla tekna.

Annars vil ég nú spyrja hæstv. ráðh., hvort hann sjái ekki, hvert stefnir, ef ríkið tekur einkasölu á öllum þeim vörum, sem eitthvað er upp úr að hafa að verzla með. Ef þessari stefnu væri haldið út í æsar, þá yrði ríkið annaðhvort að taka með þær nauðsynjavörur, sem illa borgar sig að verzla með, allar neyzluvörur, sem ekki má leggja mikið á, eða þá að þessar vörur hljóta að hækka í verði. M. ö. o.: Verzlanirnar verða að tapa þeim ágóða, sem þær hafa af því að verzla með ágóðameiri vörur.

Hæstv. ráðh. var að lýsa bollaleggingum um það, hvernig stjórnarflokkarnir ætluðu að ná inn þeim tekjum, sem þeir telja nauðsynlegt að — afla, en ekki er hægt að ná með nógu háum tekjuakatti, af því að nokkuð af tekjuskattinum á að renna til bæjarsjóða. Hann sagði, að þeir hefðu athugað, hvort gerlegt væri að leggja á umsetningarskatt, en þó hallast heldur að þeirri leið, sem farin er í frv., af því að hinn skatturinn mundi hafa lagzt á innlendar vörur að einhverju leyti. En hann sagði, að það bæri að greiða sem allra mest fyrir sölu innlendra vara á innlendum markaði, vegna þess hve örðugt væri að afla markaða fyrir þar erlendis. Mér duttu þá í hug ummæli sænsks sérfræðings, sem skipulagsnefnd atvinnumála, „Rauðka“ svokallaða, hafði fengið til þess að rannsaka fjármálaástandið í landinu. Honum þótti ekki hafa verið farin sem réttust leið í þessum efnum hér, og vildi ekki viðurkenna, að ef menn óskuðu að fá hærra verð fyrir vöru, þá væri það nóg bara að hækka verðið. Hann sagði, að leið sú, sem Svíar hefðu farið í þessum sökum, væri mótsett þessu. Þeir hefðu farið þá leið að skapa landbúnaðinum möguleika til þess að geta lækkað verðið á landbúnaðarafurðum. Við þetta jókst svo neyzlan á þessum afurðum. Svo sýndi hann fram á með hagfræðilegum tölum, að neyzla á mjólk og kjöti í landinu væri alveg óeðlilega lítil, miðað við það, sem framleitt væri hér af þessum vörum. Svo að hér er geipimikið land eftir að vinna.

Svo kom hæstv. ráðh. síðast að því, sem var bezt og skemmtilegast í hans ræðu. Það var þessi fagnaðarboðskapur, sem ég hefi ekki heyrt fyrr, að þessi nýju álög, hin mikla hækkun tekjuskattsins og nýr verðtollur, væri svo fjarri því að íþyngja framleiðslunni. Þennan boðskap ætti hæstv. ráðh. að koma með til hinnar aðþrengdu veraldar.

Hann fór svo að reyna að sýnu fram á, að mjög fáir framleiðendur hefðu yfir 6 þús. kr. skattskyldar tekjur. En mér sýnist þessi stighækkun á skattinum strax byrja, þegar skattskyldar tekjur eru orðnar yfir 2 þús. kr. Hæstv. ráðh. sagði, að fáir framleiðendur hefðu yfir 6 þús. kr. skattskyldar tekjur. Hann hefir þá sjálfsagt bændur í huga. En það eru nú fleiri tegundir framleiðslu til en landbúnaður. Það þarf líka að styðja iðnaðinn í landinu og aðrar atvinnugreinar.

