29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú borið fram andmæli á við og dreif gegn frv. Hann fann að því, að stjórnarflokkarnir skyldu hafa leyft sér að semja um málið, áður en það var komið alllangt áleiðis í þinginu, eða jafnvel áður en það var komið inn í þingið. Þetta er auðvitað misskilningur á þingræði og lýðræði, eins og það er framkvæmt í sérhverju lýðræðislandi. Slík afgreiðsla mála sem þessi er svo áberandi í þeim löndum, sem lengst eru komin í þessu efni, að þingin geta afgr. málin á mjög skömmum tíma, af því að flokkarnir voru áður búnir að semja um þau. Þessi vinnubrögð ein megna að viðhalda þingræðinu. Ef flokkarnir geta ekki á þennan hátt komið sér saman um málin, þá getur þingræðið ekki haldið áfram að starfa.

Hv. þm. talaði nokkuð um einstök atriði frv. Hann sagði, að Framsfl. hefði alltaf barizt fyrir haftastefnunni, mér skildist af heimsku forráðamanna hans, og aðrir hefðu svo dregið dám þar af. Sjá allir, hverja þýðingu svona röksemdafærsla hefir. Allir vita, að Framsókn ein hefir í mörg ár haldið því fram, að hafa beri hömlur á innflutningnum. En hvernig er komið? Báðir hinir flokkarnir eru búnir að ganga inn á þessa stefnu. verzlunarþingið síðasta gekk líka út frá þessu sem sjálfsögðum hlut. M. ö. o. innflutningshömlurnar, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir verið að rakka niður nú um mörg ár á Alþingi, eru nú svo viðurkenndar, að hans flokkur hefir líka orðið að viðurkenna nauðsyn þeirra. Sterkasta stöð hans og hans nota, verzlunarstéttin, er nú fallin, því að hún sér, að þessum málum verður að skipa með valdboði ofan frá. Það er e. t. v. ekki þægilegt fyrir hv. 1. þm. Reykv. að fá þessa ályktun frá verzlunarþinginu, og ég er hissa á því, að hann skyldi vera að minnast á þetta.

Þetta er nú ekki einsdæmi um mál, sem Sjálfstfl. berst á móti. Þegar þau eru orðin almennt viðurkennd, snýst hann að jafnaði, til þess að láta fenna yfir, að hann hafi aður verið þeim andvígur.

Þá sagði hv. þm., að við hv. 4. landsk. hefðum haldið því fram, að þessi tollur væri lúxusskattur. Ég hefi nú aldrei sagt það. Ég sagði, að eftir frv. væri hægt að leggja misjafnt á vörurnar, eftir því, hvort þær væru nauðsynlegar eða ónauðsynlegar. Hv. þm. veit, að verzlunarstaða okkar er þannig, að á ýmsum sviðum getum við ekki komið innflutningshömlunum við. Sumar vörur, sem hljóta að teljast óþarfar, verður að flytja inn, vegna þessarar verzlunaraðstöðu okkar gagnvart öðrum löndum. En þá getur það ekki talizt óeðlilegt, þó að þær séu tollaðar.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði í fyrra haldið því fram í blekkingarskyni, að tekjurnar í ár myndu ekki verða minni en verið hefði, til þess að ginna þm. til að fallast á till. mínar. Ég sagði í fyrra, að ég gæti ekki sagt, hve innflutningurinn yrði í ár miklu lægri en í fyrra, en bjóst við, að upphæðin myndi nema 6—7 millj. kr. En þegar innflutningurinn var ákveðinn, var reiknað með því, að við myndum t. d. selja meiri fisk til Spánar en raun varð á. Voru það talin full rök fyrir því, að reikna mætti með meiri útflutningi en orðið hefir. Þá var líka reiknað með því, að í ár yrði meðalsíldveiði fyrir norðan, þannig, að síldarsalan gæfi af sér meiri gjaldeyri en hún hefir gert. Þess vegna var, þegar innflutningsleyfin voru ákveðin fyrir 1935, litið bjartari augum á þetta en reynslan hefir réttlætt. Þess vegna hefir ekki náðst greiðslujöfnuður á þessu ári. Hv. nm. sagði, eins og ég nefndi áðan, að ég hefði í fyrra lofað greiðslujöfnuði í árslok 1935. Þetta er ekki annað en útúrsnúningur. Ég sagði, að stefna bæri að því, að þessi greiðslujöfnuður næðist, og það hefir verið gert. En hvorki ég eða aðrir geta vitað fyrirfram, hvernig sölumöguleikar verða. Í þessu efni verður að ráða allt af líkum.