Dettur nú ekki hæstv. ráðh. í hug, að það muni íþyngja atvinnuvegunum með hækkuðu kaupgjaldi, ef tollaðar verða ýmsar nauðsynjavörur almennings? Og hvar heldur hæstv. ráðh., að skattar og gjöld yfirleitt komi að lokum niður annarsstaðar en á framleiðslunnni? Það er alveg ómögulegt að heimta inn skatta án þess að þeir komi niður á framleiðslunni. Þurfa ekki einnig framleiðendur að kaupa þær vörur, sem 10—25% verðtollurinn er lagður á? Þurfa þeir ekki að kaupa t. d. fatnað og búsáhöld? Vitanlega, af þeirri einföldu ástæðu, að framleiðendur hafa mannlegar þarfir eins og aðrir, kemur þessi tollur niður á þeim. Getur hæstv. ráðh. ekki skilizt, að bóndi, sem áður komst af með t. d. 3 þús. kr. hreinar tekjur, komist bara síður af með þær tekjur, þegar búið er að tolla þær vörur, sem hann verður að kaupa? Ef hæstv. ráðh. vill halda því fram, að framleiðendur borgi ekki þennan skatt, þá skora ég á hann að standa frammi fyrir þeim og reyna að telja þeim trú um, að þeir geri það ekki.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessu fé, sem fengist með ýmsum þessum nýju álögum, ætti að verja til þess að hjálpa framleiðslunni, en hann gat þó ekki um tölurnar. Hæstv. ráðh. nefndi í því sambandi t. d. styrk til frystihúsa og framlög til fóðurtrygginga og kartöfluverðlauna og til iðnlánasjóðs. Þessi framlög eru áætluð aðeins 20 þús. kr., 25 þús. kr. og 30 þús. kr. En fyrsti liðurinn í upptalningunni í grg. frv., þar sem talin eru þau framlög, sem tekjuöflun frv. er ætluð til, er alþýðutryggingarnar með 300 þús. kr. framlagsáætlun og þriðji liðurinn nýbýlamyndanir, og til þeirra eru áætlaðar 200 þús. kr. Hvernig ætlar nú hæstv. ráðh. að fara að sanna, að framlag til alþýðutrygginga sé stuðningur við framleiðsluna? Vitanlega er það fyrst og fremst framleiðslan, sem verður að borga þetta framlag. Það eru og falsrök, þegar því er haldið fram, að það sé til hagsbóta fyrir landbúnaðinn að stuðla að nýbýlamyndun með þessum 200 þús. kr. Það er dálítið undarlegt, þegar hv. 4. landsk. og hæstv. fjmrh. eru að skýra frá því í öðru orðinu, hversu vont sé að koma í verð landbúnaðarafurðum, en í hinu orðinu vilja þeir gera ráðstafanir, sem hljóta að leiða til þess að auka samkeppnina um markaðinn fyrir sömu afurðir.

Það er vitanlegt, að till. og bæði til alþýðutrygginga og nýbýlamyndunar eru peningar, sem framleiðslan á að borga, en fær ekki að neinu leyti endurgreitt, miðað við árið 1936. Það má náttúrlega segja, að alþýðutryggingar séu í sjálfu sér þarft og gott mál. En vegna þess, hve mikilla framlaga þær krefjast úr ríkissjóði, þá held ég, að það hefði verið betra að velja einhvern hentugri tíma til þess að koma þeim á heldur en einmitt yfirstandandi tíma.

Nei. Ég held, því miður, að þessi eindæma fagnaðarboðskapur hæstv. fjmrh. um að þessi 1 millj. kr. skattaukning verði bara til þess að styðja framleiðsluna, yrði hvergi tekinn gildur í neinu landi, og fyrir hæstv. ráðh. þýði þess vegna lítið að koma með hann neinstaðar fram.

Þetta frv. grípur inn á það svið, þar sem grundvallarmismunur er á stefnu þeirra flokka annarsvegar, sem með völdin hafa farið frá því árið 1927, og Sjálfstfl. hinsvegar, sem verið hefir í stjórnarandstöðu. Þessi ágreiningur hefir verið um það, hvort hægt sé að lækna okkar fjárhagsörðugleika með því bara að hækka gjöldin. Þegar nú stjórnarflokkarnir standa saman um þetta spursmál: Á að skera niður og spara, eða á enn að hækka skatta og gjöld á þjóðinni? — þá hafa þeir verið trúir sinni stefnu og farið þá leiðina að hækka gjöldin. Það er að segja. þeir bregða út af þeirri stefnu fyrir hverjar kosningar. Þá segjast þeir ætla að spara og afnema tolla af nauðsynjavörum. Ef þeir fái að vera áfram, ná á ekki að sverfa að mönnum með því að leggja á þá mikil útgjöld o. s. frv. o. frv. Svo þegar til þess kemur að efna þessi fögru loforð, þá hefir það alltaf verið einkenni þessara flokka, þó að það hafi verið óskráð regla, að svíkja alltaf sín loforð. Þeir ættu bara að skrifa það á stefnuskrár sínar, að þeir svíki alltaf gefin loforð um þessa hluti. Eftir kosningarnar 1927 voru mál málanna ekki snert, sem búið var að tala svo mikið um, að koma þyrfti í rétt horf, svo sem gengismálið og tóbakseinkasölumálið. Það er eðlilegt, að þessir flokkar sviki nú gefin loforð, þegar kjósendur þeirra taka þá alltaf jafngilda, þó að þeir séu búnir að standa þá að sínum fyrri svikum.

Þessari stefnu, að hækka jafnan útgjöldin, auka jafnan fjárþörfina eftir því sem fjárhagsvandræðin sverfa meira að þjóðinni, henni er trúlega fylgt af núv. stj. Hæstv. fjmrh. er nú í raun veginn að leggja fram tekju- og gjaldahæstu fjárlög, sem nokkru sinni hafa verið lögð fyrir hæstv. Alþ. Hæstv. ráðh. sagði, að nú hefði verið gerð rétt áætlun í fjárl. þessa árs. Ég ætla nú að svara honum með hans eigin orðum. Ég hefi áður gert það með mínum eigin orðum. Nú skal svarið til hæstv. fjmrh. vera hans eigin orð, sem lesa má snemma í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Reynsla ársins, sem er að líða, sýnir það, að ýmsir liðir fjárl. fara fram úr áætlun. Má þar til nefna aðallega jarðræktarstyrkinn, rekstrarkostnað landhelgisgæzlu, berklavarnakostnaðinn, viðhaldskostnað vega, kostnað vegna samninga við önnur ríki og rekstrarhalla sjúkrahúsa.“

Þetta eru nú fjárlögin, sem hæstv. fjmrh. sagði, að væru áætluð alveg rétt. En nú segir hann, að ýmsir liðir fjárl. hafi viljað teygja sig fram úr áætlun. Já, það er nú svo. Það vilja ýmsir liðir fjárl. teygja sig fram úr áætlun. Hæstv. ráðh. skilst mér að hafi nú lýst því yfir, að loforð hans í fyrra um að fjárl. mundu standast áætlun hafi verið ómerk og innantóm orð. Það er eðlilegt, að menn taki minna mark á því nú, eftir að þetta er fram komið, þó að hæstv. ráðh. tali um áreiðanleik áætlana í fjárl.frv. nú.

Þessi mál, sem talin eru upp í grg. frv., þessi stefnumál stjórnarflokkanna, sem gert er ráð fyrir að kosti 1 millj. kr., eru að vísu ekki öll ný. En langmestan hluta þeirra mætti skera niður án þess að nokkur brestur yrði af, og þá þyrfti enga nýja skatta.

Slíkan formála og þann, sem prentaður er fyrir þessu frv., man ég ekki eftir að hafa séð fyrir nokkru frv. fyrr. 1. gr. frv. er bara agitation. Slíkt er svo ótrúlega lítilfjörlegt, sérstaklega þegar ég hygg, að það sé verið að skrökva þessu, sem tekið er fram í 1. gr. Þar stendur, að þessir skattar séu lagðir á til þess að greiða með þeim framlög til verklegra framkvæmda, nýbýlamyndunar og alþýðutrygginga. Ég vil a. m. k. fá að heyra yfirlýsingu um það frá hæstv. ráðh., hvort það sé meiningin n stofna með tekjunum af þessum sköttum sérstakan sjóð, sem varið verði svo til þessara framkvæmda. Sé ekki svo, þá eru þetta bara venjulegar ríkistekjur, sem fara þá alveg eins til þess t. d. að launa embættismönnum og nefndum og annars slíks, alveg jafnt og aðar tekjur ríkissjóðs. En sé það meiningin að verja þessum tekjum til þess að stofna sérstakan sjóð til þessari framkvæmda, — hvers vegna er þá þessi skattur ákveðinn aðeins til eins árs? Eiga framlög til alþýðutrygginga, fóðurtrygginga, nýbýlamyndunar og annars slíks að hætta eftir eitt ár? Greiðslur ofviðristjóns á Norðurlandi má vitanlega segja, að sé það eina af því, sem þessum skatti á að verja til, sem aðeins er bundið við eitt ár. Ég sé, að til þess á að verja 060 þús. kr., sem er rétt mátulegt handa fiskimálanefnd.