Horfurnar fyrir næsta ár eru nú ekki svo glæsilegar, að fært sé að reikna með sömu tekjum af innflutningnum. Því hefir þetta samkomulag orðið milli flokkanna. En um þetta er, sem sagt, vitanlega ekki hægt að vita neitt ákveðið fyrirfram. Við getum t. d. ekkert um það sagt. hvernig síldveiðin gengur næsta ár. Það verður allt að ráða af líkum. Til þess að vera ekki of bjartsýnir, hafa stjórnarflokkarnir komið sér saman um, að ekki beri að reikna með meiri tekjum næsta ár en ca. 14 millj. kr. við vitum báðir, að þó að hægt sé að komast misjafnlega nálægt þessu, þá er ekki hægt að vera viss. Yfirleitt vilja liðir fremur teygjast fram úr áætlun en að afgangur verði. því má aldrei tefla á tæpasta vaðið um þessar áætlanir.

Hv. þm. taldi sig hafa góð rök til að ná sér niðri á mér, er hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að landsreikningarnir færu ekki fram úr áætlun; því væri óhætt að treysta. Þetta er rangfærsla á orðum mínum. Ég sagði, að áætlunin væri hærri nú en áður og að reynt hefði verið að tryggja það betur en áður, að ekki yrði farið fram úr áætluninni. við hv. 1. þm. Skagf. ræddum um þetta, og okkur kom saman um, að um slík atriði væri ekkert hægt að segja með vissu fyrirfram. Og ég vil taka það fram, að þegar fram verður lögð útkoma þessa árs, þá mun það sýna sig, að komizt hefir verið nær en áður því marki, að samræma landsreikninga og fjárl. Ég get ekki sagt, hve mikill munurinn verður, en hann skal verða minni en áður. Mun verða unnið að því að þoka áætlunum sem næst þessu marki. En hvorki ég eða aðrir geta tekið ábyrgð á því, að ekki verði í neinu farið fram úr áætlun. Eftir á getum við svo deilt um það, að hve miklu leyti þetta hefir tekizt.

þá minntist hv. þm. á innlendu vörurnar og fellst á, að rétt væri að hlífa þeim við álagningu. En þar fann hann sér annað til. Sagði hann, að nær væri að stefna að því, að menn gætu selt þessar afurðir ódýrari. Þetta kemur nú ekki skattaálagningunni beinlínis við, en ég get þó ekki stillt mig um að benda á, að ýmsar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að afla ríkissjóði tekna, miða að því að minnka framleiðslukostnað þessara vara. Má þar nefna styrk til mjólkurbúa og frystihúsa og til kartöfluframleiðslunnar. Eða heldur hv. þm. ekki, að stj. sé með þeim ráðstöfunum að framkvæma hluti, sem hann telur sjálfur æskilega? Með þessu frv. eru teknir skattar aðallega af öðrum stéttum en framleiðslustéttunum og verkamönnum, til þess að létta fyrir þeim síðarnefndu.

Hv. þm. sagði, að þessir skattar lentu aðallega á framleiðslunni. Tekjuskatturinn kæmi á launamennina og leiddi til þess, að hækka yrði laun þeirra, en það myndi þyngja á fyrirtækunum og þannig koma niður á framleiðslunni. En eftir því hækkar skatturinn þá fyrst, er komið er fram yfir 6000 kr. skattskyldar tekjur. Hann hækkar ekki nema um 1—2 kr. kr fyrir neðan. Þetta svarar til 7000—8000 kr. launa. Framleiðendur eru þá ekki svo þjakaðir sem af er látið, ef þeir þurfa að láta undan kaupkröfum þessara manna, sem hafa 7000—8000 kr. laun og þar yfir. Ég er í engum vafa um, að þetta eru ekki annað en falsrök hjá hv. 1 þm. Reykv. Ekkert fyrirtæki mun láta undan þessum kröfum, og því mun ekki eyrir af þessum skatti lenda á framleiðslunni. Hv. þm. reyndi að gera sér mat úr því, að skattur þessi lenti á 3000 kr. tekjum og myndi þannig koma niður á sendisveinum. Í frv. eru felldir saman þrír skattstigar: fyrst upphaflegi skattatiginn, þá 10% viðbótin og loks þessi skattstigi, sem hér um ræðir. Þegar þrír skattstigar eru felldir saman á þennan hátt, er ekki hægt að hnitmiða allt upp á krónu. Af 4000 kr. skattskyldum tekjum er skatturinn t. d. 155 kr., í stað 154 kr. Þetta er aðeins tekniskt atriði og leiðir af því, að skattstigunum er steypt saman. Á 5000 kr. skattskyldum tekjum hækkar skatturinn um 2 kr. Það er svo sem ekki þýðingarlítið að geta upplýst það, að hér hafi verið sagt ósatt um 2 kr. Í sambandi við sendisveinana vil ég benda hv. þm. á það, að það er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að sendisveinar hafi yfirleitt 3000 kr. skattskyldar tekjur. Það svarar venjulega til 6000 kr. launa ef maðurinn hefir fjölskyldu. Það er misskilningur, að sendisveinar hafi það kaup og að þeir hafi yfirleitt fjölskyldu.

Hv. þm. talaði um, að núv. stjórnarflokkar færu alltaf sömu leiðina. Ef tekjurnar brygðust, gripu þeir alltaf til þess ráðs að hækka skattana. Hann gekk framhjá því, sem ég hefi bent á, að hér er farinn meðalvegur. Útgjöldin eru færð niður um nokkrar milljónir, en hinsvegar er aflað nokkurra millj. kr. nýrra tekna. Þessu verða menn að muna eftir. Á fjárl. er skorið niður það, sem nálega nemur tekjurýrnun þeirri, sem gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári, en nýjum útgjöldum er mætt með skattaálagningu. Ég get vel trúað því, að honum sé illa við 1. gr. frv., vegna þess að hún tekur það fram, að verja á þessum nýju skattaálögum til verklegra framkvæmda, til framlaga til atvinnuveganna og alþýðutrygginga. En þetta er sett inn í frv. til þess að taka af allan vafa um það, að þessir nýju skattar eru lagðir á til þess að mæta þessum fjárframlögum, en ekki til þess að mæta þeim fjárframlögum, sem nú þegar eru á fjárl. Til þess að mæta þeim útgjöldum var fært niður um 1 millj. kr. Það er því algerlega rangt hjá hv. þm., að þessar nýju skattálögur séu til þess að borga embættislaun og annað slíkt, því þær eru einungis til þess að standast nýmælin. En ég get vel hugsað, að hv. þm. sé illa við þetta, vegna þess að það kemur ljóst fram, að hver sá, sem beitir sér gegn þessu frv., beitir sér um leið gegn því, að þau nýmæli verði framkvæmd, sem peningarnir eiga að renna til. Og hv. þm. þykir það slæmt, að málið skuli vera sett þannig upp, að ekki sé hægt að þyrla upp um það moldryki og segja, að þessar nýju skattaálögur fari í venjuleg útgjöld og eyðslu. Honum þykir eðlilega slæmt, að þetta vopn skuli vera slegið úr hendi hans. En þeir, sem greiða atkv. á móti 1. gr. frv., eru mótfallnir því, að þessum málum sé hrundið í framkvæmd, nema þá því aðeins, að þeir geti sýnt fram á lækkun á öðrum liðum fjárl. til þess að mæta þeim. Og sú skylda hvílir á andstæðingum þessa máls, því þá fyrst er hægt að rökræða þetta mál fram og aftur. En meðan hv. stjórnarandstæðingar gera ekki annað, eins og hv. 1. þm. Reykv., en að teygja út úr einstök atriði og gagnrýna þau, er ekki hægt að rökræða þetta mál. Sannleikurinn er vitanlega sá, að þeir hafa ekki trú á því sjálfir, að mönnum falli betur þeirra leið, ef sýnt er, hvernig hún er, og þess vegna taka þeir það ráð að snakka um það vítt og breitt, að þetta séu voðalegar álögur, sem bezt sé að vera laus við. En þeir benda bara ekki á, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til þess að losna við þessar skattaálögur. Nei, sú skylda hvílir á hv. stjórnarandstæðingum að gera hreinlega grein fyrir sinni stefnu, og ef þeir ekki gera það, þá er það viðurkenning á því, að þeir hafa enga trú á því, að fólkið fallist á, að þeirra stefna sé réttari, ef sýnt er framan í hana eins og hún er. Það er náttúrlega vinsælt að segja: Við skulum ekki hafa neina skatta og við skulum styrkja landbúnaðinn og sjávarútveginn. — En þetta er bara fíflaskapur, ef ekki er jafnframt gerð grein fyrir því, hvar peningana á að taka. Ég vil þess vegna vænta þess, að næstu ræður hv. stjórnarandstæðinga snúist einmitt um það að leggja málið glöggt fyrir, svo að okkur syndugum mönnum gefist kostur á að sjá, hver hin eina rétta leið er í þessu máli, sem þeir eru alltaf að tala um. Hana höfum við ekki fengið að sjá. En ég sé nú, að hv. I. þm. Skagf. er búinn að biðja um orðið, og hann hefir verið mjög órór undir þessari ræðu, svo ég þykist viss um, að, hann ætlar sér nú að sýna fram á, hver hin eina rétta leið er.