Ef ekki á að stofna sérstakan sjóð með tekjunum af þessum skatti til þessara framkvæmda, sem getið er í grg., þá er 1. gr. frv. ekkert annað en lýðskrum af lökustu tegund, sem stjórnarflokkarnir hafa sett þar til þess að reyna að dylja þann hroll og ótta, sem þeir finna til í sambandi við að bera fram þetta frv., því að með því er svikizt aftan að þjóðinni.

Á bls. 5 í grg. er þessi tekjuskattur kallaður hátekjuskattur og sagt, að hann byrji fyrst á (6000 kr. skattskyldum tekjur. (Fjmrh.: Vegna 10% viðaukans). Ég tek fúslega fræðslu um þetta. En mér hefir virzt hann byrja strax þegar skattskyldar tekjur eru orðnar yfir 2 þús. kr. eða í mesta lagi 3 þús. kr. Eftir því sem ég fæ bezt séð, lendir þessi svokallaði „hátekjuskattur“, sem stjórnarflokkarnir eru hér með, á öllum verkamönnum, sem hafa nokkurnveginn atvinnu, öllum sjómönnum, öllum búðarmönnum, öllum skrifstofumönnum, jafnvel hinum lægst launuðu, og líklega á sendisveinum líka, á öllum þeim mörgu, sem tekjur hafa sem nokkru nemur. Og þar með lendir hann á þeim mönnum, sem þessir menn hafa á sínu framfæri. Af þessu sjá allir, að hér er ekki um hátekjuskatt að ræða, því að þessi skattur grípur yfir alla þá, sem nokkurnveginn atvinnu hafa sem óbreyttir verkamenn. Þegar þetta er svo tekið í sambandi við útsvörin og miðað við þann skala, sem hafður var við niðurjöfnun þeirra síðast, þá er þetta farið að ganga svo nærri tekjum manna, að það er bersýnilegt, að ef slíkar skattaálögur eiga að standa nokkra stund, þá hlýtur hitt að koma á eftir, að stórkostlegar kröfur verða gerðar um hækkun kaups almennt. Ég þekki svo vel líf manna hér í Reykjavík og hvernig þeir komast af með tekjur sínar, sem hafa 8000—9000 kr. í tekjur, með þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra um lifnaðarhætti, en ekki endilega þeim kröfum, sem þeir gera sjálfir um lífsþægindi, — ég þekki þetta svo vel, að ég veit, og það vita aðrir hv. þm. líka, að það er ekkert annað en lýðskrum að kalla þá menn hátekjumenn, sem hafa laun upp undir 10 þús. kr. Menn geta vel lifað af minni launum. En að af minni launum megi taka gjöld sem af hátekjum væri, það er hrein og bein fjarstæða.

Ég hefi nú minnzt dálítið á verðtollinn nýja, sem mér finnst, að hv. stjórnarlið hefði átt að nefna sínu rétta nafni og kalla bara verðtoll. En það ber ótvírætt vott um þann ótta og hroll, um gripið hefir stjórnarliðið út af því að svíkjast aftan að þjóðinni með þennan toll, að það nefnir hann ekki sínu rétta nafni, vegna þeirra stóru orða, sem margir hv. stjórnarliðar hafa haft um þesskonar tollastefnu. Nei. þeir nefna þetta ekki verðtoll, heldur „gjaldið“.

Ef maður lítur á, hvaða reikninga yfir vörur á að stimpla með 5%“, þ. e. a. s. hvaða vörur á að leggja á 5% toll, sem er hreint ekki lítill tollur, þegar hann kemur ofan á annað, þó að hann væri lítill, ef hann einn væri lagður á þessar vörur, — þá sér maður, að þar eru m. a. talin búsáhöld allskonar, eldhúsáhöld allskonar, hreinlætisvörur, kaffi, sykur, olíulampar og tilheyrandi, ræstiduft, allskonar sápa og annað þessu líkt. Auðvitað lagar verðið á þessum vörum hér í útsölu sig eftir því, hvað vörurnar kosta frá útlöndum, að viðbættum tolli.

Svo kemur líka löng upptalning á vörum, sem eru tollaðar með 10% tolli. Þar er talinn allskonar fatnaður, band, garn og tvinni allskonar, kakaó, kryddvörur, sagó, skófatnaður, annar en gúmmiskófatnaður, smávarningur á og til fata, svo sem tölur, krókapor — já, kannske að fátæklingarnir eigi nú ekki að fá að hneppa upp um sig buxunum, og þó að þeir spanderí krókapörum efst í buxnaklaufina, að það eigi þá að kalla það lúxus. Ég get skilið, að hv. flm. og stjórnarflokkarnir, sem að þessu standa, séu ekki alveg ánægðir með þetta fyrsta afkvæmi sitt.

Í grg. fyrir frv. er komið inn á innflutninginn — og viðurkennt, að þar hafi ekki náðst sá rétti jöfnuður. Ég spurði hæstv. ráðh. á síðasta þingi, hvenær greiðslujöfnuður myndi verða kominn á. En Magnús Guðmundsson spurði annarar spurningar: hvenær myndi verða búið að rétta við fjárhag landsins. Hans spurningu kvaðst hæstv. fjmrh. ekki geta svarað. En minni svaraði hann á þá leið, að greiðslujöfnuður yrði kominn á um næstu áramót. Í grg. segir hann þó: „Þrátt fyrir þennan árangur er það þó svo, að lækkunin á innflutningnum hefir ekki náð að rétta greiðslujöfnuðinn við, eins og reiknað var með, þegar ákveða þurfti um úthlutun meginhlutans af innflutningsleyfunum.“ En um það er ekkert sagt, hve miklu hafi skeikað. Innflutnings- og gjaldeyririsn. hefir reiknað út, að innflutningurinn mætti ekki nema meiru en 32 millj. kr., en ég veit ekki betur en að hann sé kominn 4 millj. kr. fram yfir þá upphæð, þó að enn sé eftir nokkur hluti af árinu og ýmislegt eigi eftir að bætast á enn. Hann telur í milljónum það, sem skorið hafi verið niður, en honum láðist að geta þess, hve margar milljónir vanti á, að sparnaðarspár hans rætist.

Þá segir í grg.: „Er þó ráðgert að nota álagningarmöguleika á óþarfa varning, sem ríkið verzlar með, svo sem unnt er.“ Það á að hækka verð á þeim vörum, sem þeir telja óþarfar. Hversu mikið? hér er um raunverulegan skatt að ræða, sem leggst á tóbaksvörur, vín og fleira. Og ef til vill telja þeir allt óþarfa varning, sem ríkið verzlar með, svo sem bifreiðar, gúmmi, útvarpstæki o. s. frv. Svo kemur aðalatriðið. Þegar standa frammi fyrir því vandamáli „annaðhvort að færa niður útgjöld fjárl., til þess að mæta óhjákvæmilegum hækkunum á áætlunarliðum, eða afla nýrra tekna til þess að standast þær“, eins og í grg. segir. Og þá er spurningin, hvort rétt sé að taka upp milljónaaukningu á fjárl., þegar fjvn. hefir sýnt, hvernig hægt er að færa niður umframgreiðslu að miklum mun.

Hæstv. fjmrh. og hv. 4. landsk. hafa skýrt frá því, hvers vegna frv. er fram komið. En hvorugur þeirra hefir þó tekið fram hina raunverulegu ástæðu. Stj. og stjórnarflokkarnir hafa ætlað að halda uppi þeirri venju sinni að eyða miklu fé og slaka hvergi til; þeir vonast til að geta á þennan hátt náð handa ríkissjóði talsverðum tekjum, til þess að þurfa ekki að koma alveg slyppir fram fyrir kjósendur sína, þegar að kosningum kemur. Þetta er pólitísk ástæða, en engan veginn stjórnmálamannsleg eða heiðarleg.